Sunday, December 24, 2006

Gleðileg jól!

Hafið það nú gott yfir jólin, rúsínurnar mínar...

Saturday, December 16, 2006

Leiðarar...

Þeir eru með ólíkindum leiðarar Moggans þessa dagana. Í leiðara um kærurnar á hendur forstjórum olíufélaganna í fyrradag var borið saman mál forstjóranna og olíufélaganna annars vegar og Baugsmálið hins vegar. Þrátt fyrir að þessi mál séu að nánast öllu leyti ósambærileg, þar sem óumdeilt er að afbrot var framið í öðru tilfellinu en afar umdeilt í því seinna, þá er þetta sett fram sem sambærileg tilfelli.

Sagt er að Baugur hefði gert mikið af því að reyna að ná til almennings í vörn sinni í málinu. Meðal annars nýtt sér fjölmiðla í sinni eigu. Orðalagið er nánar tiltekið þannig að þeir hafi nýtt sér eignaraðild að fjölmiðlum og efast ég um að orðið eignaraðild hafi verið valið af tilviljun, enda hafa leiðarahöfundar blaðsins verið stærstu aðdáendur þess að sett yrðu lög um fjölmiðlastarfsemi á Íslandi sem kvæðu á um hámarkseignarhald einstakra aðila í fjölmiðlafyrirtækjum. Það voru hins vegar ekki nefnd nein dæmi í leiðaranum um þessa mögulegu notkun Baugs á fjölmiðlum sínum. Kannski finnst leiðarahöfundinum engin ástæða til að rökstyðja þessa grófu ásökun með dæmum. Og það var kannski heldur ekki ástæða til að taka fram að einn forstjóranna - sem beitir sér ekki að mati Moggans með sama hætti og Baugsmennirnir þegar hann eða fyrirtæki sitt fær kæru á sig - er einmitt einn stjórnarmanna Árvakurs, Kristinn Björnsson.

Og ekki skánaði það í dag, þegar Mogginn skrifar um þá hljóðlátu byltingu sem lög um fjármál flokkanna er. Hin lýðræðissinnaða ritstjórn blaðsins telur enga ástæðu til að gera athugasemdir við að þetta grundvallarmál hafi verið keyrt í gegn á tveimur dögum í þinginu og það nánast án umræðu. Þetta mál hefur að mati leiðarahöfundarins, gert það að verkum að flokkar og stjórnmálamenn eru orðnir frjálsir. Í leiðaranum segir:

Sú var tíðin að fjársterkir aðilar voru tilbúnir til að styðja starfsemi flokkanna fjárhagslega án þess að gera nokkra kröfu um endurgjald. Sumir höfðu þann hátt á að veita öllum flokkum stuðning. En tímarnir hafa breytzt og tíðarandinn er annar. Hver skyldi vera meginástæðan fyrir því, að stjórnmálaflokkarnir hafa allt í einu náð samstöðu sín í milli um þá hljóðlátu byltingu, sem er að verða í þessum efnum?

Þetta, eins og margt annað í skoðunum blaðsins, er mótað af þeirri sýn ritstjórans að fjármálaöflin í landinu hafi á einhverjum tímapunkti, fyrir nokkrum árum, umbreyst og orðið skaðleg þjóðfélaginu. Fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins virtist í mörgum málum deila þessari sýn ritstjórans. Gömlu góðu, flokks- og þjóðfélagshollu kaupmennirnir og heildsalarnir, sem máttu ekki vamm sitt vita, eru ekki lengur til staðar, heldur hefur ný stétt fjármálamanna stigið fram. Að mati Morgunblaðsins hlýða þessir menn ekki lögmálunum. Þeir raka inn skuggalegum gróða og verða svo stórir að samfélaginu stendur ógn af, þannig að það þarf nauðsynlega að setja lög um einokunarhringi. Þessir menn reyna að kaupa sér stjórnmálamenn, þannig að það þarf að setja lög um fjármál flokka. Og síðast en ekki síst borga þeir sér hærri laun en gengur og gerist - jafnvel hærri laun en ritstjóri Morgunblaðsins fær. Þetta gengur auðvitað ekki til lengdar og því er réttast að setja lög um fjármálalífið í heild sinni.

