Monday, October 30, 2006

Alveg spurning með KKK?

Kommentin við þessa frétt á visir.is um slagsmál og meinta nauðgunartilraun á Viktor um helgina eru alveg ótrúleg. Af einhverjum ástæðum hafa fjölmiðlar tekið það fram að um útlendinga frá A-Evrópu sé að ræða. En af hverju skiptir máli hvaðan þeir koma?

Það er til að mynda ekki tekið fram í fréttum um slagsmál eða nauðganir sem Íslendingar fremja (það gerist víst líka stundum) hvaðan viðkomandi komi. Það er yfirleitt ekki tekið fram að árásarmaðurinn sé ættaður frá Blöndósi eða Vík í Mýrdal. En það gildir annað þegar hinir seku eru frá Litháen eða Póllandi? Þetta vekur síðan ógeðfelld viðbrögð hjá fólki sem eru úr öllum takti eins og maður getur lesið í kommentunum við fréttina.

Sérstaklega er aðdáunarverð yfirvegunin og skynsemin í skrifum "Bunders" sem kommentar við fréttina:

Spurning um að stofna bara nýtt KKK hérna á Íslandi til að sporna við þessum ræflum og taka lögin í sínar hendur því lögreglan hér er máttlaust verkfæri.

Alveg spurning hvort menn ættu ekki að þurfa að skrifa undir nafni í svona kommentum á vefi sem gríðarlega margir lesa. Sérstaklega ef þeir eru með háar hugmyndir um að endurreisa Ku Klux Klan.

Sunday, October 22, 2006

Umhverfið og íslensk kvikmyndagerðarlist

Var á vel heppnuðu málefnaþingi Sus í Keflavík um helgina þar sem aðaláherslan var lögð á umhverfismál. Ályktanir frá þinginu má finna hér.

Nálgunin sem er tekin í umhverfismálunum og virkjanamálum er í stuttu máli sú að ríkið dragi sig út úr ákvarðanatöku um virkjanamál og eftirláti einkaaðilum slíkar ákvarðanir um hvernig nýta skuli slíkar auðlindir, þó að sjálfsögðu innan marka þeirra laga og skilyrða sem sett eru í lögum.

Þetta er gott skref því það er ekki heppilegt þegar ákvarðanir um nýtingu náttúruauðlinda, eins og virkjanir eru, eru teknar fyrst og fremst út frá byggðasjónarmiðum og með því að fá stjórnvöld úr því hlutverki að vera eiginlegur keppandi á þessum markaði yfir í að setja reglur og hafa eftirlit er talsvert unnið.

Svo skellti ég mér á Mýrina í kvöld og hún er alveg að rokka. Ótrúlega góð íslensk kvikmynd!
Halldór sker hval

Hvalveiðarnar eru núna komnar á fullt. Það er eins og sogast 20 ár aftur í þjóðmálaumræðuna – hvalveiðar, leyniþjónusta og hleranir á vinstri mönnum eru mál málanna núna. Ég skrifaði pistil um málið á Deigluna um daginn og eins og fram kemur þar þá er ég hlynntur því að taka þessar veiðar upp aftur.

En manni var nú öllum lokið við að sjá fréttirnar í kvöld frá hvalstöðinni. Fjöldi manns fagnaði fyrsta langreyðinum með því að mæta niður í stöð og fylgjast með. Svo biðu menn ekki boðanna heldur drógu fram hokkíkylfuhnífana, sem af útlitinu að dæma voru alveg örugglega smíðaðir töluvert áður en hokkíkylfan var fundin upp, og hófu skurðinn. Sérstaklega fór þar fremstur í flokki Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar og skar hann hval af miklum móð.

Þetta var auðvitað tekið upp í erlendum fréttum, þar sem ákvörðunin um að leyfa aftur hvalveiðar í atvinnuskyni hefur verið til umfjöllunar. Það var látið fylgja með í framandi tón í einni fréttinni að þarna væri nú formaður utanríkismálanefndar Alþingis mættur í hvalskurðinn. Svo mátti sjá í ítarlegu myndskeiði hvernig langreyðurinn var skorinn upp og innyflin flæddu út. Svo var látið fylgja með að langreyðir væru í útrýmingarhættu. Þetta er auðvitað alveg mögnuð fréttamennska.

