Monday, November 27, 2006

Óskiljanlegir vinstri grænir

Ég skil ekki alveg vinstri græna. Þeir hafa talað gegn stóriðju og Kárahnjúkavirkjun af miklum krafti undanfarin ár. Þegar þeir eru spurðir hvað eigi að gera í staðinn hafa þeir yfirleitt svarað því til að byggja eigi á annars konar auðlindanýtingu og nefna gjarnan auðlindina sem aldrei gengur til þurrðar, þ.e. mannauð og hugvit. Flokkurinn hefur þannig tekið að sumu leyti upp málflutning Andra Snæs, sem bendir á að við sem þjóð eigum alltaf ákveðið val um hvaða auðlindir við viljum nýta og hvort það sé ekki skynsamlegra að reyna að virkja sköpunarkraftinn í fólki til góðra verka og atvinnusköpunar en að ráðast í stórtækar stóriðjuaðgerðir með tilheyrandi umhverfisspjöllum.

Gott og vel, það er ýmislegt til í þessu. En samt er frekar holur hljómur í þessum málflutningi þegar á reynir. Á dögunum var kynnt skýrsla nefndar um alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi og hvað við gætum gert til að laða hingað erlend fyrirtæki og fjármálamenn og þar með auka verulega skatttekjur ríkissjóðs. Þessi hugmynd er finnst mér alveg bráðsnjöll. Hún felur í sér að við nýtum hugvitið og mannauðinn í tengslum við fjármálastarfsemi enn meira en gert er núna en það mun ekki svo mikið sem eitt blaktandi strá þurfa að fara undir vatn við það að fjármálafyrirtæki ákveði að koma hingað til landsins. Fullt af vel launuðum störfum í fjármálageiranum myndu hins vegar skapast hér á landi.

En hver eru viðbrögð vinstri grænna við þessum hugmyndum? Nánast engin. Enginn steig fram og fagnaði þessu. Í úttekt sem Viðskiptablaðið birti um daginn á þessum tillögum var leitað viðbragða forystumanna flokkanna og tóku þeir allir vel í þetta nema Ögmundur Jónasson, sem var mótfallinn þessum hugmyndum. Fannst þær ekki góðar.

Vinstri grænir vilja sum sé ekki stóriðju, heldur vilja þeir byggja á mannauð. Samt styðja þeir ekki hugmyndir um að nýta mannauð í tengslum við fjármálastarfsemi hér á landi. Má þá bara nýta mannauð á ákveðnum sviðum? Fá kjósendur kannski að heyra það við tækifæri hvaða atvinnugreinar þóknast vinstri grænum og hverjar ekki?

Ætli þetta séu leifar af gamalli andstöðu við erlent fjármagn og kapítalisma? Af hverju í ósköpunum má ekki reyna að laða að fyrirtæki og fjármálamenn til að hafa skattalegt heimilisfesti hér á landi og tryggja ríkinu þannig tekjur sem það fengi ekki annars? Hvað er óréttlátt eða rangt við það? Þetta eru tekjur sem væri hægt að nota í þágu góðra mála, t.d. í velferðarkerfið eða menntamál eða til að lækka skatta og álögur á almenning.

En nei... þessi gerð mannauðs er ekki vinstri grænum þóknanleg!
Pródúseruð iðrun

Ég er yfirleitt hrifinn af því þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir að stíga fram og viðurkenna mistök sem þeir eða flokkurinn þeirra hafa gert. Það myndi örugglega skapa eðlilegri og uppbyggilegri umræðu ef pólitíkusar væru ekki jafnfastheldnir á að sín afstaða væri sú rétta og eins ef það væri ekki til marks um vindhanaskap og ótrúverðugleika að skipta öðru hvoru um stefnu eða segjast hafa gert mistök.

Þess vegna er það í sjálfu sér jákvætt að Framsóknarflokkurinn stigi fram og fari að gera upp sín mál í tengslum við Íraksstríðið. En tímasetningin á þessu útspili Jóns Sigurðssonar og aðstæður flokksins að öðru leyti eru þannig að maður getur ekki annað en efast um grundvöllinn fyrir yfirbótinni.

