Saturday, December 16, 2006

Leiðarar...

Þeir eru með ólíkindum leiðarar Moggans þessa dagana. Í leiðara um kærurnar á hendur forstjórum olíufélaganna í fyrradag var borið saman mál forstjóranna og olíufélaganna annars vegar og Baugsmálið hins vegar. Þrátt fyrir að þessi mál séu að nánast öllu leyti ósambærileg, þar sem óumdeilt er að afbrot var framið í öðru tilfellinu en afar umdeilt í því seinna, þá er þetta sett fram sem sambærileg tilfelli.

Sagt er að Baugur hefði gert mikið af því að reyna að ná til almennings í vörn sinni í málinu. Meðal annars nýtt sér fjölmiðla í sinni eigu. Orðalagið er nánar tiltekið þannig að þeir hafi nýtt sér eignaraðild að fjölmiðlum og efast ég um að orðið eignaraðild hafi verið valið af tilviljun, enda hafa leiðarahöfundar blaðsins verið stærstu aðdáendur þess að sett yrðu lög um fjölmiðlastarfsemi á Íslandi sem kvæðu á um hámarkseignarhald einstakra aðila í fjölmiðlafyrirtækjum. Það voru hins vegar ekki nefnd nein dæmi í leiðaranum um þessa mögulegu notkun Baugs á fjölmiðlum sínum. Kannski finnst leiðarahöfundinum engin ástæða til að rökstyðja þessa grófu ásökun með dæmum. Og það var kannski heldur ekki ástæða til að taka fram að einn forstjóranna - sem beitir sér ekki að mati Moggans með sama hætti og Baugsmennirnir þegar hann eða fyrirtæki sitt fær kæru á sig - er einmitt einn stjórnarmanna Árvakurs, Kristinn Björnsson.

Og ekki skánaði það í dag, þegar Mogginn skrifar um þá hljóðlátu byltingu sem lög um fjármál flokkanna er. Hin lýðræðissinnaða ritstjórn blaðsins telur enga ástæðu til að gera athugasemdir við að þetta grundvallarmál hafi verið keyrt í gegn á tveimur dögum í þinginu og það nánast án umræðu. Þetta mál hefur að mati leiðarahöfundarins, gert það að verkum að flokkar og stjórnmálamenn eru orðnir frjálsir. Í leiðaranum segir:

Sú var tíðin að fjársterkir aðilar voru tilbúnir til að styðja starfsemi flokkanna fjárhagslega án þess að gera nokkra kröfu um endurgjald. Sumir höfðu þann hátt á að veita öllum flokkum stuðning. En tímarnir hafa breytzt og tíðarandinn er annar. Hver skyldi vera meginástæðan fyrir því, að stjórnmálaflokkarnir hafa allt í einu náð samstöðu sín í milli um þá hljóðlátu byltingu, sem er að verða í þessum efnum?

Þetta, eins og margt annað í skoðunum blaðsins, er mótað af þeirri sýn ritstjórans að fjármálaöflin í landinu hafi á einhverjum tímapunkti, fyrir nokkrum árum, umbreyst og orðið skaðleg þjóðfélaginu. Fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins virtist í mörgum málum deila þessari sýn ritstjórans. Gömlu góðu, flokks- og þjóðfélagshollu kaupmennirnir og heildsalarnir, sem máttu ekki vamm sitt vita, eru ekki lengur til staðar, heldur hefur ný stétt fjármálamanna stigið fram. Að mati Morgunblaðsins hlýða þessir menn ekki lögmálunum. Þeir raka inn skuggalegum gróða og verða svo stórir að samfélaginu stendur ógn af, þannig að það þarf nauðsynlega að setja lög um einokunarhringi. Þessir menn reyna að kaupa sér stjórnmálamenn, þannig að það þarf að setja lög um fjármál flokka. Og síðast en ekki síst borga þeir sér hærri laun en gengur og gerist - jafnvel hærri laun en ritstjóri Morgunblaðsins fær. Þetta gengur auðvitað ekki til lengdar og því er réttast að setja lög um fjármálalífið í heild sinni.

En besti kaflinn í leiðaranum um fjármál flokkanna fannst mér vera þessi:

Innan skamms verður enginn stjórnmálaflokkur háður fjárframlögum frá einkaaðilum og hið sama á við um þá einstaklinga, sem bjóða sig fram til stjórnmálastarfa.

