Wednesday, May 31, 2006

Bara gamli Villi

Jæja, Vilhjálmur búinn að mynda meirihluta með Framsóknarmönnum. Bara góður og hæverskur kall. Meirihlutinn þarf ekki að koma á óvart, Vilhjálmur var með öll tromp á hendi eftir kosningarnar, sérstaklega þar sem Samfylkingin náði ekki inn fimm mönnum. Nú er bara spurningin hvort Björn Ingi verði stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Þetta voru athyglisverðar kosningar. Sennilega var meira rætt um baráttuna sjálfa í þetta sinn en hvaða flokk ætti að kjósa. Hvert sem litið var heyrðist sami söngurinn, að enginn munur væri á flokkunum, enginn málefnaágreiningur, ekki neitt djúsí til að smjatta á í heitu pottunum og á kaffihúsunum.

Samfylkingin fór þá leið að draga fram slagorð SUS til að hressa upp á baráttuna hjá sér. Það virtist nú ekki takast betur til en svo að fylgið hrundi í leiðinni.

Varðandi SUS þá má ég til að taka stutta söguskýringu um stefnu þeirra ágætu samtaka. Það urðu mikil umskipti urðu í forystu SUS á síðasta landsþingi. Þeir sem eitthvað hafa fylgst með baráttunni í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins (sem eins og flest innanflokksátök eru oft mun hatrammari en barátta milli flokka) vita að á landsfundi SUS sl. haust tók nýr hópur við stjórn SUS - hópur með nýjar áherslur. Þessi nýi hópur er ekki jafnlangt til hægri og þeir sem fyrir voru, reyndar munar töluvert miklu þar á. Sambærileg stjórnarskipti urðu í Heimdalli fyrir tveimur árum og í kjölfarið varð mikil áherslubreyting hjá félaginu.

Þessi breyting á líka eftir að verða hjá SUS. Orkan á landsþinginu síðasta haust virtist fara í flest annað en málefnavinnuna, sem var víst öllu fásóttari en formannskjörið eftir því sem ég kemst næst. Það er því ekki ólíklegt að stefna SUS muni breytast nokkuð næst þegar samtökin funda og markmið eins og að hætta með opinbera leikskóla og fleira í þeim dúr, hverfi. Það er allavega mín spá.

En hvað sem öllum innanbúðarátökum í SUS líður, dæmir það sig sjálft hjá Samfylkingunni að byggja kosningabaráttuna á stefnumálum ungliðahreyfingar annars flokks. Ég hef reyndar minnst á þetta áður og fékk skammir fyrir frá forystumanni UJ. Ég vona að hann taki mér ekki jafnilla núna.

En aftur að litlum áherslumun flokkanna í baráttunni. Málefnin voru vissulega svipuð og það má kannski segja að í þessari baráttu hafi komið mjög skýrt fram ákveðið einkenni á stjórnmálum í dag – enginn hafnar neinu. Engin hugmynd eða stefna er beint slæm - menn eru bara misfúsir til að setja hana í forgang. Enginn neitar frjálsum viðskiptum, góðu velferðarkerfi eða nútímalegum vinnubrögðum. Það bara eru ekki alltaf "réttar aðstæður" til að sinna þessu öllu. Til að mynda var alveg sama í kosningabaráttunni hvort argasti íhaldskurfur eða gamall kommi væru spurðir, þeir voru báðir jafnheitir fyrir því að gera allt fyrir gamla fólkið.

Kannski stendur Sjálfstæðisflokkurinn frammi fyrir ákveðnum hugmyndafræðivanda í sveitarstjórnarmálum almennt, sem er hversu lítið svigrúm er fyrir hægristefnuna. Sveitarfélögin hafa frekar afmarkaða tekjustofna og frekar sjálfsögð verkefni. Það er lítið svigrúm fyrir hagfræðikúnstir og frjálshyggju þegar menn eru að mestu háðir ríkinu um fjárframlög.

