Saturday, April 29, 2006

Borgarstjórnarkosningar

Kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar einkennist af fortíðarflótta. Það er eins og núverandi meirihluti í borginni hafi ákveðið að pakka saman og grafa allt sem minnir á R-listann.
Enginn burðarás úr R-listanum er í forystusæti hjá þessum flokkum og sumir þeirra tala einhvern veginn eins og þeir hafi verið í minnihluta í mörg ár. Björn Ingi segir að það hafi verið nóg talað, nú sé kominn tími til framkvæmda. Hefur Framsóknarmaðurinn Alfreð ekki verið lykilmaður í borgarstjórn í mörg ár? Var hann sem sagt ekki að framkvæma? Þetta gengur nú svo langt hjá Framsókn að nafnið sjálft þykir ekki boðlegt lengur.

Svandís Svavarsdóttir segir að aðgengismálin, í víðum skilningi, skipti mestu. Hefur Árni Þór ekki haft tækifæri til að gera gangskör í aðgengismálunum þegar hann sat í meirihluta? Það er helst að Dagur B. leyfi sér að minnast á það sem gert hafi verið af hálfu R-listans en hann hefur svo sem ekki verið lengi á sviðinu og þarf sem formaður Skipulagsráðs t.d. að bera ábyrgð á “Hringbrautarklúðrinu”.

Svo er auðvitað bullandi verðbólga í loforðunum. Framsóknarmenn eru þar hvað sprettharðastir, það er ekki nóg að ætla að fara í rándýra framkvæmd á Lönguskerjum heldur á að senda frístundatékka heim til borgarbúa. Þetta hljómar allt saman vel, en það er ekki laust við að manni svelgist á kaffinu, eins og einn orðaði það, þegar maður veltir kostnaðinum fyrir sér.

Sjálfstæðismenn sigla frekar lygnan sjó og það virðist hafa gefist vel hjá þeim. Þótt Vilhjálmur sé ekki með æskusjarmann og flottu orðin virðast flestir vera að kaupa hann sem borgarstjóraefni. Frjálslyndir eru svoldið óskrifað blað í baráttunni. Borgarstjórnarflokkurinn er vel mannaður en þeir reka alveg grimman pópúlisma – það er leitun að málefni sem Ólafur F. segist ekki styðja heilshugar sem eitt af “aðaláherslumálum flokksins”.

Frambjóðendurnir mættust í Kastljósinu um daginn. Því hefur verið haldið fram, m.a. í Staksteinum, að Björn Ingi hafi komið best út úr þeim umræðum og það er ýmislegt til í því. Ólafur F. sló algert vindhögg þegar hann sakaði Björn Inga ítrekað um lygar þegar hann benti réttilega á fréttatilkynningu sem Frjálslyndir sendu frá sér um flugvöll á Lönguskerjum. Björn Ingi nær einhvern veginn, þrátt fyrir allt, að vera sá maður sem talar af hvað mestri bjartsýni og krafti. Hann er auk þess tanaðasti frambjóðandinn.

Mér fannst Dagur ekki koma vel út þegar hann hreytti því í Vilhjálm að hann hefði barist gegn leikskólum alla sína tíð í borgarstjórn. Það er eins og það pirri Samfylkinguna og Dag alveg óstjórnlega að Sjálfstæðisflokkurinn sé að stíga fram og segjast ætla að beita sér í málefnum aldraðra eða málefnum leikskólanna. Kannski fer það í taugarnar á þeim að fólk virðist kaupa félagshyggjuáherslur Vilhjálms en Samfylkingin þarf að venjast þeirri vígstöðu að Björn Bjarnason er ekki andlit Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum.

Svandís Svavarsdóttir kemur vel fyrir og það er ferskur blær um hana. Hún samt á það til að vera mjög á almennu nótunum, talar um samfélag og aðgengi og Vinstri grænir halda framboðsfundi í Strætó, fyrirtækinu sem þeir hafa verið með stjórnarformennsku í en gert svo lítið fyrir. Það er út af fyrir sig jákvætt að vera á almennu nótunum en það kann að koma eitthvað niður á trúverðugleikanum. Kjósendur vilja líka heyra kerfiskallarausið við og við, prósentutölur um holræsaskatt og tengigjöld.

Fylgið virðist vera nokkuð stöðugt á flokkunum um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn verður stærstur en það er tvísýnt hvort það dugi til átta borgarfulltrúa. Trúlega mun þetta ráðast á litlu flokkunum, ef þeir ná allir inn manni, er meirihluti Sjálfstæðismanna úr sögunni. Meirihlutaviðræðurnar sem myndu hefjast í kjölfarið væru hins vegar afar áhugaverðar og spurning hvert Björn Ingi snúi sér og hvort honum stætt á að snúa baki við Sjálfstæðismönnum verandi nánasti samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar í pólitík.

Þetta er allt í járnum!

Friday, April 28, 2006

Feluleikurinn mikli

Stígur Helgason, stjórnarmaður í Röskvu, skrifar pistil á heimasíðu félagsins í gær um Vöku, Sjálfstæðisflokkinn og skólagjöld. Þar fer Röskvumaðurinn knái hörðum orðum um Vökuliða og segir þá í felum með það að vera Sjálfstæðismenn. Að vísu séu kannski ekki alveg allir Vökuliðar felu-Sjálfstæðismenn, því forvígismenn Vöku viti að það kæmi ekki vel út á pappír – en hins vegar séu svona alveg vel flestir Sjálfstæðismenn.

