Thursday, September 28, 2006

Kosningar og Kárahnjúkavirkjun

Kosningarnar unnust á fimmtudaginn í síðustu viku. Þetta voru ótrúlega stórar kosningar, alls um 1550 manns sem kusu og fróðir menn telja að þetta sé fjölmennasti fundur í sögu Sjálfstæðisflokksins. Þetta var góð kosningabarátta sem fór vel fram.

Ný stjórn Heimdallar hittist einmitt í fyrsta sinn í gær og samþykkti m.a. þessa ályktun um matvælaverð og landbúnaðinn. Mér líst annars bara vel á þetta allt saman.

Hálslónið er annars að fyllast í þessum skrifuðu orðum í beinni á Stöð 2 eða NFS, sem ég hélt reyndar að væri hætt. Ég veit ekki með þessar hugmyndir um að klára byggingu Kárahnjúkavirkjunar og láta hana standa sem minnisvarða. Myndu ekki allar 100 milljarðarnir eða hvað það var nú sem kostaði að byggja virkjunina verða að gjörsamlega engu? Hefðum við þá eytt 100 milljörðum í minnisvarða? Mér finnst nú allt í lagi að ríkið setji smá pening í höggmyndalist og svona en er þetta ekki fulllangt gengið? Og talandi um komandi kynslóðir, myndi þeim ekki finnast það hreinlega heimskulegt að hafa byggt virkjun fyrir alla þessa peninga og láta hana standa svo tóma?

Wednesday, September 20, 2006

Kjördagur runninn upp

Ég er í framboði til stjórnar Heimdallar. Það er kosið í dag. Kjördagur er runninn upp. Sumir líta á jólin eða páska sem mesta hátíðisdag ársins. Þessu er öfugt farið með mig. Ég lít á kjördag sem mesta hátíðisdaginn og legg áherslu á hátíð, því á kjördögum verður til eins konar þögult samþykki manna um að fagna því hátíðlega að við búum við lýðræði - þetta magnaða og manngerða stjórnmálaform sem orðið hefur til í aldanna rás.

Það eina sem ég bið ykkur um að gera er að kynna ykkur málin. Verið óhrædd við að skoða báðar hliðar og kynnast báðum framboðum t.d. með því að lesa málefnaskrárnar sem eru á heimasíðum framboðanna. Vegið og metið hvar þið sjálf standið og ekki vera hrædd við að taka sjálfstæða afstöðu til málanna. Ef þið viljið rifja upp umræður liðinna mánaða um stefnu og strauma í Heimdalli bendi ég á gagnasafn Morgunblaðsins. Það er sennilega hollt fyrir kjósendur að slá upp gömlum greinum í safninu og bera saman við þær áherslur sem menn setja á oddinn núna. Mikilvægast af öllu er þó að muna að það er ekkert atkvæði mikilvægara en ykkar eigið. Lýðræðið má aldrei vanmeta og kosningarétturinn ekki verða sjálfsagður - forfeður okkar börðust fyrir honum.

Þegar þessum hugleiðingum er lokið, drullið ykkur þá upp eftir og kjósið Erlu Ósk sem formann Heimdallar - og þar með mig og hina frambjóðendurna í stjórn.

Saturday, September 09, 2006

Gengið til góðs milli sundlauga

Ég var búinn að skrá mig í þjóðarátak Rauða krossins og ætlaði mér að ganga til góðs í dag ásamt forseta vorum og 2.500 öðrum Íslendingum sem skráðu sig í verkefnið.

Þegar ég skráði mig á heimasíðunni var ég látinn velja skráningarstöð, sem voru í sundlaugum borgarinnar. Ég valdi að sjálfsögðu Vesturbæjarlaugina (international gay hot spot), enda styst að fara. Þangað mætti ég í dag en var reyndar í seinni kantinum, kom ekki fyrr en um klukkan fjögur til að bjarga heiminum. Er ekki annars alveg hægt að bjarga heiminum eftir kaffi?

Ég ætlaði mér allavega að koma sterkur inn í seinni bylgjuna í söfnuninni og kannski nurla saman nokkrum þúsundköllum fyrir gott málefni. En þegar ég kom var mér sagt að allar götur á svæði Vesturbæjarlaugar væru bara búnar og ekkert eftir handa mér. Ég gæti hins vegar farið út í sundlaug Seltjarnarness því þar væri eitthvað af götum eftir.