Helsta einkenni Sjálfstæðismanna á sveitastjórnarstiginu er þar af leiðandi ekki takmarkalaus áhugi á þjónustuíbúðum, hverfalýðræði eða grenndarkynningum heldur framkvæmdir og aftur framkvæmdir. Steypa og malbik eru músík í þeirra eyrum. Mér fannst þetta holdgervast í baráttunni í Kópavogi, þar sem Gunnar Birgisson og Ólafur Gunnarsson oddviti VG mynduðu pólanna. Verktakinn Gunnar sem hefur sett Íslandsmet í framkvæmdum í Kópavogi á móti öldrunarlækninum Ólafi sem hreinlega ljómar af umhyggju fyrir gamla fólkinu. Maður fékk það á tilfinninguna að á góðum degi myndi Gunnar setja upp hjálminn og kveikja sjálfur á steypuvélinni á meðan Ólafur gengi um Kópavoginn með hlustunarpípuna sína.

En á móti kemur að það verður ekki dekstrað við gamla fólkið öðruvísi en hús verði byggð. Biðlistar á leikskólum styttast ekki nema verktakar mæti með háværa og skítuga trukka og vélar og steypi leikskóla. Þannig að allt helst þetta nú í hendur. Kannski er það þess vegna sem margir álitsgjafar þjóðarinnar sáu samstarf VG og Sjálfstæðisflokks í borginni í hillingum - þetta eru hugsjónaflokkarnir í pólitíkinni.

Vilhjálmur virðist hafa boðið Svandísi upp á þetta, en fengið þau svör að það gengi ekki nema samstarf á vinstri vængnum yrði fullreynt. Sem er í raun neitun, því varla var með raunsæi hægt að ætlast til þess að Vilhjálmur biði í daga – jafnvel vikur eftir því að hinir fjórir oddvitarnir kæmust að því að fjórir flokkar í stjórn eru nokkrum flokkum of mikið.

Reyndar er ég frekar skeptískur á að Sjálfstæðisflokkur og VG myndu virka saman. Hvað sem svipuðum málefnum líður, þá er þetta bara ekki alveg sama tóbakið. Hvort tveggja hugsjónafólk en á svo ólíkan hátt. Nálgunin er gerólík – annar flokkurinn hampar ískaldri rökhyggju, hinn tilfinningaríkri réttlætiskennd.

Einn ágætur maður lýsti muninum á þessum flokkum þannig að á fundi hjá VG væri ekki óhugsandi að einhverjir felldu tár. Það yrði vel séð og jákvætt, merki um góðan fund. Hjá Sjálfstæðisflokknum yrði sá maður sem felldi tár á fundi trúlega rekinn úr flokknum. Þetta er eins og versta hjónaband.

Thursday, May 25, 2006

Björn Ingi eða Sjálfstæðismeirihluti?

Framsóknarflokkurinn er lykillinn að því að hér verði ekki myndaður meirihluti, sagði Björn Ingi Hrafnsson á Borgarafundi NFS áðan. Það var svoldið einkennandi fyrir fundinn áðan að flokkarnir fjórir virtust flestir ætla sér að höggva í fylgi Sjálfstæðismanna. Sérstaklega virðist Björn Ingi leggja mikið upp úr því að valið snérist um hann eða áttunda mann Sjálfstæðismanna.

Það komu flestir vel út áðan, þótt Vilhjálmur Þ. hafi kannski haft sig minnst í frammi en það er í nokkru samræmi við taktinn í kosningabaráttunni hingað til. Það hefur hins vegar alltaf áhrif á svona fundi þegar áhorfendur eru jafnvirkir og raun bar vitni en gestir Borgarafundarins létu vel í sér og klöppuðu fyrir nánast öllum ummælum sem féllu. Mér hefur oft þótt það svoldið sérstakt að fylgjast með muninum á fundum sem fara fram með og án áhorfenda. Það þarf oft ekki nema 20-30 manns til að mæta á fundi til þess að breyta stemningunni og gera það að verkum að frambjóðendur æsast svoldið upp og reyna að skjóta og klekkja á hinum.

Það var hins vegar flott útspil hjá Svandísi að skjóta aðeins á Sigmund Erni og Egil fyrir karlaveldið á NFS sem fóru í vörn og þrættu fyrir þetta við Svandísi góða stund. Með þessu minnti Svandís á að hún er eina konan í forystusæti. Sérstaklega held ég að það geti haft áhrif á hugsanlega kjósendur Samfylkingarinnar, sem eru minnugir þess að Steinunni Valdís var hafnað í prófkjöri flokksins.