Þetta tengist síðan, segir Stígur, hinni eilífu grundvallarspurningu í stúdentapólitíkinni um skólagjöld, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sé hlynntur upptöku skólagjalda. Röksemdafærslan hjá Stíg er á þá leið að þar sem margir Vökuliðar séu í Sjálfstæðisflokknum, sé sú afstaða Vöku að vera andvíg upptöku skólagjalda ótrúverðug. Hann jafnar þessu saman við það að innflytjandi á Íslandi væri í flokki sem berðist fyrir fækkun innflytjenda í landinu (ég skil hvað við er átt en mér er fyrirmunað að sjá hvernig hægt sé að jafna þessu saman – kannski er ég ekki nógu mikil dramadrottning?).

Stígur segir að hjá Röskvu þekkist ekki þessi tvískinnungur sem einkennir Vöku. Þar starfar að hans sögn fólk úr ýmsum flokkum, í raun öllum nema Sjálfstæðisflokknum: "Röskva hefur dygga fylgismenn ýmissa flokka á sínum snærum og fer alls ekkert í grafgötur með það, ólíkt Vöku. Margir starfa með Samfylkingunni eða Vinstri grænum, einstaka manneskja með Frjálslyndum og sumir með Framsóknarflokknum."

Nú veit ég ekki hvort Stígur hefur kynnt sér stefnuskrár þeirra flokka sem eru velkomnir innan Röskvu. Honum til glöggvunar vil ég þó benda á eftirfarandi kafla úr stefnuskrá Samfylkingarinnar í menntamálum:

"Samfylkingin vill efla háskólastig verulega og losa úr viðjum þeirra sveltistefnu sem stjórnvöld halda því í. Sérstaklega með tilliti til rannsókna og framhaldsnáms. Samfylkingin hafnar því að skólagjöld og fjöldatakmarkanir séu notuð til að leysa fjárskort háskólastigsins. Skólagjöld á tiltekið nám að uppfylltum ákveðnum skilyrðum koma til greina, en tryggja þarf að lánað sé fyrir gjöldunum og afborganir af lánunum verði tekjutengd. T.d. gjöld á tiltekið framhaldsnám. Áður en frekari skref eru stigin í gjaldtöku þarf að fara fram opin og heildstæð umræða um fjármögnun háskólastigsins."

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar:

"Landsfundur leggur til að nemendur við opinbera háskóla taki í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt."

Ég fæ einhvern veginn ekki séð að það sé himinn og haf þarna á milli. Samfylkingin segir skólagjöld koma til greina að vissum skilyrðum uppfylltum, en Sjálfstæðisflokkurinn segir að nemendur við opinbera háskóla taki í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt. Sé þetta yfirfært á dæmi Stígs um innflytjandann, væri annars vegar um að ræða flokk sem teldi koma til greina að fækka innflytjendum í landið en hins vegar flokk sem teldi að það ætti í auknum mæli að fækka innflytjendum.

Það virðist samt að þetta daður Samfylkingarinnar við skólagjöld skipti Stíg ekki miklu máli. Kannski er það allt öðruvísi ef Samfylkingin vill skólagjöld, heldur en þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill þau? Hvernig sem því er farið starfa engu að síður margir úr Samfylkingunni í Röskvu. Í greininni birtir Stígur eins konar lista af Sjálfstæðismönnum innan Vöku og rekur tengsl þeirra við ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins en þegar slík tengsl eru ekki fyrir hendi eru menn sagðir "yfirlýstir" Sjálfstæðismenn.

Listi Samfylkingarmanna í Röskvu er væntanlega ekki mikið styttri. Mér er því spurn hvernig Stígur getur þá, ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér, nokkurn tíma fallist á að vinna með fólki sem er í flokki sem telur skólagjöld koma til greina? Af hverju gerir hann ekki þá skýlausu kröfu að hver einasti Samfylkingarmaður í Röskvu segi sig nú þegar úr flokknum? Eins og hann segir sjálfur: "Allt snýst þetta um skólagjöld. Alstærsta og mikilvægasta málefni allra þeirra sem eru fylgjandi jafnrétti til náms er baráttan gegn upptöku skólagjalda við ríkisháskóla." Brýtur það ekki gegn trúarbrögðunum að Röskvufólk styði flokka eins og Samfylkinguna, sem segja skólagjöld koma til greina?

Grein Stígs finnst mér, ef satt skal segja, heldur einstrengingsleg og fyrst og fremst ganga út á að sýna fram á að Röskva sé meira á móti skólagjöldum en Vaka, þótt báðar fylkingar séu á móti skólagjöldum! Stúdentaráð hefur að mínu mati farið vel af stað í ár, en það er alveg ljóst að ráðið og pólitíkin í heild sinni á við ákveðinn tilvistar- og ímyndarvanda að stríða. Þeir sem starfa á vettvangi fylkinganna þurfa að sýna það út á við að það mikla starf sem fylkingarnar leggja á sig sé virkilega þess virði en gangi ekki bara út á að reyna að grafa undan hinum aðilanum. Það er lítill gróði fólginn í því.

Vaka hefur upptöku skólagjalda ekki á dagskrá og hefur ekki haft. Er það ekki nóg sönnun fyrir Röskvuliða? Eða er von á fleiri samsæriskenningum um fylkinguna sem Röskva vinnur með í Stúdentaráði? Ég allavega vona að tíminn verði nýttur í eitthvað uppbyggilegra.