Ef stuðningur Morgunblaðsins byggist á þessu, þurfa þeir að hugsa sig tvisvar um. Prófkjör verða haldin áfram og menn mega ennþá eyða peningum í prófkjör, þó það hafi verið sett ákveðin hámörk á þá upphæð. Í Reykjavík er sú upphæð um 8 milljónir. Það er því langt frá því útilokað að einstaklingar verði ekki háðir fjárframlögum, ef það er vandamálið í grunninn. Sjálfur er ég reyndar þeirrar skoðunar að eyðsla manna í prófkjörum sé ekki vandamál. Það sem þarf að tryggja er gagnsæi, þannig að bókhald sé opið. Takmörk og hámörk eru hins vegar út í hött. Í öðru lagi munu stjórnmálamenn alltaf reiða sig á stuðning annarra í tengslum við prófkjör, hvort sem það eru einkaaðilar eða aðrir og hvort sem um ræðir fjárhagslegan stuðning eða einfaldlega almennan stuðning í baráttnni. Einhverjir sem veita slíkan stuðning telja að þeir eigi inni greiða hjá viðkomandi, aðrir ekki. Þetta er til staðar áfram, hvað sem öllum lögum líður og afar ólíklegt að stjórnmálamenn verði algerlega óháðir öllu öðru.

Stærsti gallinn við þessi lög er auðvitað sá að þau eru hindrun fyrir þá sem vilja komast að í framtíðinni. Sitjandi stjórnmálamenn hafa alla þræði í hendi sér til að koma sjálfum sér á framfæri, koma málum í gegn og vekja athygli á afrekum sínum í fjölmiðlum, á meðan þeir sem eru nýir hafa ekki sömu möguleika. Þeirra möguleikar til að kynna sig og sín málefni hafa verið skertir stórkostlega með þessari löggjöf.

|

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Sæll Árni

Þessi afstaða þín gegn leiðaraskrifum Morgunblaðsins er afar forvitnileg, svo ekki sé meira sagt, svona í ljósi þess að þú vinnur þarna og hefur verið ákveðinn þungavigtarmaður, svona yfir sumartímann a.m.k.

Satt að segja næ ég varla að reka mig á neitt atriði sem ég er ósammála (leitaði nokkuð rækilega).

Það er síðan hægt að rifja það upp, í þessu samhengi, að ritstjóri Morgunblaðsins hefur þá skoðun að Morgunblaðið, sem dagblað, eigi að hafa skoðun á einstökum málum eins og hann opinberaði í sunnudagsviðtali í Kastljósi.

Þetta er afar umdeilt starfslegt gildi hjá ritstjóra dagblaðs.

Las eitt sinn skrif um þetta í Boston Globe (man í augnablikinu ekki hver skrifaði pistilinn, en hann var merktur nafni) þar sem því var haldið fram, að allar skoðanir sem fram kæmu í dagblöðum mættu ekki vera til þess fallnar að "skoðanamynda" dagblaðið sem slíkt vegna þess að ritstjórnir dagblaða þyrftu að vera suðupottur þverfaglegrar nálgunar á viðfansefni hvers dags. Því væru opinberar skoðanir dagblaðsins í heild í fyrsta lagi; ómögulega rétt mynd af heildrænum skoðunum ritstjórnar sem í eðli sínu væri dagblaðið, í öðru lagi; uppræting á trúverðugleika til langs tíma, og í þriðja lagi; röng siðferðileg nálgun út frá grundvallargildum blaðamennsku. Þetta var kjarninn í stuttu máli.

En ritstjóri Morgunblaðsins telur það sjálfsagt mál að Morgunblaðið hafi skoðun, og það er augljóst og þessar skoðanir hafa áhrif á fréttaskrif (dæmi: Samráð olíufélaganna og umræða um svokölluð "ofurlaun").

Það var til dæmis augljóst að Morgunblaðið var ekki hrifið að svokölluðum "ofurlaunum" ýmsra manna sem nutu góðs af því að borga lágan fjármagnstekjuskatt af kaupsýslu sinni. Mig minnir að þú hafir skrifað fréttir af þessu á sínum tíma. Þú getur því upplýst um það, frá fyrstu hendi, hvort yfirlýstar skoðanir Morgunblaðsins, um það ofsalega "óréttlæti" sem fylgdi fjármagnstekjuskattinum og "nýju auðmönnunum", höfðu áhrif á fréttaskrifin og fyrirsagnirnar á fréttunum.

Bestu kveðjur
Magnús Halldórsson

2:39 AM  
Blogger Árni said...

Sæll Magnús.

Er ég lentur í viðtali hjá Fréttablaðinu? :)

Ég er aðallega að velta fyrir mér þeim skoðunum sem eru settar fram í leiðurum moggans. Held að það sé bara eðlilegt, þú hlýtur sjálfur að hafa skoðanir á því hvernig leiðararnir á fréttablaðinu eru.

7:01 AM  
Anonymous Anonymous said...

Sæll

Ég spurði aldrei að neinu, en sagði aðeins að þú gætir upplýst um þetta:) sem ég held að þú getir gert.

Eðlilegasti hlutur í heimi að hafa skoðun á leiðurum, þó það nú væri!

kv
Maggi

7:22 AM  

Post a Comment

<< Home