Ætli iðrunin hefði komið ef Framsóknarflokkurinn væri með 15-20% fylgi samkvæmt könnunum? Einhvern veginn efast ég um það. Ætli Jón Sigurðsson hefði stigið fram með þessum hætti ef hann hefði ekki verið gagnrýndr fyrir að hafa ekki fært neitt nýtt fram til Framsóknarflokksins þrátt fyrir að hafa verið formaður í nokkra mánuði og stutt sé í tvísýnar þingkosningar?

Ég fékk á tilfinninguna að þetta væri frekar úthugsað og pródúserað útspil hjá þeim. Miðað við ástand Framsóknarflokksins viriðst hann tilbúinn til að teygja sig mjög langt til að ná til kjósenda. Það er reyndar miður að hann endurskoði ekki í leiðinni afstöðu sína til landbúnaðarmála og hvort það megi ekki endurskoða eitthvað og stokka upp í styrktarkerfinu í landbúnaði? Það væri útspil sem mynda mælast vel fyrir hjá mörgum. Ég mundi ekki efast um þá iðrun.

Friday, November 24, 2006

Dagur réttlætis fyrir íslenska veitingastaði

Maður getur ekki annað en dáðst að þrautseigjunni í þessum íslenska glæpahauk sem var dæmdur í héraðsdómi í gær. Brot hans eru alls orðin 49 á nokkurra ára tímabili. Þetta illfygli hefur þó einkum einbeitt sér að einni tegund afbrota, þ.e. að borða á veitingahúsum án þess að borga fyrir. Eða eins og héraðsdómarinn bendir á:

Er nærri að telja að ákærði sé síbrotamaður að þessu leyti og ljóst að hann færist heldur í aukana fremur en hitt...
Síbrotamaður í veitingahúsasvindli! Það er freistandi að pæla aðeins í tölfræðinni. Maðurinn er dæmdur fyrir 49 brot á þessu tímabili - þ.e. 49 skipti þar sem hann hefur beinlínis verið staðinn að verki við að borða á veitingastað án þess að borga fyrir. Á móti hljóta að vera talsvert mörg skipti þar sem þetta hefur tekist hjá honum, þ.e. að hann hafi sleppt því að borga án þess að það hafi komist upp. Nú þekki ég reyndar ekki tölfræðina í þessum bransa - en hver ætli sé stuðullinn á þessum brotum? Þrjú skipti fyrir hvert eitt sem hann er tekinn? Þetta hlýtur að minnsta kosti að vera nokkuð arðbært, því annars hefði hann væntanlega ekki stundað þetta svona grimmt. Ætli það sé ekki nokkuð varlega áætlað að það hafi kannski verið nokkur hundruð skipti sem hann hefur borðað án þess að borga.

Þessi matgæðingur fékk líka makleg málagjöld - 12 mánuða fangelsi og ekki skilorðsbundið. Ætli hann verði látinn borga fyrir matinn í steininum?

Monday, November 20, 2006

Skellti mér í bíó um daginn...

Horfði á þessa ljómandi fallegu og hrífandi frásögn af ungum dreng - óhörnuðu hjarta, sem reynir að fóta sig á svelli lífsins. Þetta var kannski fyrst og fremst þroskasaga ungs manns sem lærir að þekkja sjálfan sig í síbreytilegum veruleika. Segja má að hann takist á við bæði hið illa í heiminum og í sjálfum sér en leiti inn á við og finni sig, sem og hvernig hann vilji hafa drykkinn sinn. Hann uppgötvar smám saman að það er engum hægt að treysta en um leið leitar á hann sú áleitna spurning hvort hægt sé að fara í gegnum þetta líf án þess að leyfa sér að verða ástfanginn og berast áfram með tilfinningunum einum saman.

Bond klikkar ekki.

Wednesday, November 15, 2006

Ríkisvæðing stjórnmálanna?

Það gætu verið stórtíðindi á leiðinni í umræðunni um fjármál flokkanna. Nefnd sem Halldór Ásgrímsson skipaði á sínum tíma til að fara yfir þessi mál er langt komin með sína vinnu. Af þessari frétt Rúv að dæma er jafnvel mögulegt að það líti dagsins ljós frumvarp á næstu dögum.

