Wednesday, February 14, 2007

Árin með Blogspot og nýtt upphaf

Já. Hér mun ég blogga framvegis, eftir áralanga sambúð með Bloggernum og Blogspot. Það samband var oft stirt á köflum, jafnvel þannig að ég átti það til að reiðast og finnast ég upplifa fullkomið skilningsleysi á mínum þörfum og væntingum. Stundum sauð upp úr með afleiðingum sem ég ætla ekki að fara út í hér og stundum komu tímabil þar sem sambandið var einfaldlega sett á ís.

Þessi kafli í lífi mínu er nú hjá. Hann tilheyrir fortíðinni og eftir að hafa gengið í gegnum þetta held ég að þessi reynsla hafi gert mig sterkari. Ég er allavega tilbúinn að skuldbinda mig á ný.

Ég er sem sagt búinn að færa mig yfir á Moggabloggið - www.arnih.blog.is - þið getið skoðað mig þar.

Friday, February 09, 2007

Stúdentaráðskosningar

Úrslitin úr kosningunum bárust í nótt um þrjúleytið og þá var tilkynnt að Röskva hefði náð meirihluta í Stúdentaráði, Háskólalistinn misst sinn eina mann en Vaka fékk fjóra menn inn í ráðið og er nú, í fyrsta skipti frá árinu 2001, í hreinum minnihluta.

Það munaði ekki miklu, ekki nema 20 atkvæði skildu að Vöku og Röskvu í ár. Það er í anda undanfarinna kosninga að munurinn sé ekki mikill. Í fyrra var að vísu mikill munur á fylkingunum, Vaka fékk rúmlega 300 atkvæðum meira en Röskva en vantaði 4 atkvæði upp á að tryggja sér fimmta manninn. Svipuð staða kom upp árið 2005 en þá vantaði 25 atkvæði upp á að Vaka fengi sinn fimmta mann.

Röskvan tekur mikið stökk, hvort sem litið er á atkvæðafjölda eða prósentur og vinnur meirihlutann. Af bloggsíðum Röskvuliða og því sem ég hef heyrt út undan mér að dæma virðist þetta koma þeim sjálfum nokkuð á óvart, ýmsir hafi spáð því að þetta færi 5-4 fyrir Vöku en enginn þorað að vona að meirihlutinn félli þeim í skaut. En svona gerist þetta stundum.

Ég óska Röskvuliðum til hamingju með sigurinn.