Friday, August 25, 2006

Af stórglæstum sigrum mínum í Reykjavíkurmaraþoninu

Ég er enn þá að jafna mig eftir Reykjavíkurmaraþonið. Ég hafði það af að fara heilt hálfmaraþon og á ágætis tíma svona miðað við aldur og fyrri störf, 2 tímum og 6 mínútum. Það er gott miðað við að ég átti alveg eins von á að vera á svona 3-4 tímum.

En eins og við var að búast klikkaði ég á öllum praktísku atriðunum. T.d. hljóp ég í nýjum skóm. Ég storkaði þessu lögmáli og það fór fyrir mér eins og öllum sem storka lögmálunum - guðirnir refsa slíku fólki. Þeir refsuðu mér í þessu tilfelli með stærstu blöðrum sem sést hafa í Evrópu það sem af er árinu. Ég þurfti að stinga á þetta til að ná vökvanum út... magnið af vökva sem flæddi út hefði dugað lítilli herdeild í heilt ár.

Þetta var þó ekki allt. Maður hefði ekki grátið nokkrar blöðrur hefði allt hitt gengið að óskum. En því var ekki að heilsa. Mér tókst fyrir einhvern ótrúlegan misskilning að starta í hlaupinu með vitlausum hópi. Ég sem sagt startaði með maraþonhópnum, en ekki hálfmaraþonhópnum.

Hvernig tókst mér það, spyr eflaust einhver. Góð spurning. Hér er raunar um að ræða röð atvika sem leiða til misskilnings, frekar en eitt afmarkað atvik. Þetta hófst með mislestri á heimasíðu maraþonsins, ég mislas tímasetninguna á hlaupinu og hélt að það ætti að byrja klukkan níu en ekki tíu eins og rétt var.

En það hékk meira á spýtunni, því ég var seinn fyrir í hlaupið og í stað þess að vera mættur hálftíma fyrir til að teygja og spóka sig aðeins innan um hina hlauparana, eins og siður og venja ku víst vera, var ég svo seinn að ég kom bara eina mínútu í níu. Þá var verið að starta hlaupahóp og ég hélt auðvitað að ég væri á réttum stað. Það var meira að segja verið að spila "Frjáls eins og fuglinn" og ég auðvitað bara greip í mig stemninguna og söng með og hljóp af stað.

En annað kom á daginn. Á miðri leið áttaði ég mig á því, eftir að hafa heyrt einhverjar bandarískar konur tala ítrekað um að þær stefndu að því að ná því að hlaupa þetta á 4-5 tímum, að ég gæti ekki verið í réttum hópi. Það reyndist rétt athugað hjá mér, loksins. Ég var sem sagt maðurinn í vitlausu hlaupi. Getiði ímyndað ykkur eitthvað vandræðalegra? Maður hefði alveg eins getað verið nakinn þarna. Að vísu var ég kannski ekki í alveg bandbandvitlausum hóp, því hálfmaraþonið og maraþonið fara alveg sömu leiðina fyrstu 19 kílómetrana en samt frekar vitlausu því ég hafði ekki startað með hópnum mínum.

Til að gera langa sögu angistar og panikks stutta þá komst ég að því eftir mjög móð og andstutt samtöl við starfsmenn að það væri ekkert í þessu að gera og ég ætti bara að hlaupa áfram og klára. Sem ég og gerði og þar sem ég var með klukkutíma forskot á alla aðra hálfmaraþonhlaupara var auðvitað ekkert annað hægt að gera en að nýta tækifærið og hafa gaman af þessu. Ég kom auðvitað langfyrstur í mark í hálfmaraþoninu, sem getur ekki talist annað en stórglæsilegt í ljósi þess að maður var að taka þátt í sínu fyrsta maraþoni. Áhorfendur vissu samt ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessum manni, sem kom þarna skyndilega hlaupandi einn í mark. Annaðhvort var ég lélegasti 10 km hlaupari ársins eða þá að íslensku þjóðinni hafði fæðst ný vonarstjarna í langhlaupum, yfirnáttúrulegur hlaupagikkur, allt af því eþíópískur að líkamsburðum, sem hafði stungið alla keppinautana sína af með þvílíkum látum að annað eins hafi ekki sést í mörg ár. Menn voru í vafa...

Ég er annars að skella mér í kvöld á fimm ára reunion 1981-árgangsins úr MR. Er maður að verða gamall eða hvað?

Friday, August 18, 2006

Snakes on a Plane

Úffff, hvað ég ætla ekki á þessa mynd, enda er ég hræddari við slöngur en allt annað.