Tuesday, April 25, 2006

Er leikflétta í fjölmiðlafrumvarpinu?

Nýtt fjölmiðlafrumvarp hefur verið kynnt í stjórnarflokkunum og fjölmiðlum. Allt bendir til þess að þverpólitísk sátt muni ríkja um málið. Annað væri líka óeðlilegt, tæp tvö ár eru liðin frá því að fyrsta frumvarpið kom fram og tími hefur gefist til að vinna þetta í samvinnu og samráði með öllum flokkum. Það er kannski út af fyrir sig merkilegt að allan þennan tíma virðist aldrei hafa verið neinn grundvallarágreiningur um efnisatriði málsins. Allir flokkar voru alltaf til í að takmarka eignarhald á fjölmiðlum á einhvern hátt, það bara var spurning hvernig staðið væri að málinu. Það er merkilegt út af fyrir sig, vegna þess að á sínum tíma geysuðu um þetta mál svo hatrammar deilur að maður hefði haldið að þetta væri grundvallaratriði í hugum þeirra sem gengu hvað harðast fram. Ætli Björgvin G. Sigurðsson lesi t.d. aftur upp úr Frelsinu eftir John Stuart Mill við umræður um málið eins og hann gerði á sínum tíma? Sennilega ekki.

En það er annar vinkill á þetta mál sem Sigurður Líndal hefur bent á í viðtali við Fréttablaðið. Hann er sá að það samræmist ekki jafnræðisreglum að eignarhald á Ríkisútvarpinu verði á hendi eins aðila eftir að ákvæði fjölmiðlafrumvarpsins taka gildi. Að vísu er talað um það í nýja fjölmiðlafrumvarpinu að RÚV eigi að vera undanskilið þeim reglum en það er ekki víst að sú regla standist stjórnarskrá. Þorsteinn Pálsson gerir þetta líka að umfjöllunarefni sínu í leiðara dagsins.

Og hver er það sem á allt hlutaféð í RÚV? Ríkið á það allt eftir að búið er að háeffa RÚV - og því gæti það farið svo að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar eða reglur EES-sáttmálans leiddu til þess að mati dómstóla eða ESA að ríkið hreinlega yrði að selja 75% af sínum hlut!

Trúlega myndu fáir í Sjálfstæðisflokknum syrgja þau endalok, að minnsta kosti ekki þeir sem barist hafa fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpsins undanfarin ár. Með þessu yrði allavega stigið stórt skref þá átt. Kannski er þetta allt saman úthugsuð leikflétta ofan úr Valhöll?

Monday, April 24, 2006

Skortstaða… bleh!

Það er ekkert grín að reyna að hlusta á fréttir og fylgjast með í þjóðmálaumræðunni í dag. Fréttamenn tönnlast á hverju öðru orðskrípinu sem enginn skilur og maður er engu nær. Dæmi um þetta var fréttin um að norski olíusjóðurinn hefði um daginn tekið sér skortstöðu gagnvart íslensku krónunni.

Hvað í ósköpunum er það eiginlega?

Ég hlustaði á þessar fréttir, skildi ekkert, gjóaði svo augunum í kringum sig til að athuga hvort einhverjir aðrir væru að fatta þetta og reyndi að lokum að mynda mér óljósa skoðun á málinu.

Fyrst um sinn mótaðist sú skoðun aðallega af því að norski olíusjóðurinn væri að reyna að koma höggi á okkur Íslendinga. Já,já, hugsaði ég – eru þessir olíukommar þarna í Noregi sem sagt að fara að atast í bestu og fallegustu þjóð heims? Vita þeir ekki að Gilzenegger er íslenskur…?

Ég komst þó fljótlega að því að þessi niðurstaða væri sennilega ekki tæmandi í málinu. Eins líka fóru að renna á mann tvær grímur þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða norskra embættismanna við þessum viðbrögðum Halldórs Ásgrímssonar, sem móðgaðist og mótmælti þessum aðförum Norðmanna. Þeim fannst þetta hafarí samt aðallega fyndið – þetta væru nú bara frjáls viðskipti. Og þegar Norðmenn eru farnir að benda okkur á hvað séu frjáls viðskipti er kannski kominn tími til að staldra við… eða hvað?

Á öld internetsins á þetta þó ekki að vera mikill vandi. Ég gúgglaði skortstöðu og það skilaði sér strax. Í stuttu máli er skortstaða sum sé þegar fjárfestir fær lánuð hlutabréf sem hann selur strax á markaði til að geta keypt þau aftur á lægra verði síðar. Þegar það tekst skilar hann bréfunum til þess sem lánaði honum þau upphaflega. Kannski svipað og ef ég fengi lánaða kippu af bjór frá mömmu og seldi vini mínum hana á 1300 kall. Svo þróuðust mál þannig að hann færi ekkert á fyllerí, þannig að ég keypti kippuna aftur á 1000 kall og skilaði mömmu bjórnum. Hirði 300 kall!

Stundum er ég þeirrar skoðunar að þegar birtar eru fréttir sem byggjast á torskildum hagfræðilegum hugtökum, eigi skilyrðislaust að birta litla aukafrétt með, sem svarar spurningunni: Hvað er skortstaða? Að vísu er stundum sýnt ákveðin viðleitni til þess í fyrstu, þannig að snöggsoðin útskýring er látin fylgja með fyrstu fréttinni en síðan ekki söguna meir. Þaðan í frá veit þetta bara fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina. Ef þetta væri almennilegt væru svona útskýringar látnar fylgja með hverri einustu frétt um málið!