Sú leið sem farin verður, sé þessi frétt sönn, er að auka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka en setja í staðinn hámark á framlög til flokkanna. Með öðrum orðum er verið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana. Er það réttlætanlegt að skattgreiðendur fjármagni starfsemi, þ.m.t. kosningabaráttur, stjórnmálaflokkanna? Eigum við að greiða fyrir auglýsingaherferðir Framsóknarflokksins úr sameiginlegum sjóðum landsmanna? Það er allavega umhugsunarvert, þótt aðrar leiðir við fjármögnun flokka séu langt í frá gallalausar.

En hvað telst til stjórnmálaflokka? Þyrfti félagsskapur eins og t.d. Framtíðarlandið eða Frjálshyggjufélagið, sem hafa bæði lýst yfir ákveðnum áhuga á að bjóða fram til Alþingis að gefa upp framlög til sín? Eða væri það bara um leið og þau næðu manni á þing? En ættu slík félög þá engan rétt á styrkjum þangað til? Kannski verður þetta tæklað í væntanlegu frumvarpi.

Hér má að gamni sjá eitt þaulframlagðasta frumvarp þingsins, frá Jóhönnu Sigurðardóttur um lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Hún lagði þetta fram allavega á 6 þingum í röð, í nafni ýmissa flokka með ýmsum meðflutningsmönnum, en það dó alltaf. Aldrei að vita nema hennar tími komi eftir allt saman.

Monday, November 13, 2006

Heildstæð samlögunarstefna og Dorrit

Egill Helgason sagði í Silfrinu að Margrét Sverrisdóttir hefði ekki viljað koma fram í þættinum með Jóni Magnússyni, lögmanni og bróður. Það finnst mér athyglisvert. Steingrímur Sævarr benti á það um daginn á fjölmiðli sínum að í grein Margrétar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu væri hún í raun að afneita málflutningi Jóns þegar hún sagði að þeir sem mismuna fólki út frá trúarbrögðum ættu ekki erindi í flokkinn.

Eiríkur Bergmann lýsti þessu hins vegar skýrt og skorinort - við þurfum heildstæða samlögunarstefnu. Þetta er vandinn. Þeir sem hafa velt þessum málum fyrir sér átta sig á því að þetta eru flókin mál og engar heildarlausnir í boði. Fyrir vikið hljóma þeir froðukenndir á meðan Sigurjón Þórðarson, Jón Magnússon og Magnús Þór tala um að 1. maí hafi verið svartur dagur í sögu landsins. Þeir smætta umræðuna og einfalda til að ná í atkvæði og spila sig í þokkabót sem píslarvætti og fórnarlömb. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt neinar áþreifanlegar lausnir frá þeim í þessum málum - heldur bara talað um að þetta sé vandamál.

Friðbjörn Orri kom annars sterkur í Silfrið. Þetta er auðvitað samofið uppgangi og kraftmiklu samfélagi. En Jón Magnússon toppaði þetta með því að vitna í ummæli Dorritar um að það ætti ekki hver sem er að fá að verða Íslendingur. Ætli Dorrit kjósi Frjálslynda í vor?

Friday, November 10, 2006

Tímanna tákn

Bogi Ágústsson lýsti því yfir í kvöldfréttum að Daniel Craig væri með æðislegan rass.

Wednesday, November 01, 2006

Útlendingarnir að komast á dagskrá

Umræðan um útlendinga hér á landi er að aukast. Á ýmsa vegu. Heimdallur stóð fyrir málfundi um þessi mál um daginn og í einu erindanna kom meðal annars fram að hugsanleg ástæða þess að þessi mál væru ekki á dagskrá stjórnvalda meira en raun ber vitni væri að umfjöllunin væri lítil í fjölmiðlum. Um leið og mál komast á dagskrá í fjölmiðlum fara stjórnvöld að veita þeim athygli. Þetta er held ég að mörgu leyti rétt mat en kannski líka sorgleg staðreynd. Fjölmiðlar veita málum sjaldnast athygli nema upp hafi komið vandamál og þegar um innflytjendur er að ræða er töluverð hætta á að þetta verði sett fram sem vandamál sem beinast að þeim sjálfum.