Wednesday, August 16, 2006

Þjóðvegurinn

Þar sem ég átti nokkurra daga frí í vinnunni, sökum linnulausrar vinnuþrælkunar Blaðs allra landsmanna á mér í sumar, ákvað ég að bruna aðeins út fyrir bæinn og taka með tjald og bók og glíma við þjóðveginn, eins og Magnús Eiríksson orti einu sinni.

Þetta var stórfínt. Svona ferðir bjóða manni upp á að njóta útsýnisins yfir sveitir landsins frá bestu sjónarhorni sem hægt er að hugsa sér, bílrúðunni, svona milli þess sem maður horfir á veginn.

Annars hef ég orðið var við að menn skiptast nokkuð í tvo hópa gagnvart svona einmenningsferðalögum. Sumir sjá fegurðina við þetta, að ráða sér alveg sjálfur – svona vörubílstjóra-King of the road dæmi en aðrir fá stórkostlegar áhyggjur þegar þeir heyra af því að einhver ferðist einn síns liðs. Viðbrögðin hjá einum vini mínum við því að ég væri einn að flakka úti á landi voru t.d. þau að spyrja mig hvort ég væri í tilvistarkreppu.

- Nei, ég held að það sé allt í lagi með mig.
- Alveg viss?
- Já...

Ég kom út úr skápnum sem einmenningsferðalangur árið sem ég bjó úti í Þýskalandi. Það eru nokkur ár síðan og ég held að það sé óhætt að segja að mér líði miklu betur í dag eftir að ég ákvað að vera heiðarlegur við sjálfan mig og aðra. Ég skildi allt í einu fegurðina við það að flakka og þvælast einn án þess að vera utan í hóp af fólki allan tímann. Félagsskap má svo leita uppi þegar þörfin kemur í stað þess að dröslast með hann allan tímann.

Flakkið stóð að þessu sinni yfir í þrjá daga. Gekk meðal annars upp að Glym, sem ku vera hæsti foss landsins, þó ekki sé hann vatnsmikill blessaður. Það er dáldið gaman að labba upp að fossinum og sérstaklega að fara yfir Botnsánna en til þess þarf að fara yfir trjádrumb sem hefur verið lagður yfir ánna. Ég hafði það yfir með naumindum og fannst ég nokkuð góður. En á eftir mér fór yfir sama drumbinn hópur af pólskum innflytjendum, sem voru trúlega fjölskylda. Þar voru bæði kona á áttræðisaldri og tveir strákar sem voru ekki eldri en fimm ára og öll strollan fór yfir án þess að blikka auga. Samt töff hjá mér.

Stoppaði líka í Stykkishólmi. Það voru þó nokkur vonbrigði að rekast ekki á alnafna minn, Árna Helgason, fréttaritara Morgunblaðsins í Stykkishólmi og bindindisfrömuð, þó ég efist nú reyndar um að hann kæri sig mikið um að blanda geði við drykkfellda alnafna sína. Það verður að minnsta kosti að bíða betri tíma að við nafnarnir hittumst.

Ferðinni lauk svo í höfuðstað norðursins, Akureyri. Þar snæddi ég á Bautanum, sem sannir Akureyringar bera fram þannig að menn fá munnvatnið úr þeim í annað augað við framburðinn og svo á Greifanum, þar sem ég dró með mér í hádegismat verðandi sýslumann Akureyringa og stud.jur, Einar Ingimundarson, sem hefur einmitt flutt búferlum norður í land.

Akureyri hefur eitthvað skemmtilegt við sig. Þetta er svona landsbyggðarbær að því leyti að þarna er fallegt útsýni og svona ekki of stór, en hann hefur líka ákveðin element úr borginni, eins og miðbæ með einhverjum pöbbum og veitingastöðum.

Allt í allt var þetta hin besta ferð. Nú get ég haldið áfram að láta Málgagnið þræla mér út...

Monday, August 07, 2006

Veiðimaðurinn

Ég veiddi maríufiskinn minn um helgina. Fór upp í Hvammsvík í Hvalfirði með þeim Sverri og Önundi og landaði þessu ferlíki. Kunni reyndar ekki að kasta á flugu en fékk skyndinámskeið á staðnum (þetta gengur víst allt út á 10-1 kastaðferðina) hjá strákunum. Eftir það var ekki aftur snúið. Þegar ég hafði kastað nokkrum sinnum beit hann á og einvígið hófst.

Fyrir þá sem hafa lesið Old Man and the Sea eftir Hemmingway, get ég sagt ykkur að sú bók kemst ekki í hálfkvisti við átökin sem ég lenti í við fiskinn. Oft var ég nærri því aðframkominn og ósjaldan á þessum tæplega þremur mínútum sem það tók mig að koma þessu flykki á land var ég við það að gefast upp. En eitthvað var það sem fékk mig til þess að bíta á jaxlinn og halda áfram og á endanum sá ég ekki eftir því. Þegar þessi tveggja punda regnbogasilungur lá á bakkanum og ég stóð sigri hrósandi yfir honum, sem eins konar tákngervingur afkomuhæfni mannsins í óbyggðunum, vissi ég að þetta var allt saman þess virði. Ég var orðinn veiðimaður.