Svona útskýringar verða þó örugglega seint mikið sport hér á landi. Fyrir það fyrsta tekur það pláss frá fréttinni sjálfri. Þar að auki myndi þessi minnihluti þjóðarinnar, sem þekkir þessi hugtök í þaula og veit um hvað þau snúast, örugglega byrja að nöldra um að það væri nú örugglega enginn svo vitlaus að það þyrfti að tyggja svona sjálfsagða hluti ofan í fólk. Og þar sem enginn vill stíga fram og viðurkenna að hann sé svo vitlaus að hann viti ekki hvað skortstaða er eða hafa aldrei skilið útskýringuna, yrði sennilega farið að þessari ósk sérfræðinganna og engar útskýringar birtar. Hinn þögli meirihluti verður því væntanlega að una því um ókomna framtíð að fréttir séu skrifaðar af sérfræðingum fyrir sérfræðinga, á máli sem enginn skilur almennilega.
Hallgrímur...

Það er ekki annað hægt en að skellihlæja yfir þessari brillíant grein og hugdettu hjá Höfundi Íslands!

Wednesday, April 19, 2006

Nýr stjórnmálaflokkur gegn innflytjendum?

Horfði á viðtalið við Ásgeir Hannes Eiríksson í Kastljósinu áðan. Fyrir þá sem sáu þetta ekki, þá lét Ásgeir sem sagt gera könnun um hvort Íslendingar gætu hugsað sér að styðja stjórnmálaflokk sem vildi takmarka eða draga úr fjölda útlendinga hingað til lands. Í ljós kom að þriðjungur aðspurðra sagði líklegt eða mjög líklegt að þeir myndu styðja slíkan flokk.

Ásgeir Hannes sagðist að vísu ekki ætla að stíga fram og stofna slíkan flokk sjálfur en hann myndi vera meira en til í að aðstoða slíka hreyfingu ef hún kæmi fram. Þegar hann var spurður um hvernig slíkur flokkur myndi starfa, vísaði hann meðal annars til stjórnmálamannanna Mogens Glistrup og Carl Hagen. Þeir eru nú ekki beint upplífgandi fyrirmyndir. Sá fyrrnefndi hefur m.a. haldið því fram að reka eigi alla innflytjendur úr landi í Danmörku og að annað hvort væru menn með kynþáttafordóma eða þeir væru föðurlandssvikarar.

Það er hamingja íslenskra stjórnmála að svona flokkur hefur ekki komið fram. Slíkir flokkar nærast á óánægju og reiði í garð innflytjenda og þegar þeir eru einu sinni komnir fram á sjónarsviðið draga þeir sig sjaldnast til baka að sjálfsdáðum.

Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa hins vegar ekki staðið sig í stefnumótun í málefnum innflytjenda. Eiríkur Bergmann gerði könnun á þessum málum um daginn og í ljós kom að fæstir flokkanna hafa lagt mikla vinnu í þessi mál og margir þeirra hafa í raun ekki stefnu í málefnum útlendinga.

Flokkar, eins og sá sem Ásgeir vill sjá verða til, eru hins vegar til víða í Evrópu - í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Austurríki þar sem Jörg Haider hefur verið einna fremstur í flokki. Þessir flokkar byggja fylgi sitt á fullyrðingum á borð við þær að útlendingar steli vinnu frá heimamönnum, lifi á bótum, einangrist í ákveðnum hverfum og aðlagist ekki samfélaginu. Reyndar stangast fyrstu tvær fullyrðingarnar í rauninni á. En auk mikillar andstöðu við innflytjendur berjast þessir flokkar oft fyrir öðrum málefnum, eins og lágum sköttum og hertri löggæslu, dæmigerðum baráttumálum íhaldsflokka. Þeir eru því réttnefndir hægri-öfgaflokkar.

Ásgeir Hannes á sér ákveðna forsögu í opinberri umræðu hér á landi. Hann var á þingi sem varamaður Alberts Guðmundssonar fyrir Borgaraflokkinn í kringum 1990. Þá gat hann sér gott orð fyrir hin undarlegustu þingmál, s.s. að banna innflutning á fóstureyðingarpillum þar sem íslensku þjóðinni hefði ekki fjölgað eðlilega undanfarin ár eins og Múrinn hefur haldið til haga. Þá er hann einnig þekktur fyrir að hafa flutt eina stystu ræðu í sögu þingsins: Virðulegi forseti. Álverið rísi! Svo mörg voru þau orð. Það mætti kannski benda stjórnarandstöðunni á þessa nálgun í ræðumennsku á þinginu?

Þetta virðist hins vegar ekki vera í fyrsta sinn sem Ásgeir viðrar hugmyndir um slíkan stjórnmálaflokk.

Vonandi verður honum ekki meira ágengt núna en þá. Það er hins vegar umhugsunarefni að svo margir játi slíkum flokki fylgi sitt, sérstaklega meðal ungs fólks. Meðan eftirspurnin fyrir slíkum flokki er til staðar er alltaf hætta fyrir hendi á að hann verði stofnaður.

Monday, April 17, 2006

Gleðilega páska frá Umferðarstofu

Hvað þykist Sigmundur Ernir og V-dagurinn geta fullyrt að fólk hugsi þegar sögð er frétt um að ungri stúlku hafi verið nauðgað? Ég þekki engan sem telur að nauðgun sé fórnarlambinu að kenna. Eflaust eru þeir til, þótt þeir séu nú ekki margir, sem telja að svo sé. En það er engin ástæða til þess að halda því fram að allir geri það.

