Thursday, July 27, 2006

Evrustress?

Það eru margir hér á landi sem berjast fyrir ákveðnum sjónarmiðum og vilja að þau komist að. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvernig barátta þessara hugsjónamanna við að koma málstað sínum á framfæri gengur hverju sinni en stundum er hægt að taka nokkuð mið að viðbrögðum andstæðinganna. Aukin örvænting í svörum getur stundum sýnt hvernig stuðningur er að vaxa við málstaðinn.

Mér allavega datt þetta í hug þegar ég las viðhorfsgrein Andrésar Magnússonar í Blaðinu í dag. Þar er hann að fjalla um hugsanlega aðild að evrunni. Það hafa margir nefnt þennan möguleika að undanförnu eftir gengisflöktið á krónunni á árinu. Um daginn ræddi Viðskiptaráð þennan möguleika í skýrslu og í Viðskiptablaði Moggans í dag ræðir framkvæmdastjóri CCP um gengi gjaldmiðla og segir að ef byggja eigi upp hugbúnaðariðnað hér á landi, sé ákaflega erfitt að hafa yfir höfði sér rokkandi gengi. Í þokkabót gekk erlendur maður um bæinn í dag og reyndi að útbýta fölsuðum evrum.

Andrés fer yfir evrumálið með því að benda á að til að taka upp evruna þurfi að ganga í ESB og að upphaflega hugmyndin að ESB sé runnin undan rifjum Alberts Speers, sem var á sínum tíma hergagnaráðherra í stjórn Hitlers. Hann hafi stungið upp á að myndað yrði eins konar efnahagsbandalag með þeim löndum sem Þýskaland hefði náð á sitt vald. Greinin heitir Adolf og evran og það munar ekkert um það, í ca. 300 orðum sendir Andrés evruna bara beint til Þýskalands nasismans!

Það hefur eiginlega aldrei brugðist. Sá sem spilar út “nasistaspilinu” er farinn að verða stressaður.
Meirihlutinn brattur

Nú eru að verða tveir mánuðir liðnir af valdatíð nýs meirihluta í borginni. Þótt mikill hluti tímans hafi farið í sumarfrí og rólegheit, er engu að síður ljóst að Sjálfstæðismenn hafa reynt að stimpla sig inn frá byrjun og sýna fram á að stjórn borgarinnar sé í styrkum höndum athafnamanna- og kvenna. Með því að fara strax í hreinsunarátak og stórfellda útrýmingu mávsins er verið að taka á málum sem áður voru í láginni. Sama með strætó.

Þá hefur Gísli Marteinn stigið fram af miklum þunga og síðustu vikur hefur hann ekki síður verið áberandi en Vilhjálmur eða Björn Ingi. Gísli hefur greinilega ekki lagt árar í bát þó hann hafi þurft að lúta í lægra haldi í prófkjörinu á sínum tíma og nýtur sín vel í umhverfisráði, sem er nokkuð góður vettvangur fyrir hann. Þetta er ekki stærsti málaflokkurinn en nýr og spennandi og margt hægt að gera. Það fer svo minna fyrir öðrum borgarfulltrúum meirihlutans. Hanna Birna, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill og Jórunn Frímanns hafa t.d. enn sem komið er ekki komið mikið fram í fjölmiðlum eða verið áberandi í umræðunni.

Minnihlutinn er í hálfgerðu skötulíki. Mest hefur borið á Degi B. sem ætlar greinilega að halda uppi látlausri gagnrýni á erkióvini sína í Sjálfstæðisflokknum en bæði Steinunn Valdís og Stefán Jón eru greinilega uppteknari við önnur plön, hugsanlega undirbúning á þingframboði. Björk Vilhelmsdóttir hefur látið lítið fyrir sér fara. Sömu sögu er að segja um vinstri græna í borgarstjórn, þótt Árni Þór hafi látið finna aðeins fyrir sér í kringum strætómálið og Ólafur F. virðist enn vera að ná sér eftir að Villi Vill lét hann róa í viðræðunum frægu. En þetta er auðvitað rétt að byrja allt saman.

Wednesday, July 26, 2006

Stórafmæli og L.ung.A

Það er ekkert öðruvísi. Maður er bara orðinn 25 ára gamall. Hélt upp á það á þriðjudaginn með sérdeilis glæsilegum hætti, var fastur í vinnunni til klukkan átta um kvöldið.