Ég fór með hann heim og hugðist elda hann í matinn, til þess að mér liði eins og karlmanni. En það tókst að vísu ekki. Bæði var hann nú heldur rýr greyið en það spilaði líka inn í að ég kann eiginlega ekki að slægja fisk, enda er ég borgarbarn sem ólst upp við að spila tölvuleiki, lesa bækur og hanga á Netinu. Ég kann því eiginlega ekkert af því sem er íslenskt og þjóðlegt, eins og að slægja fisk, binda heybagga eða rata eftir áttum. Tilraunir mínar enduðu með miklu blóðbaði í eldhúsinu en pínulitlum flökum.

Maður deyr samt ekki ráðalaus. Ég hringdi í staðinn á pizzu með sjávarréttum og það var Pólverji sem kom með hana til mín. Svona er Ísland í dag.
Hverjum þykir sinn fugl fagur

Að undanförnu hafa birst útreikningar þar sem sýnt er fram á hversu hagstætt það sé að taka húsnæðislán í Evrópu og að gífurlegur munur sé á heildarupphæðinni fyrir sama lánið á Íslandi og í Evrópu. Á vef Björgvins G. Sigurðssonar þingmanns Samfylkingarinnar eru birtir útreikningar sem sýna þetta og í frétt á NFS á dögunum var einnig fjallað um þetta.
Ýmsar ástæður eru fyrir þessu. Hér á landi erum við með verðtrygginguna, sem þýðir að langtímalán verða alltaf mun dýrari en á svæðum þar sem verðtrygging er ekki til staðar. Þar að auki eru vextir hér á landi töluvert hærri en í Evrópu. Þetta á bæði við um stýrivexti Seðlabankans, sem hafa að vísu ekki bein áhrif á húsnæðisvexti, og vexti á íbúðalán hjá bönkum og Íbúðalánasjóði.

En jafnvel þótt íbúðakaupendur í Evrópu séu vel settir miðað við okkur, mega menn ekki alveg gleyma sér af spenningi fyrir Evrópusambandinu. Ef vextir eru settir í stærra samhengi lýsa þeir auðvitað ákveðinni stöðu í efnahagsmálum. T.d. eru vextir hér á landi háir núna vegna þess að efnahagslífið er allt á fleygiferð og mikil þensla og þegar þannig háttar reyna yfirvöld að veita ákveðið mótvægi, t.d. með því að hafa háa vexti og reka aðhaldssama fjármálastefnu. Á svæðum þar sem efnahagslífið er í lægð eru vextir hins vegar lágir og hugsunin þar að baki er sú að reyna að koma hjólum hagkerfisins í gang aftur og hvetja til fjárfestinga og framkvæmda. Í eldri aðildarríkjum Evrópusambandsins eins og t.d. Þýskalandi og Frakklandi hefur undanfarin ár verið mikið atvinnuleysi og frekar lítill hagvöxtur, sem er andstætt við Ísland, þar sem atvinnuleysi hefur verið vart mælanlegt undanfarna mánuði og hagvöxtur nokkuð mikill.

Þó ég standi reyndar ekki í íbúðakaupum sjálfur, get ég vel ímyndað mér að það sé sárt að þurfa að greiða himinháa vexti. En varðandi samanburð við Evrópu verða menn að spyrja sig hvort efnahagsástandið í heild sinni þeir kjósa, hið evrópska eða hið íslenska.

Saturday, August 05, 2006

Misskilningur Líndals og Rúv?

Hún var sérstök fréttin sem Rúv birti í kvöld sem fyrstu frétt um að Árni Johnsen væri ekki kjörgengur á þing. Þar er byggt á Sigurði Líndal og ummælum hans í fréttum Sjónvarpsins um málið. Í fréttinni á vef Rúv segir: "Árni Johnsen þarf að fá uppreisn æru frá forseta Íslands hyggist hann gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum."

Þetta er, held ég, ákveðinn misskilningur. Það er nefnilega ekki skorið úr um kjörgengi manna fyrir kosningar, heldur eftir þær. Sigurður Líndal segir í fréttinni að sveitastjórnir skeri úr um hvort viðkomandi sé kjörgengur. En séu ákvæði kosningalaganna um kjörgengisskilyrði skoðuð kemur annað í ljós:

4. gr. Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar og umboðsmaður Alþingis eru þó ekki kjörgengir.

5. gr. Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

36. gr. Ekki er nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn, en Alþingi úrskurðar um kjörgengi þeirra sem kosnir eru jafnframt því sem það úrskurðar um hvort nýkosnir þingmenn séu að öðru leyti löglega framboðnir og kosnir.