Ahh, hugsaði ég! Beverly Hills kapítalistarnir út á Seltjarnarnesi - gat verið að þeir nenntu ekki að leggja í púkkið. Gott - ég þangað. En þegar ég hafði gengið út á Nes og var búinn að gefa mig fram í afgreiðslunni, kom í ljós að þetta voru einhver mistök og það voru allar götur búnar á Nesinu líka. Seltirningarnir kannski ekki jafnsiðblindir og ég hélt...

En það var enn von, sagði konan frá Rauða krossinum við mig þar sem ég stóð og klóraði mér í kollinum í anddyri sundlaugarinnar. Það vantaði nefnilega fullt af fólki upp í Ingunnarskóla í Grafarholti því enn ætti eftir að ganga í margar götur þar!

Það var eitthvað kómískt við þetta. Langþreyttir íbúar Grafarholtsins hafa bara ekki tíma til að sinna þriðja heiminum. Kannski þarf engan að undra - annað hvert hús er enn í smíðum og örugglega fleiri byggingarkranar á svæðinu en blómapottar. Ef til vill ekki nema eðlilegt að menn hafi takmarkaðan tíma aflögu.

Ég reyndar sá mér því miður ekki fært að fara upp eftir þar sem ég var bíllaus. Ég gat því ekki gengið til góðs um nýbyggðar götur Grafarholtsins að þessu sinni. Kannski síðar.

En ætli það megi draga einhvern lærdóm af þessari frásögn? Til dæmis eitthvað á þá leið að íbúar hinna rótgrónu og settlegu hverfa borgarinnar gefi sér tíma til að taka þátt í svona verkefnum og að áhuginn þar sé svo mikill að búið sé að ganga í hvert hús upp úr kaffileytinu? Og þá kannski líka að úttaugaðir íbúar Grafarholtsins, sem nýta hverja lausa stund í að hræra steypu og slá upp mótum, hafi einfaldlega ekki tíma til að standa í því að brauðfæða börnin í Afríku?

Félagsfræðingar voru gerðir til að rannsaka þessa þróun. Það er ekkert flóknara.

Friday, September 08, 2006

Endalok fátæktar?

Ég hef verið að lesa End of Poverty eftir Jeffrey Sachs, sem er hagfræðiprófessor og sérstakur ráðgjafi Kofi Annans. Ég er reyndar ekki kominn mjög langt með hana. Formálinn að bókinni er skrifaður af Bono! Mjög poppað.

Sachs fjallar í bókinni um hvernig fátækar þjóðir geta komist til bjargálna og hvernig sé unnt að eyða fátækt í heiminum fyrir árið 2025. Þar á hann að sjálfsögðu við hina sárustu fátækt, en ekki Vesturlandafátækt.

Það er margt athyglisvert í því sem Sachs skrifar. Kenningin hans er að vísu nokkuð almenn - hann vill auka fjárframlög verulega og nýta þau til að byggja upp þjóðfélögin þannig að þau verði sjálfbær. Hann lýsir þessu sjálfur þannig að hagfræðingar og aðrir sem fáist við fátækt verði að nálgast viðfangsefnið með sama hætti og þegar læknir sjúkdómsgreinir sjúkling - finna þá þætti sem valda vandræðum og gæta þess alltaf að velja ekki of þröngt sjónarhorn. T.d. gangi ekki að leysa efnahagsmál þjóðar með því einu að lækka skatta, heldur þurfi að horfa til miklu fleiri þátta, t.d. infrastrúktúrsins, hvernig gangi að berjast við sjúkdóma í landinu, hvort stjórnvöld séu spillt, hvernig menning í viðkomandi landi er, hvort tilteknum þjóðfélagshópum sé haldið niðri og svo framvegis og framvegis. Hann vill sem sagt að heildarmyndin sé skoðuð en ekki reynt að leysa málin með einföldum og afmörkuðum aðgerðum.