Og hvað er í gangi hjá Umferðarstofu? Páskaglaðningurinn frá þeim í ár sýnir ölvaða krakka í bíl sem keyra á undir tilheyrandi öskrum og dramatík. Í lokin óskar Umferðarstofa svo landsmönnum gleðilegra páska. Áhrifaríkt...

Eru engin takmörk fyrir því hvað þessar auglýsingar hjá þeim geta verið ógeðfelldar og smekklausar? Hver er síðan árangurinn af þessu öllu? Eru allir peningarnir sem Umferðarstofa borgar ímyndarsmiðum, auglýsingastofum og hönnuðum fyrir að hugsa upp eitthvað nógu óhugnanlegt og sjokkerandi, að skila sér í bættri umferðarmenningu? Ég er ekki viss um það. Og ég held að lausnin við því sé ekki sú að búa til meira brútal auglýsingar.

Það er hins vegar oftast algert tabú að mótmæla auglýsingum sem þessum. Þeir sem gagnrýna það að auglýsingarnar gangi of langt, eru fyrir vikið á móti málstaðnum eða sagðir hræddir við að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að laga vandann.

Mér finnst þetta alltof langt gengið með auglýsingar Umferðarstofu. Það er hægt að stuðla að bættri umferðarmenningu án þess að eyða stórfé í auglýsingar sem gera það eitt að verkum að áhorfendum líður illa við að horfa á þær. Hvað með að hafa auglýsingarnar svoldið markvissar og uppbyggilegar? Þannig að áhorfendur séu skildir eftir með einhverja hugmynd um hvernig þeir geta orðið betri ökumenn, frekar en að þeir séu skildir eftir í sjokki?
Prófin...

Athyglisvert hvað áhugi manns á allskonar tilgangslausum fróðleik á netinu eykst í prófalestrinum. Datt einmitt inn á heimasíðu NBA deildarinnar um daginn. Hún er endalaus staðreyndabrunnur.

Einu sinni fylgdist ég með NBA af ástríðu, safnaði körfuboltamyndum og kunni tölfræðina hjá sumum leikmönnunum utan að. Ég fylgist ekki mikið með vel lengur en það er ágætt að detta inn á síðuna öðru hvoru. Þar er einmitt sú áhugaverða frétt þar núna að í stórmyndinni Scary Movie 4 leiði Shaquille O’Neal og Dr. Phil saman hesta sína í einu atriðinu. Það gengur út að þeir eru læstir inn í klefa þar sem hættulegu taugagasi er sleppt út. Það er einungis ein leið til að sleppa en hún reynir á veikleika Shaq’s – sem eru vítaskot. Dr. Phil mun hins vegar beita sálfræðihæfileikum sínum við að hjálpa Shaq í gegnum þetta.

Hljómar spennandi, jafnvel lýsandi fyrir þann metnað og þá dýpt sem einkennir oft á tíðum draumaverksmiðjuna.

Thursday, April 13, 2006

Myndatökur í dómsölum

Með nýju frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi á að banna myndatökur í réttarsölum. Þó þessi hugmynd sé skiljanlega nokkuð umdeild, felur hún að mínu mati í sér skynsamlega breytingu.

Dómsalir eiga að hafa yfir sér ákveðna friðsæld og veita borgrunum öryggi. Það hefur færst í aukana að undanförnu að fjölmiðlar taki myndir inn í réttarsali af sakborningum, sem reyna að verjast ágangi fjölmiðla með því að fela andlit sitt. Það er ekki eðlilegt að menn þurfi að gera þetta meðan á réttarhöldum stendur og ekki í samræmi við það öryggi sem dómshúsin eiga að veita.

Meginreglan hér á landi er að réttarhöld eigi að vera opin. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt og eftir því er farið - almenningur, þar með talið fjölmiðlafólk, getur sótt réttarhöld auk þess sem dómar og aðrar niðurstöður dómstóla eru birtar á Netinu. Aðgengi að dómstólum er því mikið.

Það hljóta hins vegar að vera einhver takmörk á því hve opin réttarhöld eiga að vera. Þætti okkur t.d. ekki óeðlilegt að réttarhöld væru sýnd í beinni útsendingu? Fyrir dómi eru oftar en ekki til umfjöllunar persónulegar upplýsingar sem öðrum koma einfaldlega ekki við. Einhvern veginn þætti manni það ekki svo fjarstæðukennt miðað við suma fjölmiðla í dag að tekið yrði upp á því að sýna beint frá réttarhöldum.

Hvers vegna eru myndatökur í réttarsal nauðsynlegar? Hefur það sérstakt upplýsingagildi að sjá lögmenn í jakkafötum, dómara í skikkju og sakborninga með möppur eða úlpu yfir hausnum á sér? Það finnst mér ekki.

Nú kynni einhver að benda á að skv. þessum lögum hefði t.d. ekki mátt taka myndir í Baugsmálinu og taki lögin gildi megi ekki taka myndir í dómsmálum sem vekja mikla athygli í samfélaginu. Fyrir það fyrsta er heimilt að veita undanþágur frá þessari reglu og í öðru lagi verður maður að spyrja sig, hvaða þýðingu hefur það fyrir fréttaflutning af málinu að taka myndir af málsaðilum?