Rannsóknir benda til að það séu um 25 þúsund langreyðar í stofninum við Ísland og við ætlum að veiða 9. En samt eru þeir nú í útrýmingarhættu samkvæmt fréttaflutningi. Svo er látið fylgja með myndskeið af einu dýrinu sundurskornu.

Maður veltir fyrir sér hvernig því yrði tekið í frétt um landbúnaðarmál að þar væri sýnt sundurskorin rolla, helst þannig að innyflin sæust vel. Svo myndi því vera fleygt fram í leiðinni að rollur væru í útrýmingarhættu í heiminum. Svo mættu áhorfendur bara draga eigin ályktanir…

Það virðist því vera að erlendir fjölmiðlir hyggist matreiða þetta með sínum hætti eins og við var kannski að búast. Og í því ljósi fannst mér það óheppilegt hvernig staðið var að þessu í Hvalfirði, sérstaklega í ljósi þess að menn ættu að vita undir hvílíku nálarauga þessi mál eru í heimspressunni. Þó við séum veiðiþjóð og að hvalir séu skornir eins og allur annar afli sem kemur á land, er ekki hægt að vera með hvaða atriði sem er í boði fyrir fjölmiðla.

Samsærið með strætó

Það berast reglulega af því fréttir núna að undanförnu að farþegum í strætó hafi fjölgað gríðarlega. Þetta er í sjálfu sér hið besta mál. En ég tók eftir því um daginn þegar ég var í strætó að þar nota sennilega flestir farþega af yngri kynslóðinni svonefnd skólakort, sem eru ólík Grænu og Rauðu kortunum í strætó að því leyti að þau eru smartkort sem eru borin upp að sérstökum lesurum sem komið hefur verið fyrir í vögunum.

Þannig er hægt að skrá hvert skipti sem slíkt kort er notað. Það er hins vegar ekki hægt varðandi græna eða rauða kortið, sem þessir hópar hafa trúlega notað mikið og gera sjálfsagt enn. En ég fór að velta þessu fyrir mér í tengslum við frásagnir af fjölgunum strætófarþega – er það í raun fjölgun eða er ekki bara orðið auðveldara að telja farþegana? Nú þarf ekki lengur að slumpa á eða áætla fjöldann í jafnmiklu mæli og áður, þannig að talningar hljóta að verða nákvæmari.

Og spurningin er þá hvort farþegum sé í raun að fjölga eða hvort þeim hafi kannski ekki fjölgað en vegna tilkomu rafrænnar skráningar á komu farþega gangi betur að telja þá?

Saturday, October 14, 2006

Gasstöðin gamla við Hlemm

Ég tek stöku sinnum strætó og þá jafnvel alla leið héðan vestur úr bæ upp í Hádegismóa í Árbæ – ferð sem tekur um klukkutíma í það heila að fara. Það mætti auðvitað hafa langt mál um það óréttlæti heimsins að hér þurfi maður heilan klukkutíma til að komast milli bæjarhluta en ég held ég láti það eiga sig af þremur ástæðum - það er leiðinlegt að heyra fólk tala um hvað strætókerfið sé lélegt, það er algert offramboð af fólki sem finnst strætókerfið lélegt og í þriðja lagi vegna þess að nú á að endurvekja leið S5 sem fer einmitt í Árbæinn og vandamál mín við að komast upp í Árbæ eru þar af leiðandi úr sögunni. Þar að auki er strætókerfið ekki jafnlélegt og flestir vilja meina. En nóg um það.

Það sem ég er að velta fyrir mér er Hlemmur. Hlemmur – þetta orð og þessi staður hefur verið í hausnum á mér síðan ég var svona sex ára og var látinn taka strætó heiman frá mér yfir hálfan bæinn og upp í Ísaksskóla (stofnanir eins og Barnaheill og umboðsmaður barna höfðu ekki verið stofnaðar í þá daga). Og allar götur síðan þá hefur Hlemmur einhvern veginn verið eins; það er alltaf sama lyktin þarna inni, alltaf sömu innréttingarnar og gott ef sama fólkið hefur ekki meira og minna haldið sig á Hlemmi öll þessi ár.