Það má reyndar segja að umfjöllun fjölmiðla um útlendinga hafi verið með mesta móti undanfarna daga. Það var greint frá því að BSRB teldi fjölgun útlendinga ekki heppilega þróun og svo birti Morgunblaðið langa grein um þessi mál, þar sem meðal annars kom fram að nemendur af erlendu bergi brotnir séu um 40% í sumum skólum landsins. Svo komu auðvitað fréttir af líkamsárásinni og meintri nauðgunartilraun á Cafe Victor sem ég minntist á í síðustu færslu.

Og það toppaði síðan eiginlega allt að sjá forsíðu Blaðsins í dag. Þar var forsíðufréttin á þá leið að tólf útlendingar hefðu verið kærðir fyrir líkamsárásir á „stuttum tíma. Þar af hefðu 10 manns verið kærðir í tenglum við málið sem kom upp á Victor, fyrir nokkru var svo suðurevrópskur maður fyrir nauðgun og annar af sama uppruna einning vegna meintrar nauðgunar. Þetta gerðist raunar á tveggja mánaða tímabili, sem blaðamaður telur stuttan tíma. Nú eru þetta að sjálfsögðu hræðilegir atburðir sem um ræðir, en þessi framsetning hjá Blaðinu er alveg ótrúlega villandi.

Þá fer nú ekki alveg saman heimildum Blaðsins og Morgunblaðsins um þetta mál. Blaðið talar um að 10 manns hafi verið kærðir en í Morgunblaðinu kemur fram að hjónin (sem urðu fyrir ofbeldinu á Victor) hafi lagt fram kæru á hendur fjórum mönnum - sem er ekki einungis sex útlendingum færra, heldur er líka talsverður munur á að leggja fram kæru hjá lögreglu og að lögreglan hafi gefið hana út. Í stuttu máli er hér verið að krydda framsetninguna verulega til að mála einhverja mynd af ofbeldishneigðum útlendingum, á sama tíma og fréttir berast t.d. um að þeim fjölgi verulega hér á landi. En hvenær er það tekið fram að afbrotamenn hér á landi, meintir eða raunverulegir, séu t.d. af Norðurlandi eða úr Keflavík? Það er ekki gert enda þætti fólki það ekki skipta máli. Það sem er alltaf villandi við svona framsetningu eins og hjá Blaðinu er að með því er máluð mynd af útlendingum út frá örfáum svörtum sauðum.

Í stíl við forsíðufréttina var svo viðhorfsgrein dagsins í Blaðinu, þar sem hæstaréttarlögmaðurinn Jón Magnússon, sem hefur nýverið leitt Nýtt afl inn í Frjálslynda flokkinn, skrifaði um Ísland fyrir Íslendinga. Þar fjallar hann um fjölgun innflytjenda hér á landi og segir svo meðal annars:

„Við Íslendingar höfum verið heppnir með að stór hluti fólks sem hingað hefur komið er harðduglegt fólk. Það breytir því ekki að við viljum hafa okkar velferðarsamfélag fyrir Íslendinga. Við viljum ekki missa algerlega stjórn á þróuninni. Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi Múhameðs sem hefur sín eigin lög og virðir ekki lágmarksmannréttindi og misbýður konum. Ég vil ekki fá til Íslands hópa sem eru til vandræða allsstaðar í Evrópu.

Þetta er ekki ýkja málefnalegt upplegg. Svartir sauðir eru til allsstaðar, í öllum þjóðfélögum hvort sem þau eru vestræn og nútímaleg eða fjær okkur og njóta ekki sömu lífsgæða og við. Og þegar við erum farin að leika þann leik að ætla að velja og hafna eftir duttlungum og kreddum stjórnmálamanna, sem vilja t.d. alls ekki „bræðralag Múhameðserum við ekki á góðri leið.

Það er trúlega ýmislegt til í þeirri kenningu að málefni komist ekki á dagskrá fyrr en fjölmiðlar fara að fjalla um þau. En það er súrt í broti ef aukin umfjöllun fjölmiðla um málefni innflytjenda verði með þeim formerkjum að helstu fréttapunktarnir verði að það hafi útlendingur hafi verið aðili að líkamsárás eða að fjölgun útlendinga sé óheppileg þróun.