Sachs tekur ákveðna afstöðu til varnar því sem sumir kalla nútímaþrælavinnu og er oft tengt við hin svokölluðu sweat-shop. Þó aðstæðurnar þar séu vissulega lélegar segir Sachs að með því að vinna þar hafi starfsmennirnir oft tækifæri sem þeir fengju annars ekki, t.d. til að fá laun, búa í þéttbýli og ráða sér sjálfir.

Hann tekur dæmi af Bangladesh þar sem mikið af konum vinna í saumaverksmiðjum við að sauma merkjavöru sem er svo seld á Vesturlöndum (kannski bolina sem við kaupum í Sautján...) og segir að þó launin sem konurnar fái séu mjög lág, vinnudagurinn langur og aðstæðurnar lélegar væru þær verr settar annars. Hann vill meina að margar þessara kvenna byggju ella í sveitum landsins, þar sem feður þeirra ákveddu hverjum þær giftust og hvenær þær eignuðust börn og frelsið væri nánast ekkert. Með því að vinna hafi þær allavega frelsi til að ráða sínu einkalífi, þær geti komið sér upp eigin húsnæði og hugsanlega lagt eitthvað fyrir og tryggt þannig menntun barna sinna.

Kannski er þetta eins og reyna að sjá gimstein á ruslahaug. Sachs vill meina að þó aðstæðurnar á þessum vinnustöðum séu oft hræðilegar, sé ákveðin þróun í átt að betri lífskjörum hafin - þróun sem hefjist ekki ef þær eru fastar í sveitunum.

Monday, September 04, 2006

Þjóðhyggjan

Á heimasíðu Björns Inga Hrafnssonar er nýleg færsla um hugtakið þjóðhyggju sem hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Þjóðhyggjan er ættuð frá Jóni Sigurðssyni, nýjum formanni Framsóknarflokksins og virðist vera ákveðið útspil til að sannfæra kjósendur um að flokkurinn hafi sjálfstæða hugmyndafræði og sé ekki bara bræðingur hægri og vinstri stefnu. Með þessu er auðvitað verið að reyna að svara þeim ásökunum að Framsókn sé hentistefnuflokkur sem elti hægri eða vinstri flokkana eins og hentar hverju sinni og hafi undanfarin 11 ár verið alger hækja Sjálfstæðisflokksins. Hvort það takist með hinu nýja hugtaki, ætla ég ekki að segja til um en það er í sjálfu sér alltaf jákvætt þegar menn eru að reyna að skilgreina sig og þróa hugmyndafræðina.

En þetta hugtak virðist reyndar vera Framsóknarmönnum sjálfum svo framandi að Björn Ingi, sem hefur verið hálfgerð samviska flokksins undanfarin misseri, bað Jón um að senda sér skilgreininguna á þjóðhyggju í tölvupósti, sem hann svo birtir á vefsíðu sinni.

Hinn nýi formaður er sem sagt með alveg splunkunýja skilgreiningu á flokknum, sem hann setti saman sjálfur og sendir mönnum í tölvupósti, ef óskað er eftir. Inn á vef Framsóknarflokksins má finna grundvallarstefnu flokksins og ýmsar stjórnmálaályktanir landsfunda flokksins, m.a. frá 2005 þar sem hvergi er minnst á þjóðhyggju, allavega sá ég það ekki í fljótu bragði.

Jón segir í tölvuskeytinu sínu að þjóðhyggja og þjóðræknisstefna merki í raun alveg hið sama og þjóðleg félagshyggja en Framsóknarmenn hafi jafnan notað það hugtak um meginstefnu sína og grunnviðhorf.

“Með þessari orðanotkun er lögð áhersla á þá sögulegu og hugmyndafræðilegu staðreynd að þjóðleg félagshyggja Framsóknarmanna er ekki byggð á sósíalisma eða stéttarhyggju heldur á rætur í sömu arfleifð og forsendum sem sjálfstæðisbaráttan og endurreisn íslenskrar menningar og samfélags. Þarna er jarðvegur og rætur Framsóknarstefnunnar í félagsmálahreyfingum og menningarstarfi, ungmennafélögum, samvinnufélögum, ræktunarsamtökum hvers konar og þjóðfrelsisstarfi. Þarna má líka sjá virk tengsl Framsóknarstefnunnar við samvinnustefnuna og ekki síður við þjóðlega frjálslyndisstefnu, en leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar kenndu sig við þá stefnu. Vel má sjá sams konar tengsl í sögu Venstre sem kallar sig "Danmarks Liberale Parti",” segir Jón.