Ég hafði þó tekið mest af fagnaðarlátunum út um helgina. Ég brá mér í höfuðstað Austurlands, Seyðisfjörð, um helgina og tók þátt í L.ung.A – listahátíð ungs fólks á Austurlandi. Ég lét það reyndar eiga sig að vera með atriði í ár, þótt það hafi verið freistandi að taka einn gjörning fyrir fólkið. Ég var í staðinn virkur þátttakandi og túristi á Seyðisfirði. Eyddi stórfé í sundlauginni, á kaffihúsinu og síðast en ekki síst á barnum.

Tónlistarframboðið var vægast sagt blandað. Á föstudagskvöldinu spilaði The Artist Formerly Known as Bibbi Curver – nú bara Curver í samkomuhúsinu á Seyðisfirði. Curverinn þeytti skífum af miklum móð og töfraði fram þvílíka elektrósýru að ég hafði aldrei heyrt annað eins. Reyndar tók hann nokkra slagara inn á milli eins og Higher State of Conciousness sem margir muna eflaust eftir, sérstaklega þeir sem stunduðu Kaffi Thomsen langt fram undir morgun þegar sá merki staður var og hét.

En á laugardeginum var hins vegar meiri meginstraumur í gangi. Todmobile stigu þar á svið og var það einmitt í annað skipti í sumar sem ég sé þau á tónleikum. Gamla grúppían. Við munum ganga inn kirkjugólfið - ekkert að því.

Ég skipulagði efnabúskapinn í líkamanum svo snilldarlega þessa helgina að ég tók út alla þynnkuna á laugardeginum og var því sokkferskur á sunnudeginum, sem var ekki verra þar sem níu tíma ferðalag í bæinn beið. Ég fór með miklum höfðingum, þeim Birni Patrick Swift og Þorgeiri Arnari Jónssyni, góðtemplara. Mér finnst oft ágætt að hafa þannig menn með í för til þess að heiðra málstað alnafna míns í Stykkishólmi.

Við þrír skemmtum okkur gríðarvel á leiðinni heim. Tókum gott stopp á Akureyri og snæddum einn matar- og kjötmesta hamborgara norðan heiða á veitingastað sem heitir Strikið. Hann ku víst vera með fínustu veitingastöðum höfuðstaðar Norðurlands, þannig að það má að segja að við höfum tónað stemninguna dáldið vel niður þegar við mættum þrír saman, tveir frekar illa lyktandi og lerkaðir eftir helgina en sá þriðji var reyndar vel þveginn og sjálfum sér til sóma.

Annars er gúrkan óðum að færast yfir núna í vinnunni. Það er gjörsamlega ekkert í fréttum og að ætla sér að ná tali af embættismanni í sumarleyfi er bara bjartsýni. Það sannaðist endanlega um daginn þegar ég var að reyna að hringja heim til viðmælanda en fékk ekki að tala við hann. Konan hans svaraði og sagði að maðurinn væri úti í garði og gæti ekki talað núna. Bleeeeesssaður!

Friday, July 21, 2006

Skoðanaglaðir embættismenn

Það bárust í vikunni fréttir af þremur Hollendingum sem hafa tekið upp ákafa baráttu fyrir því að fá að halda úti flokk níðinga eins og það er kallað - en helsta baráttumál flokksins er að lögaldur til að stunda kynlíf verði lækkaður. Þetta hefur vakið athygli því stofnun flokksins kom inn á borð til hollenskra dómstóla, sem töldu að ekki ætti að banna flokk sem þennan. Þessi málstaður er auðvitað fáranlegur en sýnir hvernig kröfur um að banna óæskilegar hugmyndir geta nýst óprúttnum aðilum til að afla sér alþjóðlegrar athygli á vafasömum málstað.

En nóg um það. Það sem ég rak augun í á dögunum var stutt viðtal í Fréttablaðinu sem nefnist Sjónarhóll ef ég man rétt. Þar eru vel valdir aðilar spurðir álits á ýmsum málum og var einmitt spurt út í málefni þessa umrædda hollenska flokks. Þar varð fyrir valinu sem viðmælandi forstjóri Lýðheilsustöðvar, sem lét í ljós álit sitt á málinu og sagði m.a. að það væri alveg ljóst að niðurstaða hollenskra dómstóla væri ekki til þess fallin að vernda börn. En er það hlutverk forstjóra Lýðheilsustöðvar að hafa skoðun á svona málum í fjölmiðlum - máli sem kemur ekki einu sinni upp á Íslandi? Ef svo er, hvaða mál er þannig að hún ætti ekki að tjá sig um það?