Um daginn kom það upp hjá mér að ég þurfti að bíða í um það bil 25 mínútur á Hlemmi eftir strætó og það helsta sem þessi staður hefur upp á að bjóða eru óþægilegir bekkir til að sitja á í félagsskap þolnustu drykkjumanna borgarinnar. Inn á Hlemmi er ein sjoppa og afgreiðslumaðurinn þar gerði ekki annað þann tíma sem ég var þarna inni en að munnhöggvast og rífast við drykkjumann sem ætlaði að kaupa sígarettur handa stelpu sem var ekki deginum eldri en 12 ára og hafði beðið hann um að kaupa fyrir sig pakka.

En þarf Hlemmur að vera svona? Ég er ekki viss.

Ef við setjum okkur nú í spor Andra Snæs og veltum því fyrir okkur hverjir séu möguleikarnir. Hvað ef núverandi ástand væri ekki til staðar, heldur eitthvað annað? Ef möguleikarnir fyrir Hlemm væru hugmynd getum við ekki sleppt þeirri hugmynd lausri og frelsað hana? Hvernig væri að rífa niður nokkra veggi og innréttingarnar og lofta aðeins út – kannski setja upp smart kaffihús og búa til skemmtilegt umhverfi? Væri það ekki tilvalið fyrir alla þá sem rúlla þarna í gegn, stoppa í kannski 10-15 mínútur og fá sér einn kaffibolla – kannski tvo ef maður lendir á skemmtilegu spjalli og ákveður að taka bara næsta strætó í staðinn. Það er nóg af venjulegu fólki sem fer um Hlemm á degi hverjum en í dag stendur það í flestum tilfellum fyrir utan Hlemm meðan það bíður eftir strætó því það vill ekki fara inn. Sem er kannski ákveðin kaldhæðni tilverunnar, því væntanlega var Hlemmur upphaflega hugsaður sem skjól fyrir þá sem þurfa að bíða eftir strætó.
Góður Gorbachev

Var svo heppinn að komast yfir miða á fyrirlestur Mikhail Gorbachev í Háskólabíói um daginn og það var áhugavert að hlusta á þennan fyrrverandi leiðtoga Sovetríkjanna, sem maður man eftir úr fréttum á sínum tíma sem manninum með rauða blettinn á skallanum. Gott ef ég hafi ekki, þegar ég var fimm ára, teiknað rauðan blett á ennið á mér til að líkjast kappanum.

En það þarf kannski ekki að koma á óvart að maður eins og Gorbachev sé áhugaverður fyrirlesari. Hann leiddi jú heilt heimsveldi og missti það undan sér líka, ef svo má að orði komast.

Eins og flestir vita kom Gorbachev hingað í tilefni af 20 ár eru liðin frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða árið 1986 og hann eyddi stærstum hluta ræðu sinnar í að ræða aðdraganda fundarins, fundinn sjálfan og áhrif hans. Það var í sjálfu sér áhugavert en ég verð reyndar að
viðurkenna að ég var það ungur þegar þessi fundur fór fram að ég tengdi kannski ekki nægilega vel við þessa frásögn. Ég var meira í því á sínum tíma að teikna rauðan blett á ennið á mér en að fylgjast með gangi mála í Höfða. Það var samt skemmtilegt þegar hann rifjaði upp að í miðju kalda stríðinu hafi það einhvern tíma gerst að á tölvuskjám í bandarískri herstöð komu fram nokkrir deplar sem virtustu stefna frá Sovétríkjunum beint yfir til Bandaríkjanna. Það varð uppi fótur og fit og menn létu vita að nú væru kjarnorkusprengjurnar hugsanlega á leiðinni – nú væri þetta bara allt saman að bresta á. Þegar betur var að gáð, var þetta hins vegar hópur af gæsum á leiðinni yfir hafið, nærri því búnar að setja þriðju heimsstyrjöldina af stað.