En besti kaflinn í leiðaranum um fjármál flokkanna fannst mér vera þessi:

Innan skamms verður enginn stjórnmálaflokkur háður fjárframlögum frá einkaaðilum og hið sama á við um þá einstaklinga, sem bjóða sig fram til stjórnmálastarfa.

Ef stuðningur Morgunblaðsins byggist á þessu, þurfa þeir að hugsa sig tvisvar um. Prófkjör verða haldin áfram og menn mega ennþá eyða peningum í prófkjör, þó það hafi verið sett ákveðin hámörk á þá upphæð. Í Reykjavík er sú upphæð um 8 milljónir. Það er því langt frá því útilokað að einstaklingar verði ekki háðir fjárframlögum, ef það er vandamálið í grunninn. Sjálfur er ég reyndar þeirrar skoðunar að eyðsla manna í prófkjörum sé ekki vandamál. Það sem þarf að tryggja er gagnsæi, þannig að bókhald sé opið. Takmörk og hámörk eru hins vegar út í hött. Í öðru lagi munu stjórnmálamenn alltaf reiða sig á stuðning annarra í tengslum við prófkjör, hvort sem það eru einkaaðilar eða aðrir og hvort sem um ræðir fjárhagslegan stuðning eða einfaldlega almennan stuðning í baráttnni. Einhverjir sem veita slíkan stuðning telja að þeir eigi inni greiða hjá viðkomandi, aðrir ekki. Þetta er til staðar áfram, hvað sem öllum lögum líður og afar ólíklegt að stjórnmálamenn verði algerlega óháðir öllu öðru.

Stærsti gallinn við þessi lög er auðvitað sá að þau eru hindrun fyrir þá sem vilja komast að í framtíðinni. Sitjandi stjórnmálamenn hafa alla þræði í hendi sér til að koma sjálfum sér á framfæri, koma málum í gegn og vekja athygli á afrekum sínum í fjölmiðlum, á meðan þeir sem eru nýir hafa ekki sömu möguleika. Þeirra möguleikar til að kynna sig og sín málefni hafa verið skertir stórkostlega með þessari löggjöf.

Friday, December 15, 2006

Björn Ingi og Dagur

Björn Ingi og Dagur B. mættust í Kastljósi í fyrradag til að ræða um umdeildar ráðningar á vegum Framsóknarflokksins í borgarkerfinu. Það virðist allt loga í net- og bloggheimum eftir þetta viðtal, jafnvel svo að dómsmálaráðherrann sjálfur lagði orð í belg. Björn Ingi gekk hart fram í viðtalinu og sneri ásökunum í sinn garð upp í ásakanir á hendur Helga Seljan fyrir að hafa verið ráðinn í Kastljósið án auglýsingar og í garð Dags með því að gefa í skyn að það að hann kenni í Háskólanum í Reykjavík hafi eitthvað með það að gera að hann hafi sem formaður skipulagsráðs úthlutað skólanum lóð í Vatnsmýrinni.

Á einhverjum tímapunkti fór viðtalið að snúast upp í vitleysu, þar sem allir töluðu í einu.

Björn Ingi hafði verið fenginn í þáttinn til að svara fyrir ráðningu Óskars Bergssonar sem verktaka hjá Faxaflóahöfnum en hann fær 390 þúsund krónur á mánuði fyrir 15 tíma vinnuviku. Óskar er formaður framkvæmdaráðs borgarinnar. Þar að auki hafa verið ráðin á vegum Faxaflóahafna þau Pétur Gunnarsson, spindoktor flokksins, til að sjá um uppfærslu á heimasíðu Faxaflóahafna, Ásrún Kristjánsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, til að sjá um hönnunarverkefni á vegum Faxaflóahafna og loks Ragnar Hreinsson, fyrrv. kosningastjóri Framsóknarflokksins, til að sjá um verkefnið Kvikmyndaborgin Reykjavík.