Ég skal þó ekki segja, kannski leit forstjórinn ekki svo á að hún væri að svara þessum spurningum sem embættismaður, heldur bara sem álitsgjafi eða einstaklingur með skoðun á málinu, en í blaðinu er þetta haft sérstaklega eftir forstjóra stöðvarinnar.

Í hinum endanum eru nefnilega embættismenn sem taka hlutverk sitt svo hátíðlega að þeir segja helst ekkert við fjölmiðla. Starfsmenn Seðlabankans eru besta dæmið, helst leggja þeir á ef fjölmiðlar hringja.

Hvað er annars málið með sveitta hlutgervingu karllíkamans á forsíðu Moggans í dag?

Tuesday, July 18, 2006

Stóri guli

Jæja – Strætó er kominn á dagskrá í þjóðmálaumræðunni. Þessu fagnar maður eins og ég, sem tek strætó nokkuð oft, jafnvel allt að 100 sinnum á ári og skipa mér þar á bekk með skólabörnum þessa lands ásamt öryrkjum, innflytjendum og þessum örfáu og kolbiluðu velferðarhippum sem taka strætó þó þeir séu með aldur og efni til að aka og reka eigin bíl.
Vegna uppbyggingar og samsetningar farþegahóps SVR hlýtur öll opinber umræða um málefni strætó að vera töluverðum takmörkunum háð af þeirri einföldu ástæðu að stjórnmála- og frammámenn þessa lands hafa trúlega ekki stigið upp í strætó í mörg ár og vita þar af leiðandi ekkert í sinn haus um hvað þeir eru að tala.

Vandi Strætó er tiltölulega augljós – það hefur nánast enginn áhuga á að taka hann. Svo einfalt er það nú. Alveg sama hve margar og tíðar ferðirnar verða og hve mikið menn láta sig dreyma um að byggja upp einhvers konar skandinavískt kerfi í almenningssamgöngum, þá mun það ekki gerast. Á meðan velsældin er eins og raun ber vitni og gatnakerfið annar bílatraffíkinni þokkalega er ég hræddur um að sjálfrennireiðarnar hafi vinninginn.

Þess vegna missi ég ekki svefn yfir þessum breytingum hjá Strætó. Eins og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst, þá stefndi allt í að kostnaðurinn í ár færi mörg hundruð milljónum fram úr áætlun. Það telst tæplega góð latína á tímum þenslu og verðbólgu og eitthvað varð að gera. Þar að auki er verið að steypa peningum í þetta kerfi nú þegar – litlar 1500 milljónir lagðar í fyrirtækið árlega af almannafé.

En sumum finnst auðvitað að það eigi helst ekki að vera nein takmörk á því hvert þjónustustigið eigi að vera í svona kerfi. Helst eigi vagnarnir að vera á 4-5 mínútna fresti. Sérstaklega hef ég gaman af svona hoppýfarþegum, sem fara einu sinni á ári í strætó, helst á miðju sumri þegar vel viðrar. Á veturna aka þeir svo gjarnan um í einkabílum sínum og láta þægilegan miðstöðvarhitann ylja sér á meðan almennir notendur krókna úr kulda við að bíða eftir vagninum.

Bakþankahöfundur Fréttablaðsins, Þórhildur Elín Elínardóttir, er rakið dæmi. Í gær sagði hún frá því í dálki sínum að til að fá „tilbreytingu“ hafi hún ákveðið að ferðast með strætó. Sú ævintýramennska endaði að vísu með þvílíkum ósköpum að annað eins hefur ekki heyrst lengi. Ekki nóg með að hún hafi misst af vagninum og þurft að bíða heillengi eftir þeim næsta, þá var enginn búnaður til að gera henni kleift að aka barnavagninum sínum beint upp í strætó þegar hann loksins kom. Þetta gekk svo langt að vagnstjórinn þurfti að hjálpa henni við það! Og það var ekki nóg með þessar hremmingar, því við tók heillöng ganga eftir að hún fór úr strætónum til að komast á leiðarenda. Handritið að bíómyndinni um þessa átakasögu hlýtur að vera í vinnslu.