Eftir að Gorbachev hafði flutt erindið sitt opnaði hann ásamt túlkinum sínum fyrir spurningar. Svo ég skjóti aðeins inn í, þá var túlkurinn ekki síður áhugaverður en Gorbi sjálfur. Hann hafði túlkað fyrir Gorbachev í meira en 20 ár, var m.a. með honum í Höfða á sínum tíma, og var greinilega alveg þaulvanur að endursegja það sem rann upp úr meistaranum. Þar fyrir utan leit hann út, eins og einhver orðaði það, fyrir að geta kyrkt mann með berum höndum á alveg í hæsta lagi 8 sekúndum, því hann var nauðasköllóttur með skógarhöggsmannahendur og eins og klipptur út úr hlutverki KBG-manns í James Bond frá níunda áratugnum. Án þess að ég viti það hét hann örugglega Oleg.

En eins og ég sagði þá fór þetta að verða áhugavert þegar Gorbachev svaraði spurningum fundargesta. Hann gjörþekkir þetta og er greinilega vel með á nótunum í heimsmálunum enn þá þó hann sé orðinn 75 ára. Ég hafði sérstaklega gaman af því þegar hann í einu svarinu fór á svona fimm mínútum bara yfir heimssviðið eins og það leggur sig. Bandaríkin – superpower en þjást af winnerscomplex, Evrópa er að koma upp, Indland og Kína – ekki vanmeta þau, Rússland – talar með æ sjálfstæðari röddu á alþjóðavettvangi. Svo voru það eru þrjú mál sem þarf að taka á í heiminum; fátækt, öryggi og hlýnun jarðar. Takk fyrir.

Hann fékk spurningu um morðið á blaðakonunni Önnu Politkovskayu og hvernig aðkoma hans að rússneskum fjölmiðlamarkaði væri en Gorbachev á víst hlut í blaðinu sem Anna vann á. Hann tók sig þá til og rifjaði upp áhrif glasnost, sem fól m.a. í sér að fjölmiðlum var veitt aukið frelsi – til að sýna heiminn og samfélagið eins og það í raun er. Þannig fengu íbúar Sovétríkjanna skyndilega tækifæri til að kynnast því í fjölmiðlum hvernig ástandið í landinu væri, á miklu ítarlegri og skýrari hátt en þeim hafði staðið til boða áður. Ástand sem var án efa ekki alltaf fallegt. Og það sem var kannski eftirminnilegast var þegar Gorbachev tók fram að honum fyndist ekkert ólíklegt að hefði fjölmiðlunum ekki verið veitt þetta frelsi og svigrúm, hefði hann sennilega setið mun lengur á valdastól. Nú veit ég ekki hvað er í til í þessu, en þetta er í það minnsta stór fórn að færa fyrir fjölmiðlafrelsi – þinn eiginn pólitíski ferill. Gorbachev tók það svo fram að morðið á Politkovskayu væri að sjálfsögðu högg fyrir lýðræðisþróunina í Rússlandi.

Hann var einnig spurður út í samskipti sín og Borísar Jeltsín, sem má segja að hafa rænt völdum frá Gorbachev árið 1991. Hann vandaði Jeltsín ekki kveðjurnar, sagði að þrátt fyrir að hann hefði haft margt gott að bera, væri hann valdagráðugur og þráði völd meira en nokkuð annað – eða eins og Gorbachev orðaði það sjálfur, hann þráir völd meira en karlmenn þrá konur. Gorbachev var hins vegar mjög varkár í tali um Pútin og sagði eiginlega ekkert um hann.

