Wednesday, May 31, 2006

Bara gamli Villi

Jæja, Vilhjálmur búinn að mynda meirihluta með Framsóknarmönnum. Bara góður og hæverskur kall. Meirihlutinn þarf ekki að koma á óvart, Vilhjálmur var með öll tromp á hendi eftir kosningarnar, sérstaklega þar sem Samfylkingin náði ekki inn fimm mönnum. Nú er bara spurningin hvort Björn Ingi verði stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Þetta voru athyglisverðar kosningar. Sennilega var meira rætt um baráttuna sjálfa í þetta sinn en hvaða flokk ætti að kjósa. Hvert sem litið var heyrðist sami söngurinn, að enginn munur væri á flokkunum, enginn málefnaágreiningur, ekki neitt djúsí til að smjatta á í heitu pottunum og á kaffihúsunum.

Samfylkingin fór þá leið að draga fram slagorð SUS til að hressa upp á baráttuna hjá sér. Það virtist nú ekki takast betur til en svo að fylgið hrundi í leiðinni.

Varðandi SUS þá má ég til að taka stutta söguskýringu um stefnu þeirra ágætu samtaka. Það urðu mikil umskipti urðu í forystu SUS á síðasta landsþingi. Þeir sem eitthvað hafa fylgst með baráttunni í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins (sem eins og flest innanflokksátök eru oft mun hatrammari en barátta milli flokka) vita að á landsfundi SUS sl. haust tók nýr hópur við stjórn SUS - hópur með nýjar áherslur. Þessi nýi hópur er ekki jafnlangt til hægri og þeir sem fyrir voru, reyndar munar töluvert miklu þar á. Sambærileg stjórnarskipti urðu í Heimdalli fyrir tveimur árum og í kjölfarið varð mikil áherslubreyting hjá félaginu.

Þessi breyting á líka eftir að verða hjá SUS. Orkan á landsþinginu síðasta haust virtist fara í flest annað en málefnavinnuna, sem var víst öllu fásóttari en formannskjörið eftir því sem ég kemst næst. Það er því ekki ólíklegt að stefna SUS muni breytast nokkuð næst þegar samtökin funda og markmið eins og að hætta með opinbera leikskóla og fleira í þeim dúr, hverfi. Það er allavega mín spá.

En hvað sem öllum innanbúðarátökum í SUS líður, dæmir það sig sjálft hjá Samfylkingunni að byggja kosningabaráttuna á stefnumálum ungliðahreyfingar annars flokks. Ég hef reyndar minnst á þetta áður og fékk skammir fyrir frá forystumanni UJ. Ég vona að hann taki mér ekki jafnilla núna.

En aftur að litlum áherslumun flokkanna í baráttunni. Málefnin voru vissulega svipuð og það má kannski segja að í þessari baráttu hafi komið mjög skýrt fram ákveðið einkenni á stjórnmálum í dag – enginn hafnar neinu. Engin hugmynd eða stefna er beint slæm - menn eru bara misfúsir til að setja hana í forgang. Enginn neitar frjálsum viðskiptum, góðu velferðarkerfi eða nútímalegum vinnubrögðum. Það bara eru ekki alltaf "réttar aðstæður" til að sinna þessu öllu. Til að mynda var alveg sama í kosningabaráttunni hvort argasti íhaldskurfur eða gamall kommi væru spurðir, þeir voru báðir jafnheitir fyrir því að gera allt fyrir gamla fólkið.

Kannski stendur Sjálfstæðisflokkurinn frammi fyrir ákveðnum hugmyndafræðivanda í sveitarstjórnarmálum almennt, sem er hversu lítið svigrúm er fyrir hægristefnuna. Sveitarfélögin hafa frekar afmarkaða tekjustofna og frekar sjálfsögð verkefni. Það er lítið svigrúm fyrir hagfræðikúnstir og frjálshyggju þegar menn eru að mestu háðir ríkinu um fjárframlög.

Helsta einkenni Sjálfstæðismanna á sveitastjórnarstiginu er þar af leiðandi ekki takmarkalaus áhugi á þjónustuíbúðum, hverfalýðræði eða grenndarkynningum heldur framkvæmdir og aftur framkvæmdir. Steypa og malbik eru músík í þeirra eyrum. Mér fannst þetta holdgervast í baráttunni í Kópavogi, þar sem Gunnar Birgisson og Ólafur Gunnarsson oddviti VG mynduðu pólanna. Verktakinn Gunnar sem hefur sett Íslandsmet í framkvæmdum í Kópavogi á móti öldrunarlækninum Ólafi sem hreinlega ljómar af umhyggju fyrir gamla fólkinu. Maður fékk það á tilfinninguna að á góðum degi myndi Gunnar setja upp hjálminn og kveikja sjálfur á steypuvélinni á meðan Ólafur gengi um Kópavoginn með hlustunarpípuna sína.

En á móti kemur að það verður ekki dekstrað við gamla fólkið öðruvísi en hús verði byggð. Biðlistar á leikskólum styttast ekki nema verktakar mæti með háværa og skítuga trukka og vélar og steypi leikskóla. Þannig að allt helst þetta nú í hendur. Kannski er það þess vegna sem margir álitsgjafar þjóðarinnar sáu samstarf VG og Sjálfstæðisflokks í borginni í hillingum - þetta eru hugsjónaflokkarnir í pólitíkinni.

Vilhjálmur virðist hafa boðið Svandísi upp á þetta, en fengið þau svör að það gengi ekki nema samstarf á vinstri vængnum yrði fullreynt. Sem er í raun neitun, því varla var með raunsæi hægt að ætlast til þess að Vilhjálmur biði í daga – jafnvel vikur eftir því að hinir fjórir oddvitarnir kæmust að því að fjórir flokkar í stjórn eru nokkrum flokkum of mikið.

Reyndar er ég frekar skeptískur á að Sjálfstæðisflokkur og VG myndu virka saman. Hvað sem svipuðum málefnum líður, þá er þetta bara ekki alveg sama tóbakið. Hvort tveggja hugsjónafólk en á svo ólíkan hátt. Nálgunin er gerólík – annar flokkurinn hampar ískaldri rökhyggju, hinn tilfinningaríkri réttlætiskennd.

Einn ágætur maður lýsti muninum á þessum flokkum þannig að á fundi hjá VG væri ekki óhugsandi að einhverjir felldu tár. Það yrði vel séð og jákvætt, merki um góðan fund. Hjá Sjálfstæðisflokknum yrði sá maður sem felldi tár á fundi trúlega rekinn úr flokknum. Þetta er eins og versta hjónaband.
|

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir skrallið og spjallið um helgina!
Mikið er ánægulegt að þú sért genginn í lið við Frjálslynda. Magnað að þeir taki við skráningum svona á nóttunni!
Svo klárum við bara seinna spjallið okkar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóð ;) Ertu ekki spenntur?

3:42 AM  

Post a Comment

<< Home