Þótt myndataka fjölmiðla sé að meginreglu til bönnuð er ekki þar með sagt að fjölmiðlar geti ekki fjallað um dóma og niðurstöður dómstóla. Það geta þeir og gera í miklum mæli nú þegar. Þar hlýtur hin efnislega niðurstaða málsins að skipta mestu, en ekki myndbirting af meintum sakamönnum og lögmönnum þeirra.

Wednesday, April 12, 2006

Blaðsíðutölin rétt

Þessi óborganlega setning var á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu í dag, miðvikudag: "Næstu daga gætu lesendur orðið varir við að efnishlutar Fréttablaðsins verða á öðrum stöðum en venjulega en blaðsíðutöl í blaðinu eru alltaf rétt."

Jæja, það er nú gott að vita að blaðsíðutölin eru alltaf rétt. Enda flettir maður nú ekki dagblaði öðruvísi en að fara vel og vandlega yfir blaðsíðutölin.

Hvað myndi gerast ef Fréttablaðið réði útlending til starfa? Yrði birt frétt um að lesendur gætu treyst því að blaðið muni samt sem áður koma út á íslensku?

Tuesday, April 11, 2006

Aftur um tjáningarfrelsi

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um kæru Samtakanna '78 á hendur Gunnari í Krossinum vegna ummæla sem hann lét falla í Morgunblaðsgrein um samkynhneigða.

Ég fékk einhver viðbrögð við þessari grein og m.a. kommentaði Sindri Guðjónsson, penni á Íhald.is, á færsluna. Ég tek mér það leyfi að birta kommnetið, en hann vitnaði í umræðu á spjallþræði Frjálshyggjumanna:

„Þetta er af spjallinu á vef frjálshyggjufélagsins, Hallgeir skrifar:

En samkynhneigðir verða að bíta í það súra epli að ef þeir vilja sjálfir hafa frelsi þegar kemur að lífsstíl, tjáningu og skoðunum að þá verða þeir að virða slíkan rétt hjá öðrum. Sama hvort skoðanir þeirra falli undir ríkjandi hugsun í samfélaginu eða ekki. Áður fyrr var það versti óvinur samkynhneigðra að þröngva slíkri rétthugsun yfir alla í gegnum landslög, það er sjálfselska og hræsni að breyta prinsipinu eingöngu vegna þess að maður sé kominn hinum megin við línuna. Ég er sjálfur samkynhneigður og lýt á þetta allt saman á léttum nótum.““

Ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta sé meint sem svar við því sem ég skrifaði. Skrif Hallgeirs eru allavega góðra gjalda verð og gott að menn taki Gunnari á léttu nótunum. Mér finnst þessi skrif ekki beint tengjast því sem skrifað var á Íhald.is um kæruna og málið né því sem ég skrifaði um málið. Ég benti á það í færslunni minni að mér þótti heldur glannalegt af Íhaldsmönnum að segja að Samtökin '78 séu andstæðingar tjáningarfrelsis og að þeim væri líkt við alræðisríki síðustu aldar fyrir það eitt að kæra Gunnar vegna ummæla sinna. Að kæra einhvern vegna ummæla felur ekki í sér að sá sem kæri vilji svipta viðkomandi tjáningarfrelsi sínu, hvað þá að hann vilji svipta okkur öll hin tjáningarfrelsi okkar.

Þetta væri annað mál ef Samtökin hefðu t.d. krafist þess að Gunnari eða öðrum yrði hreinlega bannað að tjá sig um málefni samkynhneigðra. Eða að enginn mætti tjá sig opinberlega um þessi málefni nema formaður Samtakanna fengi fyrst að lesa greinina yfir og hún yrði einungis birt ef hún félli Samtökunum í geð.

Það var hins vegar ekki uppi á teningnum. Það sem Samtökin gerðu var að kæra Gunnar, þannig að hann verður að taka ábyrgð á ummælum sínum fyrir dómi. Af hverju eru Íhaldsmenn mótfallnir því?

En talandi um bann við opinni umræðu hvernig væri að líta á umræðu um reykingar? Henni er sniðinn svo þröngur stakkur í lögum um tóbaksvarnir að annað eins er vandfundið.

Þar er lagt fortakslaust bann við því að talað sé opinberlega um reykingar og tóbak, nema til að vara sérstaklega við þeim. Þar er augljóslega of langt gengið. Þó það sé í tísku um þessar mundir að „jarða“ umræður, sbr. Siv Friðleifsdóttur um tillögur Jónínunefndarinnar, þá held ég að Þorgrímur og félagar gangi fulllangt í reykingartrúarbrögðunum með þessum lögum. Í 7. gr. segir t.d. að bönnuð sé "hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra".

Já - forðumst upplýsta umræðu! Hún getur ekki verið til góða.

P.s: Til að forðast málsókn mun ég hér í lokin vara sérstaklega við skaðsemi tóbaks: Passið ykkur, tóbak er MJÖÖGG hættulegt!

Saturday, April 08, 2006

Heimsborgin Reykjavík

Það vatt sér upp að mér útlendingur í miðbænum í dag og spurði til vegar. Ég sagði honum til vegar. En þá spurði hann mig hvort ég ætti einhvern pening handa sér. Ég átti því miður engan pening fyrir manninn en kvaddi hann þó með virktum og óskaði honum alls hins besta. Það er alltaf soldið heimsborgaralegt þegar menn út á götu spyrja hvort maður geti látið eitthvað af hendi rakna. Að vísu eru það oftast drykkjumenn á Austurvelli – “áttu nokkuð 120 kall fyrir Svala handa mér?” – en hver veit, kannski er þetta að fara að verða algengara á götum heimsborgarinnar Reykjavíkur.