Ekki ber á öðru en að Framsóknarmenn hafi verið duglegir að koma sínu fólki að eftir kosningar. Tímabundnar ráðningar eru þess eðlis að þar eru störfin ekki auglýst og því er oft ráðinn einhver sem pólitíkusarnir treysta“. Reyndar segir Pétur Gunnarsson sjálfur um þetta á bloggsíðu sinni:

Ekki mun ég halda því fram að þetta verkefni mitt hafi ekkert með það að gera að ég er vinur Björns Inga Hrafnssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins, og pólitískur samherji hans.

En þróun mála í þættinum og viðbrögðin í kjölfarið hafa snúist um allt annað en ráðningarnar sjálfar. Þær hafa snúist um Björn Inga sjálfan, þ.e. hvernig hans frammistaða hafi verið í þættinum. Á bloggunum og í kommentunum eru menn að metast um hvort Björn Ingi sé spilltur eða töff, hvort hann hafi verið dónalegur eða fastur fyrir eða hvort Dagur B. hafi verið jarðaður. Þannig að áherslan fer frá ráðningunum og yfir á Björn Inga sjálfan.

Sniðugt?

Tuesday, December 12, 2006

Ókeypis

Skemmtilegt að sjá Kastljósviðtalið við Milton Friedman þar sem hann situr fyrir svörum hjá Ólafi Ragnari, Stefáni Ólafssyni og Birgi Birni, eða réttara sagt heldur um það bil klukkustundarlanga kennslustund í hagfræði fyrir þá. Þetta náði auðvitað hámarki í lokin þegar Friedman bendir Ólafi Ragnari, sem var sármóðgaður yfir því að það þyrfti að borga inn á fyrirlesturinn sem Friedman ætlaði að halda hér á landi, að það væri í raun ekki neitt til sem héti ókeypis fyrirlestur. Það væri óeðlilegt að þeir sem ekki nytu fyrirlestursins borguðu fyrir þá sem færu á fyrirlesturinn.

Ólafur spurði hann líka um meintan stuðning Friedmans við Chile. Hann svaraði því til að hann hefði verið viku í landinu og haldið fyrirlestra þar, m.a. um peningamagnskenningu sína og fleira. Einnig að hann hefði haldið uppi gagnrýni á harðstjórnina í landinu. Engu að síður virðist sú fullyrðing lifa góðu lífi á vinstrivængnum að voðaverk Pinochet hafi verið eitthvað Friedman studdi. Þannig skrifar Ármann Jakobsson t.d. í grein dagsins á Múrnum: Sjálfsagt hefði þrælahald fallið innan skilgreiningar hennar á frelsi, rétt eins og mannrán, morð, pyntingar og frelsissvipting á saklausu fólki féllu vel að hugmyndum Ronalds Reagan og Miltons Friedman um frelsi.

Svo situr ein spurning í mér eftir þáttinn: Hvar fékk Bogi Ágústsson þessi gleraugu?

Monday, December 11, 2006

?

Af hverju eru allar auglýsingar um þvottaefni, hreinsiefni og öll þrifaefni talsettar?

Wednesday, December 06, 2006

Mogginn

Það hefur margt verið sagt um dagblaðið sem landsmenn elska og hata, Morgunblaðið. En eitt er víst, að lestur blaðsins hefur dalað nánast stöðugt undanfarin ár. Miðað við nýja fjölmiðlakönnun Gallup er meðallestur blaðsins 46% á meðan Fréttablaðið er með um 66% lestur. Nú er komin ákveðin reynsla á breytingarnar sem gerðar voru á blaðinu í sumar og svo virðist sem þær skili ekki miklu en tilgangurinn með þeim var að gera blaðið aðgengilegra og láta það höfða til fleirri en áður. Þ.e. að auka lestur þess.