Laugardagskvöldið verður dramatískt. Pólitísk afrek eru í húfi. Vinni Vilhjálmur borgina fyrir Sjálfstæðismenn er ljóst að það muni fara í hinar pólitísku sögubækur og sama gildir um Björn Inga - nái hann inn er hann skrefi nær því að verða arftaki Halldórs Ásgrímssonar, þó það séu nú athyglisvert í sjálfu sér að menn vinni einhver pólitísk afrek með því að taka 5-6% fylgi fyrir margar milljónir. Aðrir flokkar virðast nú ekki jafnnálægt brúninni ef svo má að orði komast. Frjálslyndir og VG eru nokkuð örugg með sitt, þótt þeir síðarnefndu muni trúlega ná 2 mönnum.

Þetta verður spennandi...
Lýðræðið...

Gott viðhorf hjá Davíð Loga í Mogganum í dag. Í stuttu máli er hann að vekja athygli á því hvað atkvæði fólks hafa í raun lítil áhrif á málefnin, t.d. er nánast vonlaust fyrir þann sem ætlar að haga atkvæði sínu eftir því hvar Landsspítali - Háskólasjúkrahús verður staðsettur að ráða í svör frambjóðendanna. Menn hafa ýmist efasemdir um málin eða telja að það verði að skoða það nánar og tryggja aðkomu fleiri aðila að því.

Það hlýtur að fara að koma til skoðunar að leyfa kjósendum einfaldlega að taka þessar ákvarðanir. Rökin fyrir því að stjórnmálamenn séu betur til þess fallnir en aðrir, eiga ekki jafnvel við og áður. Ísland stendur mjög framarlega varðandi margt, t.d. upplýsingatækni og hve hátt hlutfall íbúanna er menntað. Er ekki tilvalið að leyfa fólki að kjósa um fleiri mál?

Annars hljóp ég aðeins á mig í síðustu færslu og lagði Magnúsi Má Guðmundssyni í UJ þau orð í munn að hann hefði verið að setja út á heimasíðu ungra sjálfstæðismanni í pistli á lifandi.is. Það gerði hann ekki, heldur gagnrýndi Heimdall og stefnumál þeirra. Hins vegar stendur það sem ég sagði og hefur ekkert breyst síðustu daga, að barátta Samfylkingarinnar og UJ gengur ekki út á mikið annað en að höggva í Sjálfstæðisflokkinn.

Sunday, May 21, 2006

Ýkt ömurlegur flokkur

Heldur finnst mér nú Ungir jafnaðarmenn vera slappir í kosningabaráttunni. Barátta þeirra gengur í stuttu máli ekki út á neitt annað en að dissa Sjálfstæðisflokkinn og það lætur nærri að þeir séu með Sjálfstæðismenn á heilanum. Á heimasíðunni þeirra er um það bil önnur hver færsla um Sjálfstæðisflokkinn og hvað hann sé ömurlegur og meðal annars löng grein um hvað heimasíða ungra sjálfstæðismanna sé þunn!

Þá var blásið til sérstaks blaðamannafundar um daginn sem var sérstaklega um unga Sjálfstæðismenn og stefnu þeirra og ekki má gleyma auglýsingaröðinni sem á að sýna einhvers konar holdgerving hægrimanna á Íslandi, fígúru sem þeir nefna Hjálmar Hannesson og á örugglega að slá öll vopn úr höndum Sjálfstæðisflokksins. Spurning hvort Hallgrímur Helgason hafi haft hönd í bagga við persónusköpunina, því líkt og Böddi í Roklandi bloggar þessi tilbúni karakter.

Annars er dáldið fyndið að sjá Hallgrím Helgason um þessar mundir. Hann er kominn í massíva kosningabaráttu - maðurinn sem hefur verið hvað duglegastur við að gagnrýna stjórnmálamenn og þeirra verk í gegnum tíðina. Merkilegt hvað makar geta haft góð áhrif á stjórnmálaskoðanir jafnvel gagnrýnustu manna. Sérstaklega fannst mér góð sena í Silfri Egils um daginn þegar Hallgrímur og fleiri gestir voru spurðir hvað þeim fyndist um slagorð Samfylkingarinnar - Einu sinni var Reykjavík smábær, nú er Reykjavík frábær. Flestir svöruðu því til að þeir hefðu fengið nettan kjánahroll þegar þeir heyrðu þetta, nema Hallgrímur sem taldi þetta vera mjög gott slagorð og stökk ekki í bros. Einhvern tíma hefði Hallgrímur tekið sig til og gert stólpagrín að þessu! Kannski samdi hann þetta sjálfur.