Þórhildur lýkur dálki sínum á almennari nótum: „Þó ferðalagið hafi auðvitað verið dásamleg æfing í þolinmæði og útsjónarsemi fannst mér dularfullt að það þyrfti að vera svona erfitt. Minnti meira að segja almenningssamgöngur í sumum löndum byggðust á að vera aðgengilegar fyrir alla. Að yfirvöld víða legðu töluvert í púkkið til að draga úr umferðarþunga, mengun og þenslu. Þetta rifjaðist enn betur upp á ferðalagi í Kaupmannahöfn á dögunum þar sem reyndist bráðauðvelt að ferðast vítt og breitt með börn í kerrum. Hvorki þurfti að bíða né burðast. Sífelldur niðurskurður hjá Strætó er eins og veitningahús sem sér það eina ráð í krreppunni að bjóða upp á æ verri matseðil. Sú þróun endar sem súpueldhús. Þar er maturinn vondur, sjaldan og ókeypis. Þangað leita bara þeir sem eiga engan annan kost.“

Já, það er erfitt að gera sumum til geðs.

Það er auðvitað allt annað að halda úti almenningssamgöngum í milljón manna borg en 300 þúsund manna borg sem var ekki byggð upp með neitt slíkt í huga. Af hverju skömmumst við okkar svona fyrir að kjósa einkabílinn umfram strætó? Er það ekki einmitt bara jákvætt? Hvers vegna setur fólk þetta í búning einhvers konar hneykslis – jafnvel þegar við eyðum alveg fullt af pening í strætó?! Nú hyllir meira að segja undir vetnisvæðingu bílaflotans, þannig að samviskubitið yfir menguninni þarf ekki að plaga okkur til eilífðarnóns. Mig allavega langar að eiga bíl og skammast mín ekkert fyrir það.

Monday, July 17, 2006

Afnemum þetta!

Skrýtin þessi umræða um afnám tollaverndar á landbúnaðarvörur. Auðvitað á að fella þetta niður og það sem fyrst. Afnám tolla og verndar er þannig mál að það þarf ekki að þvæla þetta fram og til baka í nefndum og stjórnmálamenn eiga ekki að geta skýlt sér á bak við óljósar niðurstöður úr slíkum nefndum.

Hér á einfaldlega að taka af skarið og ég held að það sé rétt sem Margrét Björnsdóttir skrifaði í Moggann á laugardaginn um pólitískt erindi Samfylkingarinnar að þeir flokkar sem hafa burði í slíkt verkefni eru þessir stóru flokkar, Sjálfstæðismenn og Samfylking. Þeir ættu einfaldlega að mynda fylkingu um að gera þetta og það strax! Jafnvel þótt einstaka bændur í Framsóknarflokknum styggist við, þá verður bara að hafa það. Það er ekki verjandi að setja alla þessa milljarða í landbúnaðarstyrki sem halda á sama tíma matvælaverðinu uppi. Það er nákvæmlega svo einfalt!

Heyrði annars af skemmtilegri uppákomu austur á Fjörðum á dögunum. Þar sáu verkamenn við virkjanaframkvæmdir skyndilega koma keyrandi jeppa mikinn sem var í skoðunarferð um svæðið. Út úr jeppanum stigu svo á endanum farþegarnir - Friðrik Sophusson, Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson og Styrmir Gunnarsson.

Önnur eins þungavigt hefur sennilega ekki verið samankomin í einu og sama rýminu lengi!

Tuesday, July 04, 2006

Jæja...

Ætli það sé nú ekki kominn tími á nokkrar línur...

Ýmislegt hefur á dagana drifið að undanförnu og ýmislegt breyst. Kannski að maður láti dramatískar lýsingar eiga sig, enda tók ég einhvern tíma ákvörðun um að þetta blogg ætti ekki að vera eitt af þessum tilfinningavellubloggum. Þannig að þið fáið ekkert þannig frá mér.