Ég er því miður litlu nær. Hvað finnst þeim sem aðhyllist þjóðhyggju og á rætur í arfleifð og forsendum sjálfstæðisbaráttunnar og endurreisnar íslenskrar menningu um einkavæðingu, ofurlaun, skatta og virkjanir - svo tekin séu nokkur dæmi um umdeild mál? Mér finnst þjóðhyggjan ekki veita svör um stefnur, heldur er hún frekar útskýring á uppruna flokksins og sögu hans.

Menn hafa verið að grínast með að Jón Sigurðsson telji sig vera á æðra þekkingarstigi en aðrir menn. Það er nú kannski ósanngjarnt grín en kann að skýra skilningsleysi mitt og annarra á þessari skilgreiningu.

Friday, September 01, 2006

Kárahnjúkastífla

Þeir eru trúlega fáir sem átta sig almennilega á umræðunni um öryggismál við Kárahnjúkastíflu. Það er kannski ekki skrýtið, því sprenglærðir jarðvísindamenn virðast raunar ekki heldur alveg átta sig á þessu öllu. Að minnsta kosti virðist mikið skilja menn að og þá er kannski ólíklegt að almenningur átti sig á hvað felist í steyptri lónskápu, bergspennu og misgengjum.

Greinargerð og endurheimt málfrelsi Gríms Björnssonar hefur þyrlað upp umræðunni. Efnislega felur greinargerðin í sér að ekki hafi verið nægilega vel að undirbúningi staðið áður en farið var út í framkvæmdir. Í Morgunblaðinu í vikunni svöruðu verkfræðingar Landsvirkjunar þessum athugasemdum og gerðu það ágætlega. Raunar má hafa það bak við eyrað í þessari umræðu að trúlega hefur enginn aðili málsins jafnmikla hagsmuni af því að stíflan haldi, heldur en Landsvirkjun. Það yrði þvílíkur álitshnekkir fyrir fyrirtækið ef þetta risamannvirki mynda bresta með tilheyrandi afleiðingum. Það er því ekki óeðlilegt að reikna með því að verkfræðingarnir hafi farið nokkuð vel yfir þetta og mögulegar hættur samfara því að byggja á þessu svæði.

En Valgerður Sverrisdóttir hefur ekki komið vel út úr þessu máli. Henni hefur ekki tekist að útskýra hvers vegna hún leyfði ekki Alþingi og iðnaðarnefnd að sjá greinargerð Gríms. Það dugir ekki að segja að greinargerðin hafi ekki átt neitt erindi til þingmanna - það gerir eiginlega bara illt verra. Með því er Valgerður að gefa í skyn að stjórnsýslan og ráðherrar hafi vald um það hvað fari til þingmanna og hvað ekki, sem má auðvitað túlka á þann hátt að hún vilji stýra því hvaða upplýsingar þeir hafi. Svo hefur það ekki hjálpað að neita að koma í viðtöl við Steingrím Joð. Það er erfitt að túlka það öðruvísi en sem ótta - ef hún hefur hreinan skjöld, af hverju mætir hún ekki Steingrími og leyfir almenningi að dæma um hvor málstaðurinn sé sterkari?

Þetta mál er tækifæri sem Samfylkingin virðist sjá sem sinn björgunarbát í umhverfismálum. Samfylkingin kaus með málinu á sínum tíma, nánast öll sem ein, en áhrif umræðustjórnmálanna hafa gert það að verkum að þingmenn flokksins sjá eftir þessu öllu núna. Þetta er því hin fullkomna útgönguleið, að benda á að ráðherra hafi leynt upplýsingum um málið.

Þeir einu sem haggast ekkert eru VG og Sjálfstæðismenn. VG er alveg á móti þessu og Sjálfstæðismenn svona volgir með þessu, ekkert yfir sig hrifnir en standa með samstarfsflokknum. Þeir prísa sig samt eflaust sæla núna að þurfa ekki að svara fyrir faldar skýrslur og fleira í þeim dúr.