Sunday, December 03, 2006

Stelpan frá Stokkseyri

Morgunblaðið birtir í dag kafla úr endurminningum Margrétar Frímannsdóttur, sem heita Stelpan frá Stokkseyri. Merkilegt að lesa kaflann um það þegar hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins og var að slást við karlaklíkuna í flokknum, þ.e. Ólaf Ragnar, Steingrím Joð, Svavar Gestsson og Einar Karl.

Í kaflanum sem birtur var lýsir Margrét aðdraganda þingflokksfundar Alþýðubandalagsins árið 1991 þar sem flokkurinn ætlaði að koma sér saman um stefnu varðandi EES-samninginn. Hún var búin að mæla sér mót við Ólaf Ragnar til að tala við hann en eftir að hún var komin þurfti hún að bíða heillengi fyrir utan skrifstofuna.

Á endanum brást þolinmæðin og hún fór inn. Þá sá hún að Ólafur sat á fundi ásamt Einari og ræddi við þá Steingrím og Svavar (sem voru víst hluti af ákveðnum armi í flokknum) um hver stefna flokksins í EES-málinu ætti að vera. Það fauk í Margréti við að sjá þetta og hún lýsir því hvernig hún hellti sér yfir Ólaf Ragnar út af þessu.

Athyglisvert hvernig málsvarar kvenréttindabaráttunnar og hinnar lýðræðislegu umræðu virðast hafa iðkað sína eigin pólitík á sínum tíma! Þar virðist karlaklíkan hafa setið í bakherbergjum og makkað á meðan konan - sem var í þokkabót þingflokksformaður - var látin bíða úti á meðan!