En aftur að Ungum jafnaðarmönnum. Það hefur stundum verið sagt að það sem sameini Samfylkingarfólk sé andúðin á Sjálfstæðisflokknum. Kannski eru Ungir jafnaðarmenn bara að taka forskot á sæluna þar sem þeir sjá fram á sigur Sjálfstæðismanna í borginni. Það virðist allavega líklegt ef miða má við skoðanakannanir, þó allt geti gerst.

En setjum nú svo að Ungum jafnaðarmönnum takist ætlunarverk sitt og nái að sýna borgarbúum að Sjálfstæðismenn séu nú upp til hópa bara hálfvondir og tilfinningalausir plebbar sem muni eyðlileggja leikskólana og senda konurnar á bak við eldavélina - hversu sannfærandi sigur yrði það fyrir Samfylkinguna? Fólk myndi sem sagt kjósa Samfylkinguna af því að Sjálfstæðismenn eru svo vondir, ekki af því að Samfylkingin sé svo góður kostur. Væri ekki nær að leggja áherslu á hvað Samfylkingin hefur fram að færa?

Það er oft góð regla þegar andstæðingurinn er gagnrýndur að taka út það besta og málefnalegasta í fari hans og deila á það. Það versta og ómálefnalegasta dæmir sig yfirleitt sjálft. Ungir jafnaðarmenn hafa einhvern veginn snúið þessu alveg á hvolf. Eflaust má finna menn eins og Hjálmar í röðum hægrimanna á Íslandi en líkar þeirra í hina áttina eru til í vinstriflokkunum á Íslandi eins og annars staðar. En svona er kosningabaráttan í dag - hún gengur út á stóran strætó, Hummer og hvað andstæðingurinn er bara ýkt ömurlegur...

Wednesday, May 17, 2006

Metnaðurinn

Fjölmiðlar sem hafa fjallað um stefnu Háskóla Íslands hafa nánast einróma talað um að markmið skólans sé metnaðarfullt. Það er meira að segja slíkur samhljómur um metnaðinn í HÍ að leiðarar Moggans og Fréttablaðsins voru með sömu fyrirsögnina þegar fjallað var um málið - „Metnaðarfullt markmið“.

Já, þetta er svo sannarlega metnaðarfullt markmið. Stefna Háskóla Íslands er hins vegar merkileg fyrir aðrar sakir en það eitt að vera jafngífurlega metnaðarfull og raun ber vitni, nefnilega þær að nú stígur Háskólinn fram með skýrar og mótaðar hugmyndir um framfarir sem ættu að geta dregið úr hátíðarblænum sem einkennir oft háskólaumræðuna og gert umræðuna raunhæfari og markvissari.

Það er líka margt athyglisvert í stefnunni sjálfri. Markmiðið um að fimmfalda fjölda doktorsnema hefur reyndar komið fram áður en í stefnunni er líka talað um að fjölga birtum greinum í fræðitímaritum, búa til stöðu prófessors á heimsmælikvarða, auka verulega við húsnæðiskost skólans, hefja starfsemi í Vísindagörðum árið 2007, fjölga kennurum miðað við nemendur, gera kennurum skylt að sækja kennslufræðinámskeið, gera auknar kröfur um námsframvindu nemenda og tryggja að skólinn geti innheimt gjöld fyrir sérþjónustu eins og innheimtu- og upptökupróf.

Þarna er líka talað um að búa til gæðamenningu í skólanum. Það kann að hljóma svoldið froðukennt en það skiptir máli. Skólamenning í HÍ er einhvern veginn ekki alveg til staðar. Alltof margir eru fjarlægir skólaumhverfinu – mæta kannski í tíma við og við en eru annars lítið á svæðinu. Skipulagið á háskólasvæðinu býður heldur ekki upp á mikið meira, nema heppnin sé með mönnum og þeir nái lesborði. Þetta er ekki beinlínis akademíustemningin. Það er enginn kjarni eða hjarta á háskólasvæðinu þar sem fólk hittist, fær sér að borða saman og spjallar. Þetta hefur allt saman áhrif. Margir líta á nám við HÍ eingöngu sem leið til að ná í gráðu og gera sig kláran fyrir vinnumarkaðinn. Það er skiljanlegt viðhorf en í skóla sem ætlar að vera á heimsmælikvarða gengur það ekki.