Morgunblaðið er flutt og ég keyri því alla leið upp að Rauðavatni til að komast í vinnuna. Þetta er þó ekki jafnslæmt og maður myndi halda, aksturstíminn er nær 15 mínútum en 30 eins og ég hafði haldið. Skemmtilega öfug hlutföll við orkuverð Landsvirkjunar, sem á einmitt að vera nær 30 dollurum en 15 (haha...). Ég verð reyndar að taka fram að ég ek þessa leið, þ.e. úr Vesturbænum og uppeftir yfirleitt þegar umferðin er ekki mikil. Þetta tekur kannski lengri tíma ef maður lendir í síðdegistraffíkinni. Kannski á ég bara eftir að sitja fastur heillengi. Aldrei að vita nema maður eigi eftir að taka svona Falling Down móment eins og Michael Douglas gerði á sínum tíma. Ganga út úr bílnum í Ártúnsbrekkunni og biðja um almennilegan hamborgara á Burger King...

Þetta var annars meiri leikurinn í dag á HM. Þýski björninn laut í gras á eigin heimavelli. Manni fannst Ítalirnir eiga þetta skilið, þeir höfðu verið beittari og skotið í bæði slá og stöng. En þýska liðið var þrusugott í ár og það bjuggust flestir við þeim í úrslitunum. Það virðist líka hafa verið komin upp stemning hjá hinni þunglyndu þjóð – menn á borð við Arthur Björgvin Bollason farnir að finna þýsku þjóðarsálina taka kipp, sbr. grein sem hann skrifaði í Moggann.

Í mér er annars farið að slá á ný alveg bullandi franskt hjarta. Hvað er hægt annað þegar Zidane, Vieira og Henry spila allir eins og englar? Þetta er alger músík. Ég man að ég byrjaði að halda upp á Zidane á EM ’96 þar sem hann reyndar olli miklum vonbrigðum. En tveimur árum síðar kom hann, sá og sigraði. Kórónaði þetta allt með því að setja tvö mörk á Brassana.

Yfir í annað. Svoldið skemmtilegt hvernig veruleikinn og skynjun fólks á veruleikanum getur stundum verið sitt hvor hluturinn í þjóðmálunum. Þetta kristallast í því sem Jón Sigurðsson, nýr viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir nú í fjölmiðlum um að engin stóriðjustefna hafi verið rekin hér á landi síðan árið 2003. Formlega og stjórnsýslulega séð er þetta án efa rétt. Eflaust hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skipulagi þessara mála í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. En hver nennir að kynna sér lýsingar á innra skipulagi iðnaðarráðuneytisins? Í augum alls almennings hefur verið rekin grimm stóriðjustefna undanfarin ár. Hvað hafa menn annars verið að ræða í heitu pottunum og á kaffihúsunum? Þetta hefur brunnið á fólki. Var þetta allt saman misskilningur? Það væru nú tíðindi!

Nú skal ekki útiloka að einhverjir hafi lagt sig fram við að kynna sér stjórnsýslulega uppbyggingu stóriðjumála hér á landi en ætli það séu ekki fleiri sem muna eftir Valgerði í New York að hitta einn af toppunum í Alcoa á meðan Húsvíkingar biðu með öndina í hálsinum á Álvöku? Muna ekki fleiri eftir myndum og fréttaskeiðum þar sem Valgerður er sýnd með vinnuhjálm á virkjanasvæðum? Ætli það séu ekki fleiri sem hafi rennt sér í gegnum Draumalandið en vef iðnaðarráðuneytisins?

En yfirlýsingar Jóns eru þó ákveðin tíðindi. Þær eru auðvitað fyrst og fremst ákveðin pólitík og sýna að sóknin er hafin. Framsókn hafa kveikt á því sem er að gerast og þeir eru farnir að taka eftir þeirri vofu umhverfisverndar sem gengur nú laus um götur landsins. Umhverfisráðherra vísar t.d. í vilja almennings og segist ætla að friðlýsa Þjórsárverin.

Og ég held að Jón Sigurðsson eigi eftir að stimpla sig nokkuð vel inn hjá þjóðinni. Hann ekki bara er alnafni sjálfstæðishetjunnar heldur talar hann eins og kennari – sem hann og var – og virðist vera vel með á nótunum gagnvart fjölmiðlum – enda gamall ritstjóri. Hann talar af þunga landsföðurins – hinn brúnaþungi maður sem er að leggja upp í leiðangur til að bjarga Framsóknarflokknum.