Ég kom einu sinni til Prag og þar er þessu nokkuð öðruvísi farið. Þar eru betlarar á flestum hornum og alveg sérstaklega í túristahverfunum (undarleg tilviljun!). Þar eru aðferðir betlaranna orðnar þróaðri, sumir krupu á fjórum fótum og voru með andlitið við gangstéttina en útréttan lófa en aðrir spiluðu út börnum og gamalmennum til að vekja samúð almennings. Í fyrstu fékk þetta mjög á mig og ég gaf sem mest ég mátti. Mér var hins vegar fljótlega bent á að ég yrði að endurskoða þetta. Með því að gefa þessum betlurum væri ég ekki að styrkja neina þurfalinga í Tékklandi, heldur væri ég að gefa tiltölulega vel stæðum einstaklingum! Þessir betlarar væru nefnilega fagmenn og tækju inn töluverðar fjárhæðir daglega frá gjafmildum Vestur-Evrópubúum sem þjáðust af einhvers konar sagnfræðilegu samviskubiti og gæfu þess vegna sem mest þeir mættu. Maður nokkur sem ég talaði við og bjó í Prag sagði mér að gamlárskvöldið í borginni árið 1999-2000 hafi hann orðið vitni að því að betlari hafi komið inn á bar um nóttina til að skipta því sem hann hefði fengið yfir daginn og kvöldið. Og afraksturinn voru ekki bara einhverjir tíkallar í öðrum buxnavasanum, heldur fullir plastpokar af klínki og að allt í allt hefðu þetta verið einhverjar 50-60 þúsund krónur!!!

En þetta er alltaf ákveðin spurning. Eru svona sögur ekki bara goðsögur sem ríku og firrtu þjóðirnar koma sér upp til að geta með góðri samvisku hrist höfuðið blákalt þegar við horfum í augun á þeim sem þurfa að betla? Eða eru betlarnir að nýta sér gjafmildi okkar? Og enn ein pæling: leggur einhver virkilega á sig að krjúpa á götum úti fyrir peninga ef hann þarf ekki á peningunum að halda?

Úffff – allar þessar þungu spurningar um lífið sjálft sem helltust yfir mig á götum Prag. Þetta rifjaði upp fyrir mér málsgrein úr Skólablaði MR 1998, sem ég er enn að reyna að skilja. Hún var svohljóðandi: Hver erum við, hvaðan komum við og hvert stefnum við? Samkvæmt greinahöfundi voru þessar spurningar kjarninn í 2001: A Space Oddyssey eftir Kubrick. Ég held að ég hafi leyst þetta í Prag á sínum tíma með því að fara á barinn!

Wednesday, April 05, 2006

Innflytjendur

Stjórnmál víða í Evrópu eru mjög mótuð af umræðum um innflytjendamál. Í íslenskum stjórnmálum er lítið um þetta fjallað. Undanfarin ár hefur verið næga vinnu hér að fá, þannig að vaxandi straumur innflytjenda hingað til lands hefur í raun leyst þann lúxusvanda íslensku þjóðarinnar að ekki fæst lengur starfsfólk í lægst launuðustu störfin.

Í vikunni var tilkynnt að ríkisstjórnin hygðist ekki framlengja takmarkanir á atvinnufrelsi borgara frá átta aðildarríkjum ESB sem verið hafa í gildi undanfarin ár. Það er jákvætt skref því þetta olli fyrst og fremst skriffinnsku og töfum fyrir verkafólk sem vill koma hingað til að vinna. T.d. þurftu pólskir verkamenn að fá sérstakt atvinnuleyfi til að koma til landsins, sem tók tíma að útvega á meðan Þjóðverji eða Grikki í sömu erindagjörðum þurftu þess ekki. Þó eru ákveðin skilyrði enn við lýði. Einhverjir rísa upp á afturlappirnar og telja þetta hið versta mál.

En innflytjendamálin koma inn á margt fleira en atvinnuleyfi. Hve opið á samfélagið að vera? Hve miklar kröfur á að gera varðandi íslenskukunnáttu og samfélagsþekkingu til þeirra sem vilja koma hingað og gerast íslenskir ríkisborgarar? Eiga þeir að kunna íslensku reiprennandi eða bara getað bjargað sér á íslensku?

Það eru engin einföld svör við þessum spurningum. Reglur um þessi málefni geta aldrei orðið meira en tilraun til að takast á við flókinn veruleika. Þeir einstaklingar sem vilja koma til landsins eru hvaðanæva að úr heiminum og eiga án efa mjög misgott með að koma sér fyrir í nýju landi. Við verðum að hafa í huga að á Íslandi er ýmislegt sem auðveldar innflytjendum að koma sér fyrir, t.d. góð enskukunnátta Íslendinga og gott efnahagsástand. Reglurnar um þessi efni ættu því að vera sveigjanlegar.

Undir yfirborðinu eru án efa ýmsar skoðanir uppi um þessi mál. Í nýjasta hefti Þjóðmála, þess ágæta tímarits, er því til að mynda velt upp hvort ekki sé ástæða til að taka upp eftirlit með þeim múslimum sem búa hér á landi. Þeir ku víst vera nokkur hundruð. Þessi hugmynd virðist byggjast á því að fyrst til eru öfgamenn í röðum múslima, sem fremja hryðjuverk og hafa andúð á Vesturlöndum, ættum við að hafa eftirlit með öllum múslimum sem búa hér á landi. Eigum við sem sagt að grua fólk um græsku fyrir það eitt að vera ákveðinnar trúar? Það finnst mér ekki.