Ég veit ekki hvort markmið um „gæðamenningu“ lagi þetta en það er kannski skref í áttina. Skólinn kemst ekki á heimsmælikvarða við það eitt að skrifa örlítið fleiri tímaritsgreinar eða stunda annars konar lagfæringar á tölfræðinni heldur þarf hugarfarsbreytingu.

HÍ kemst ekki inn á topp 500 í heiminum í dag. Það talar sínu máli, hvað sem fólk segir. Það er stundum sagt að HÍ standi sig nú samt sem áður svo vel, sé svo góður skóli og íslenskir háskólanemendur fari nú oft í nám við virtustu skóla heims. En er það ekki ákveðin mótsögn að íslenskir skólar standi sig í ljósi þess að íslenskir nemendur fari og læri við virtustu skóla heims? Ættu íslenskir skólar ekki frekar að vera meðal þeirra virtustu í heimi í stað þess að íslenskir nemendur þurfi að fara í aðra skóla til að ná í gráður?

Sunday, May 14, 2006

Framsókn...

Undanfarin misseri hafa verið Framsóknarflokknum erfið. Ekki bara að fylgið hafi hrunið af flokknum nánast allsstaðar á landinu, heldur virðist sem flokkurinn njóti ákaflega lítillar virðingar landsmanna. Miklar auglýsingar og tiltölulega afdráttarlítil stefna flokksins í flestum málum kunna að hafa áhrif þar á. Einnig kunna mikil völd, sem mörgum finnst ekki vera í samræmi við fylgi flokksins, kunna að vera hluti af skýringunni. Í þessari skemmtilegu greiningu á Framsóknarflokknum er talað um pólitíska tvíkynhneigð og eðlislægt stefnuleysi.

En hvaða nöfnum sem Framsóknarflokkurinn verður nefndur er ljóst að nýjasta útspil Framsóknarmanna á Ísafirði verður tæpast til þess fallið að þagga niður í gagnrýnisröddum í garð flokksins. Eftir að hafa verið í samstarfi við Sjálfstæðismenn í átta ár og stutt pólitískan bæjarstjóra Sjálfstæðismanna, Halldór Halldórsson, undanfarin fjögur ár, er nú komið annað hljóð í strokkinn hjá Framsókn á Ísafirði kortér fyrir kosningar. Skyndilega eru þeir til í að vinna með hverjum sem er og vilja frekar ópólitískan bæjarstjóra (sem hlýtur að gera út af við áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðismenn ef það kæmi á annað borð til greina).

Þessi óvæntu sinnaskipti í miðri baráttu eru út af fyrir sig nokkuð athyglisverð. En þau eru sérstakega athyglisverð í ljósi þess að Í-listinn, sameinað framboð annarra flokka á Ísafirði, er nú með meirihluta samkvæmt skoðanakönnunum. Og hvert er nú eitt helsta baráttumál Í-listans? Miðað við borgarafund NFS á Ísafirði um daginn leggur Í-listinn einmitt mikla áherslu á að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri. Tilviljun...?

Maður áttar sig ekki alltaf á Framsóknarmönnum. Flestir þeir sem taka þátt í stjórnmálum leggja mikla áherslu á að þeir séu þar til þess að berjast fyrir ákveðnum hugsjónum og breytingum en alls ekki til þess eins að ná völdum. Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn komi svona grímulaust fram með það markmið sitt að ná völdum, sama með hverjum er unnið eða hvaða málefni þarf að styðja. En Framsókn er líka einstök!

Tuesday, May 09, 2006

Lönguskerin

Jónmundur Guðmarsson og Björn Ingi Hrafnsson voru í Íslandi í dag á NFS í gær að ræða um flugvöll á Lönguskerjum sem er skyndilega að verða mál málanna í kosningabaráttunni. Björn Ingi má eiga það að hann hefur komið þessu máli á kortið og náð að selja það ágætlega, þó kostnaðurinn standi í mörgum.