Kannski eru möguleikar svona áskriftarblaðs einfaldlega ekki meiri en raun ber vitni þegar það keppir við fríblöð, eins og Morgunblaðið gerir. Blaðið mun aldrei ná sömu útbreiðslu og dreifingu. Það er að mörgu leyti leiðinlegt ef satt reynist. Ég er reyndar ekki hlutlaus um þetta, hafandi unnið á Morgunblaðinu, en blaðið býður upp á efni og skrif sem fríblöðin munu sennilega aldrei geta leyft sér og fjölmiðlaflóran væri ekki jafnlitrík án áskriftarblaðs eins og Moggans.

En það kann ýmislegt fleira að spila inn í. Til dæmis efnistök og nálgun blaðsins og ritstjórnarinnar og hvort lesendur fái ekki stundum nóg af því að lesa blað sem lítur á sig sem sjálfskipaða samvisku þjóðarinnar. Á vefsíðu Steingríms Sævarrs var á dögunum birt lesendabréf um raunir Morgnublaðsins þar sem m.a. sagði:

Lesendur blaðsins og þeir sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni eru orðnir þreyttir á sömu tuggunni sem japlast út úr bolanum Styrmi. Þess utan er bolinn afar dýr á fóðrun. Leiðarar, efnistök og ritstíll sá er frá Styrmi og hans undirsátum kemur er satt að segja afar fráhrindandi. Af efnistökum má dæma að Morgunblaðið viti alltaf eitthvað meira um hin og þessi mál en upp er látið (sérkennileg staða fyrir fjölmiðil sem á að flytja fréttir). Stíllinn er alltaf eins og í kennslustund þar sem lesendur eru líkt og hálfgapandi nemendur í kennslustofu á öndverðri 20 öld. Við töfluna sveiflar Styrmir prikinu sínu og kemur nemendum sínum sannin um eðli hlutanna. Alltaf er talað niður til lesandans eins og frá einhverju óskilgreindu hásæti í skýjunum.

Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Blaðsins skrifar svo á ekki ósvipuðum nótum um Moggann í leiðara dagsins:

Slæm staða Morgunblaðsins er eftirtektarverð. Ekki er hægt að kenna samkeppninni við fríblöð alfarið um. Starfsfólk og stjórnendur Morgunblaðsins verða að horfa á eigin verk og vega og meta hvað er verið að gera rangt. Kannski er skoðanaþrunginn fjölmiðill barn síns tíma. Kannski er það ekki hlutverk fjölmiðla að keppast við að hafa sem mest áhrif á skoðanir fólks og gerðir. Má vera að Morgunblaðið þurfi að taka tillit til breytts tíðaranda.

Sunday, December 03, 2006

Stelpan frá Stokkseyri

Morgunblaðið birtir í dag kafla úr endurminningum Margrétar Frímannsdóttur, sem heita Stelpan frá Stokkseyri. Merkilegt að lesa kaflann um það þegar hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins og var að slást við karlaklíkuna í flokknum, þ.e. Ólaf Ragnar, Steingrím Joð, Svavar Gestsson og Einar Karl.

Í kaflanum sem birtur var lýsir Margrét aðdraganda þingflokksfundar Alþýðubandalagsins árið 1991 þar sem flokkurinn ætlaði að koma sér saman um stefnu varðandi EES-samninginn. Hún var búin að mæla sér mót við Ólaf Ragnar til að tala við hann en eftir að hún var komin þurfti hún að bíða heillengi fyrir utan skrifstofuna.

Á endanum brást þolinmæðin og hún fór inn. Þá sá hún að Ólafur sat á fundi ásamt Einari og ræddi við þá Steingrím og Svavar (sem voru víst hluti af ákveðnum armi í flokknum) um hver stefna flokksins í EES-málinu ætti að vera. Það fauk í Margréti við að sjá þetta og hún lýsir því hvernig hún hellti sér yfir Ólaf Ragnar út af þessu.

Athyglisvert hvernig málsvarar kvenréttindabaráttunnar og hinnar lýðræðislegu umræðu virðast hafa iðkað sína eigin pólitík á sínum tíma! Þar virðist karlaklíkan hafa setið í bakherbergjum og makkað á meðan konan - sem var í þokkabót þingflokksformaður - var látin bíða úti á meðan!