Thursday, May 25, 2006

Björn Ingi eða Sjálfstæðismeirihluti?

Framsóknarflokkurinn er lykillinn að því að hér verði ekki myndaður meirihluti, sagði Björn Ingi Hrafnsson á Borgarafundi NFS áðan. Það var svoldið einkennandi fyrir fundinn áðan að flokkarnir fjórir virtust flestir ætla sér að höggva í fylgi Sjálfstæðismanna. Sérstaklega virðist Björn Ingi leggja mikið upp úr því að valið snérist um hann eða áttunda mann Sjálfstæðismanna.

Það komu flestir vel út áðan, þótt Vilhjálmur Þ. hafi kannski haft sig minnst í frammi en það er í nokkru samræmi við taktinn í kosningabaráttunni hingað til. Það hefur hins vegar alltaf áhrif á svona fundi þegar áhorfendur eru jafnvirkir og raun bar vitni en gestir Borgarafundarins létu vel í sér og klöppuðu fyrir nánast öllum ummælum sem féllu. Mér hefur oft þótt það svoldið sérstakt að fylgjast með muninum á fundum sem fara fram með og án áhorfenda. Það þarf oft ekki nema 20-30 manns til að mæta á fundi til þess að breyta stemningunni og gera það að verkum að frambjóðendur æsast svoldið upp og reyna að skjóta og klekkja á hinum.

Það var hins vegar flott útspil hjá Svandísi að skjóta aðeins á Sigmund Erni og Egil fyrir karlaveldið á NFS sem fóru í vörn og þrættu fyrir þetta við Svandísi góða stund. Með þessu minnti Svandís á að hún er eina konan í forystusæti. Sérstaklega held ég að það geti haft áhrif á hugsanlega kjósendur Samfylkingarinnar, sem eru minnugir þess að Steinunni Valdís var hafnað í prófkjöri flokksins.

Laugardagskvöldið verður dramatískt. Pólitísk afrek eru í húfi. Vinni Vilhjálmur borgina fyrir Sjálfstæðismenn er ljóst að það muni fara í hinar pólitísku sögubækur og sama gildir um Björn Inga - nái hann inn er hann skrefi nær því að verða arftaki Halldórs Ásgrímssonar, þó það séu nú athyglisvert í sjálfu sér að menn vinni einhver pólitísk afrek með því að taka 5-6% fylgi fyrir margar milljónir. Aðrir flokkar virðast nú ekki jafnnálægt brúninni ef svo má að orði komast. Frjálslyndir og VG eru nokkuð örugg með sitt, þótt þeir síðarnefndu muni trúlega ná 2 mönnum.

Þetta verður spennandi...