Síðasta greinin, þ.e. 36. gr., er lykilatriði í málinu. Alþingi er úrskurðaraðili í málinu og þar af leiðandi á mat á hugtakinu "óflekkað mannorð" og eins hvaða verk séu "svívirðileg að almenningsáliti" undir þingið. Meirihluti Alþingis kýs um þetta og sker úr um málið.

Sigurður Líndal sagði hins vegar í fréttum í kvöld: "Þeir sem meta þetta eru þeir sem semja kjörskrár, þ.e.a.s. sveitastjórnir..."
Þetta rímar illa við áðurnefnda 36. gr. laganna.

Í lok fréttarinnar á Rúv er Sigurður spurður hvort kjörgengi Árna Johnsen velti á því hvort hann hafi fengið uppreist æru frá dómsmálaráðuneytinu. Þessu svarar Sigurður svo til:
"Já... já,já. Mér sýnist nú að vísu kannski eitthvað þröngt um það en ég skal ekkert segja um það á þessu stigi málsins, það er ekki það langt síðan dómur gekk."

Á þessum óljósu ummælum Sigurðar, sem virðast í þokkabót byggð á misskilningi, byggir Rúv þá fyrirsögn að Árni sé ekki kjörgengur! Hvort sem það eru sveitarstjórnir eða Alþingi sem meta kjörgengi, ætti allavega að vera ljóst að Árni væri kjörgengur þar til annað kemur í ljós og að úrskurða þyrfti sérstaklega um að hann væri ekki kjörgengur. Það hefur enn ekki gerst.

Friday, August 04, 2006

Sérlegur álitsgjafi í Bobby Fischer?

Ég fékk dálítið sérstakt símtal í dag. Svo virðist sem ég sé orðinn alþjóðlegur álitsgjafi um málefni Bobby Fischers. Það var blaðamaður frá Neue Züricher Zeitung í Sviss sem hringdi og vildi fá fréttir af Bobby Fischer. Hann var að skrifa stuttar fréttir um ýmsa menn hér og þar í heiminum og vildi heyra af því hvernig Fischer gengi.

Þannig að í einar 20 mínútur rakti ég fyrir honum ævintýri Fischers hér á landi. Sem eru nú svo sem ekki mikil, því kappinn hefur verið nokkuð rólegur og spakur hér á landi.

Ég hélt í fyrstu að hann væri að spyrja eitthvað út í deilur Fischers við UBS-bankann, sem var m.a. ástæða þess að Fischer kom í viðtal við Morgunblaðið á dögunum. Ég hélt að svissneskur fjölmiðill hefði hugsanlega áhuga á að fjalla eitthvað um það. En í ljós kom að hann hafði ekkert heyrt um þetta, heldur var bara að spyrja almennra frétta af Fischer og hvort að hann væri eitthvað að tefla osfrv.

Ég færði manninn í sanninn um ævintýri Fischers og deilurnar við bankann. Í lokin skipaði hann mig sérlegan álitsgjafa og fréttaritara svissneksa blaðsins á Íslandi varðandi vellíðan og málefni Bobbys Fischers. Ekki amalegt það.

Tuesday, August 01, 2006

Jón Sigurðsson

Það er ekkert íslenskara en að heita Jón Sigurðsson. Enda eru þeir sem bera þetta nafn menn mikilla afreka fyrir land og þjóð.

Fyrstur til að láta á sér bera var Jón Sigurðsson biskup á 14. öld. En fleiri þekkja eflaust Jón Sigurðsson sem leiddi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og mótmælti allur á þjóðfundinum 1851. Svo var Jón Sigurðsson, Alþýðuflokksmaður, sem var iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 1987-1993 og síðar seðlabankastjóri og svo bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans. Forstjóri frumkvöðlafyrirtækisins Össurar heitir Jón Sigurðsson og maður með sama nafni lenti í 2. sæti í Idolinu 2004. Ekki má gleyma körfuknattleiksmanninum Jóni Sigurðssyni, sem lék með KR á sínum tíma og var leikmaður ársins 1970, 1976 og 1979. Þá var Jón nokkur Sigurðsson seðlabankastjóri um skeið en færði sig nýverið um set og tók við embætti viðskipta- og iðnaðarráðherra og hyggst bjóða sig fram í embætti formanns Framsóknarflokksins. Svo er það auðvitað Jón Sigurðsson sem er framkvæmdastjóri fjárfestingarsviðs FL Group og var með 15 milljónir í tekjur á mánuði.

Þessir menn fæðast augljóslega undir heillastjörnu. Ég ætla að skíra barnið mitt Sigurð, til þess að barnabarnið geti heitið Jón.