Talandi um trúmál, þá er skammt stórra högga á milli. Það er ekki fyrr búið að sanna að Rauðahafið hafi getað klofnað fyrr en sýnt er fram á að Jesú hafi getað gengið á vatni. Málið var bara að hann gekk á ís!

Sunday, April 02, 2006

Hin réttlátu mótmæli

Mótmælaaldan í Frakklandi virðist hlýja vinstrimönnum hér heima um hjartarætur. Á Múrnum er til að mynda talað um að Frakkar þori að benda á hin augljósu sannindi að kapítalisminn sé ósanngjarn. Við hin séum hins vegar orðin ónæm fyrir þessu óréttlæti, því okkur hafi verið sagt það svo oft hvað kapítalisminn sé frábær. Almenningur er sem sagt orðinn svo heilaþveginn að hann skilur ekki lengur neitt í neinu og greinir ekki ranglætið frá réttlætinu.

En er það virkilega svo að öll réttlætiskenndin í Frökkum sé að skila árangri? Tæplega. Þar er atvinnuleysi með því hæsta í Evrópu og viðvarandi efnahagslægð. Miðað við ákafann í mótmælunum mætti halda að með þessum umræddu lögum sé verið að svipta fólk kosningarétti eða skipa fyrir um brottflutning blökkumanna úr landinu. En svo er ekki. Tilgangur hinna umdeildu laga er einfaldlega að reyna að ráða bug á atvinnuleysi ungs fólks en ekki “skerða atvinnuréttindi” þeirra eins og margir tönglast á.

Er ekki allt eins verið að auka atvinnuréttindi fólks með því að gera fólki auðveldara um vik að fá vinnu? Ef það er erfitt að segja upp fólki verða fyrirtækin jú að sama skapi tregari til að ráða nýtt starfsfólk. Með þessum lögum er lagt til að fyrirtæki geti ráðið ungt fólk á sérstakt tveggja ára tímabil, þar sem hægt er að segja starfsfólki upp fyrirvaralaust og án þess að gefa upp ástæðu. Vissulega getur það verið ósanngjarnt en það er spurning hvort sú fórn sé ekki færandi til að fá fleiri störf? Það finnst mér í það minnsta ekki svo fáranleg hugmynd að hún verðskuldi margra vikna mótmæli.

En það er eitthvað svo rómantískt og heillandi að sjá þúsundir ungmenna mótmæla. Sérstaklega í þessu nútímasamfélagi þar sem margoft hefur verið sýnt og sannað að við gerum alltof mikið af því að sitja og horfa á sjónvarpið og æ minna af því að taka þátt í félagsstörfum. Það þýðir þó ekki endilega að mótmælendur hafi rétt fyrir sér með því einu að mótmæla. Þetta er hins vegar farið að verða þvílík list í Frakklandi að mótmælin vekja mikla athygli, sérstaklega kannski hjá fólki eins og okkur Íslendingum, sem sjáum mótmæli fyrir okkur sem fámennar samkomur kaffihúsamanna. Fyrir vikið fær maður það ósjálfrátt á tilfinninguna að fyrst allt þetta fólk leggi það á sig að mótmæla, hljóti það að hafa rétt fyrir sér og það verður allt að því rétttrúnaðaratriði að vera sammála kröfum mótmælendanna. En það getur komið upp að fólk berjist fyrir röngum málstað og að hann sé rangur jafnvel þótt mjög margir berjist fyrir honum og viðhafi stór orð um málið. Og þeir eru ekki endilega handhafar sannleikans fyrir vikið.

Nostalgía

Skellti mér á Morfís á föstudagskvöldið og sá MR og MH takast á í úrslitaviðureigninni. Þrátt fyrir að það séu orðin fimm ár síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla er maður enn eitthvað viðloðandi þetta og hef gaman af. Það var líka mjög gaman að sjá MR-ingana vinna keppnina og draga titilinn í hús í fyrsta sinn í 18 ár. Sagan segir að Birgir Ármannsson hafi verið í síðasta MR-liðinu sem vann. Langur tími, en þó ekki 31 ár eins og hjá KR.

Þetta var nokkuð sanngjarn sigur fannst mér. Umræðuefnið var frelsi einstaklingsins og MR með. Liðið er nokkuð jafnt, enginn sem stendur upp úr en allir sterkir. Í MH-liðinu er hins vegar Halldór Armand áberandi sterkastur og varð ræðumaður Íslands nokkuð verðskuldað. Þetta var í raun sama keppnin hjá MH og fyrir sex árum þegar þeir kepptu við Versló og voru líka á móti frelsi einstaklingsins. Stuðningsmaðurinn þá varð líka ræðumaður Íslands en liðið tapaði.

Málflutningurinn hjá MH var um margt svipaður og síðast en þetta er nú ekki beint afstaða sem auðvelt er að verja að vera á móti frelsi einstaklingsins. En hinn dæmigerði Morfís-maður lítur nú yfirleitt svo á að ekki sé til það umræðuefni sem hann geti ekki verið hvort sem er með eða á móti. Virðingarverð afstaða en veldur því stundum að þessar keppnir missa veruleikatengsl.

Sú var tíðin að MR vann helst ekkert annað en Gettu betur. Þetta er að snúast við. Nördunum er að fækka og athyglissjúklingunum að fjölga!