Upphlaup bæjarstjórans á Seltjarnarnesi kom ekki vel út. Það var Birni Inga frekar til framdráttar en hitt, enda kannski ekki von til þess að fólkið hrífist með þegar rökum á borð við þau að Björn Ingi hafi aldrei komið út á Seltjarnarnes, er beitt. Björn Ingi benti þá á að hann hlypi oft Neshringinn.

Seltjarnarnes virðist ekki sitja eitt að því að eiga Löngskerin, að minnsta kosti ef marka má umfjöllun Morgunblaðsins í morgun, þá á Álftanes líka tilkall til þessara skera. Flugvöllur þarna myndi hafa mikil áhrif á höfnina í Kópavogi, sem yrði líka að taka til skoðunar.

Það verður að teljast frekt af hálfu Seltirninga, ef á annað borð er hægt að gefa sér að þeir séu allir sammála um málið, að hafna þessari hugmynd á þeirri forsendu einni að flugvöllur á þessum stað myndi valda hávaðamengun og verra útsýni.

Kastljósið í gær var líka forvitnilegt. Jón Gerald ætlar sér greinilega ekki að tapa alveg í ímyndarstríðinu við Baug og vill rétta sína stöðu. Hann sem sakborningur hefur nú aðgang að öllum málsskjölum, sem eiga víst að skipta tugum þúsunda, og getur veitt fjölmiðlum aðgang að þeim. Þetta leiddi til mikilla viðbragða af hálfu Baugsmanna, sem fannst alveg út í hött að ætla að fjalla um málið í svona stuttum þætti. Eins og Vefþjóðviljinn bendir á hefur Jón Ásgeir nú kannski alveg hreina samvisku í þeim málum, verandi einn af eigendum DV sem hefur nú oft fjallað um alvarlegum mál á snubbóttan hátt.

En það er spurning hvort Baugur ætti ekki bara að birta þessi gögn. Þeir hafa margoft lýst því yfir að vera algerlega saklausir og að rannsóknin hafi verið fyrirskipuð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ef svo er hljóta gögn málsins að bera það með sér. Af hverju ekki að birta þau bara? Ég fæ það stundum á tilfinninguna með Baugsmenn í þessu máli öllu að ef fjölmiðlaumfjöllunin snúist um eitthvað annað en að þeir séu að saka yfirvöld um að stunda spillingu og vanvirða reglur réttarríkisins, þá sé umfjöllunin ósanngjörn og einhliða, eins og þeir kölluðu einmitt Kastljósþáttinn í gær. En er það óeðlilegt að umfjöllun verði einhliða þegar annar aðili málsins vill ekki tjá sig um málið?

Mál Jónasar Garðarssonar í héraðsdómi hlýtur mikla athygli í fjölmiðlum, kannski af því að það er fátt annað bitastætt að gerast. Er það samt ekki of mikið að vera með útsíðufréttir og fyrstu fréttir í sjónvarpi af þessu máli? Ellefu ára sonur Jónasar bar vitni í málinu um föður sinn. Af hverju er verið að slá þessu upp?

Thursday, May 04, 2006

Engar öfgar

Skemmtilegt framtak að halda megrunarlausa daginn. Gott mótvægi. Líka ágætis dæmi um hvernig félög og hópar treysta tilvistargrundvöll sinn - núna hafa talsmenn megrunar og heilbrigðis fengið nýtt viðfangsefni, þ.e. að rökræða við þá sem finnst megrunaræðið komið út í öfgar. Báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls, megrun er góð en bara í hófi og öfgar í allar áttir eru slæmar.

Þannig getum við reglulega í framtíðinni fengið að heyra sitt hvorn pólinn; annars vegar fréttir af því hve við erum orðin feit og ofalin og hins vegar um oftrú okkar á megrúnarkúra. Við eigum að vera hraustleg og hugsa um línurnar en megum ekki verða heltekin af útlitinu og gleyma að rækta garðinn okkar.

Þetta er gott módel. Öfgar - hóf - öfgar. Þetta geta menn síðan rætt endalaust fram og til baka og komist að þeirri niðurstöðu að allir hafa eitthvað til síns máls, bara að þeir kunni sér hóf. Eru stjórnmál í dag ekki nokkurn veginn svona?