Í stuttu máli þá var afar áhugavert að sjá þennan mann. Það er auðvelt að sitja hér í velferðarríkidæminu Íslandi, langt frá átökum, myrkaverkum og spillingu heimsins og tjá sig um gang mála. Einstöku sinnum hittir maður þó eða fær tækifæri til að hlýða á menn sem hafa sjálfir verið í þeirri stöðu að ákvarðanir þeirra höfðu áhrif á gang sögunnar og líf og framtíð mörg hundruð milljóna manns. Mikhail Gorbachev er einn þessara manna. Hann reyndi að koma á lýðræðisumbótum í alræðisríki. Hann tók við völdum í heilu heimsveldi og horfði á það liðast í sundur undir sinni stjórn. Hann hafði þó dómgreind til að átta sig á því að sú þróun var jákvæð og myndi skapa skilyrði til betra lífs fyrir milljónir manna. Sumir segja að Gorbachev hafi raunar ekkert getað gert í þessu sjálfur – þróunin hafi einfaldlega verið á þessa leið og lítið við því að gera. Svo má vel vera, en hann leyfði þessari þróun að eiga sér stað og virti niðurstöður hennar. Gorbachev rifjaði það upp á fundinum að þegar hann var í háskóla að læra lög fjallaði hann lokaverkefnið hans um lýðræði. Mörgum áratugum síðar komst hann í þá stöðu að leyfa kröftum lýðræðisins að virka og gerði það. Það ber að virða.

Wednesday, October 11, 2006

Svíagrýlan

Það fór ekki svo að við næðum að vinna Svía í handbolta og fótbolta sama árið. Ég fór á leikinn áðan og þrátt fyrir að það hafi verið gríðarlega súrt að sjá Íslendingana tapa var þrælgaman á leiknum.

Sænska liðið var töluvert betra og teknískara en það íslenska en baráttan og viljinn var hjá íslenska liðinu. Alveg ekta. Eftir að Svíþjóð skoraði seinna markið sitt átti Ísland leikinn síðasta hálftímann og var nálægt því að skora. Þegar nokkrar mínútur voru eftir átti Eiður Smári skot í þverslánna og sænska vélin var í algerri nauðvörn. Sem er auðvitað ákveðinn sigur í sjálfu sér, svipað og það var einn stærsti sigur í íslenskri knattspyrnusögu þegar við vorum yfir 1-0 gegn Frökkum...

Tuesday, October 10, 2006

Matarkarfan lækkar

Það er sterkt hjá ríkisstjórninni að stíga fram með matarverðstillögurnar núna. Það þarf nú enginn að halda því fram að tímasetningin – kosningavetur – sé helber tilviljun, en það er nú oft galdurinn við kosningar og aðdraganda þeirra, að þá fara stjórnmálamenn að láta verða af allskonar hlutum sem þeir höfðu stungið ofan í skúffu áður. Þetta sýnir líka ákveðinn styrk af hálfu Framsóknarflokksins sem treystir auðvitað mjög á stuðning bænda að koma þessu máli í gegn.

En máttur kosninga getur verið mikill. Ég man alltaf eftir því þegar ég sat í Stúdentaráði og við börðumst gegn ákvörðun sem Reykjavíkurborg tók um að breyta gjaldskrá leikskólanna í borginni, þannig að stúdentar sem áttu útivinnandi maka færðust upp um flokk og þurftu að borga tugi þúsunda til viðbótar á ári í leikskólakostnað. Við stóðum fyrir undirskriftasöfnun út af þessu, skrifuðum í blöðin og formaður SHÍ gekk þar að auki á fund borgarstjóra til að ræða þetta við hann. Allt kom þó fyrir ekki – ákvörðunin stóð, þótt gildistöku hennar hafi verið frestað um nokkra mánuði og hún látin taka gildi í þrepum. Svo hreyfðist ekkert í málinu frekar og útlit fyrir að málið væri dautt –allt þar til að R-listinn sprakk með látum síðasta sumar og flokkarnir sem stóðu að Reykjavíkurlistanum sáu fram á harða kosningabaráttu næstu mánuðina. Þá lét Alfreð Þorsteinsson, Framsóknarmaður, sig ekki muna um að fella þessa hækkun niður á svipstundu og láta þess getið að svona kæmu menn ekki fram við stúdenta.

Undirskriftir, viðtöl, greinaskrif og önnur barátta skiluðu sem sagt litlu sem engu en kosningastress í stjórnmálamanni – það hreyfir fjöll. Spurning um að hafa kosningar oftar?