Kirkjan er farin að beina spjótum sínum að vændi og skorar á KSÍ að gera slíkt hið sama. Í fyrra gerðist ég svo frægur að sitja í rýnihóp á vegum Gallup ásamt ýmsum fleirum til að ræða um málefni þjóðkirkjunnar. Ein hugmyndin sem kom þar fram var að kirkjan ætti að vera óhrædd við að taka opinberlega afstöðu í siðferðismálum. Kannski er þetta skref í þá átt.

Ég allavega kann þessu vel, að kirkjan láti í sér heyra þegar um grundvallarmál er að ræða. Hún þarf kannski ekki að taka afstöðu til þess hvort það eigi að hlutafélagavæða RÚV eða setja vatnalög en það er allt í lagi að hún minni á sig þegar siðferðismál eru til umræðu (þarna komum við aftur að meðalhófinu...).

Það gerir kirkjuna sýnilegri í hugum fólks og ekki veitir af. Almættið þarf eins og allt annað að keppa við sjónvarp og Internet um athygli fólks og hefur ekki riðið feitum hesti úr þeirri rimmu. Ég held að ímynd hennar hafi orðið neikvæðari undanfarin ár, meðal annars vegna þess að það hefur lítið farið fyrir henni og helst að kirkjan komist í fréttir þegar giftingar samkynhneigðra eru til umræðu. Í þeirri umfjöllun lítur kirkjan út fyrir að vera íhaldsöm og svifasein. Ekki þótti mér bæta úr skák um daginn þegar biskup landsins talaði um að hjónabandinu yrði hent á ruslahaug sögunnar ef samkynhneigðir fengju að gifta sig.

Kirkjan er þannig að þar ættu allir að geta fundið skjól. Þannig varð það a.m.k. hjá frelsaranum sjálfum. Ætli hann hafi í raun viljað að samkynhneigðir fengju ekki að gifta sig? Hann gat allavega tekið glæpamenn í sátt. Svo var hann nú síðhærður sjálfur.

Monday, May 01, 2006

Ætli DV verði saknað?

Trúlega ekki. Mörg orð hafa fallið um ritstjórnarstefnuna umdeildu og nokkuð samdóma álit manna að hún hafi ekki verið gæfuleg. Athyglisvert samt að tap á fyrsta ársfjórðungi ársins var talið réttlæta að slá útgáfuna af þrátt fyrir að blaðið hafi hins vegar skilað hagnaði í fyrra. Að vísu er trúlega samdráttarskeið framundan og fyrirséð að auglýsingar í blöðum muni minnka eitthvað en svo getur líka vel verið að nýr forstjóri 365 hafi einfaldlega ekki haft neinn áhuga á að gefa blaðið út lengur. Það var hálfátakanlegt að sjá ritstjóra blaðsins í Kastljósviðtali reyna að verja stefnu blaðsins undanfarin ár með því að halda því fram að landsmenn hefðu upp til hópa ekki lesið blaðið heldur einungis dæmd það út frá forsíðunni. Eins spurði hann hvort allir fjölmiðlar ættu að vera kurteisir og aldrei voga neinu - líkt og þeir sem hafi gagnrýnt DV hljóti að vera þeirrar skoðunar að fjölmiðlar eigi að vera kurteisir og hálfgerðar undirlægjur! Undir réttlætingum sem þessum frá DV-mönnum hafa landsmenn þurft að sitja nánast allan þann tíma sem "Mikaelisminn" hefur ráðið ríkjum.

Vandamálið við ritstjórnarstefnuna sem rekin var á DV held ég að hafi ekki tengst fréttastefnunni sjálfri heldur vinnubrögðum þeirra sem skrifuðu blaðið. Blaðamennirnir báru litla sem enga virðingu fyrir þeim vandasömu málum sem þeir fjölluðu um. Þrátt fyrir að verið væri að fjalla um alvarleg kynferðisbrot eða ömurlegar aðstæður ógæfufólks virtust blaðamenn fyrst og fremst leggja upp úr því að búa til skrumskældar æsifréttir með hálfgerðum fáranleikablæ oft frekar fyrir sjálfan sig en nokkurn annan. Við sjáum það á þáttum eins og Kompás að fréttamennska hér á landi getur vel verið hörð og aggresív án þess að ganga markvisst fram af fólki, svo fremi sem áhorfendur fái það á tilfinninguna að fréttamennirnir séu einlægir og heiðarlegir í vinnubrögðum sínum.