Tuesday, March 28, 2006

Nokkur orð um áfengi...

Andstætt alnafna mínum, sem getið er í hausnum á þessu bloggi, er ég afar fylgjandi því að sala á áfengi verði gefin frjáls hér á landi, a.m.k hvað bjór og léttvín varðar. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur ásamt fleirum góðum mönnum og konum lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram en alltaf hefur það dáið í nefnd og ekki komist til lokaafgreiðslu þingsins. Sem er leitt því þessi breyting væri svo augljóslega til bóta, rétt eins og tilkoma bjórsins 1989 var líka. Rökin fyrir því að afnema einkasölu ríkisins á áfengi og heimila verslunum að selja vín hafa margoft komið fram. Sérstök samtök voru stofnuð til að berjast fyrir þessari breytingu.

Fjallað hefur verið um þetta mál í Kastljósinu síðustu tvö kvöld og þar hefur komið fram gamalkunnug gagnrýni um að aukið framboð leiði til aukinnar neyslu og þess vegna sé þetta ekki æskileg breyting.

Auðvitað myndi þetta leiða til aukinnar neyslu. En sá tími er liðinn að lög og reglur stýri neyslu fólks á jafneðlilegum hlutum og áfengi og léttvíni. Þetta snýst ekki um neyslu, heldur sjálfsagða þjónustu við neytendur.

Monday, March 27, 2006

Eitt kjördæmi?

Stundum er rætt um að gera landið að einu kjördæmi. Það er hugmynd sem má skoða. Atkvæðavægi hér á landi hefur eiginlega alla tíð verið ójafnt. Það hafa verið tekin stór skref í þá átt að laga þessa stöðu á undanförnum árum og jafna vægið en það er enn tiltölulega ójafnt. Í kosningunum 2003 var staðan svona:

Kjörd.

Þingm.

Á kjörskr.

Atkvæði

Pr. þingm.

NV-kjörd.

10

21221

18710

1871

NA-kjörd

10

27316

23563

2356

S-kjörd

10

28374

25032

2503

SV-kjörd

11

48857

42832

3894

RVK-su:

11

42734

36890

3354

RVK-no

11

42787

36145

3286


Þegar mismunur milli einstakra kjördæma er mestur (Norðvestur og Suðvesturkjördæmi) er meira en tvöfaldur munur á vægi atkvæða.

Eins og kjördæmaskipanin er sett upp núna er það nokkurn veginn þannig að þingmönnum er skipt á milli landsbyggðarinnar annars vegar og höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Á landsbyggðinni eru 30 þingmenn en 33 koma af höfuðborgarsvæðinu.

Með öðrum orðum var þetta þannig í síðustu kosningum að 73.569 kjósendur kusu 30 þingmenn en 134.378 kjósendur kusu 33 þingmenn. Í prósentum er þetta þannig að 36% landsmanna kjósa tæp 48% þingmanna en hin 64%-in kjósa rúm 52% þingmanna.

Einhver skekkja þarna á milli kann að vera réttlætanleg út frá ákveðnum byggðasjónarmiðum. En hversu mikil má sú skekkja vera? Maður hefur það á tilfinningunni að ef kosningarkerfi væri smíðað í dag, væri það ekki með þessari innbyggðu skekkju. Þá væri lykilatriði að hvert atkvæði hefði jafnt vægi.

Og það má velta þessu kerfi fyrir sér út frá öðru sjónarmiði: Fylgi flokkanna er mjög misjafnt eftir kjördæmum. Er það réttlætanlegt að útfrá atkvæðamisvægi geti flokkar í raun fengið fleiri þingmenn en þeir ættu annars rétt á? T.d. getur flokkur sem er með mikið fylgi í minnsta kjördæminu tryggt sér nokkra þingmenn og þar af leiðandi ákveðin áhrif, jafnvel þótt hann fái sáralítið fylgi annars staðar.

Ef landið væri eitt kjördæmi fengju flokkar og landsmenn allir kjörna fulltrúa í samræmi við þau atkvæði sem greitt voru.

Sunday, March 26, 2006

Samsteypur

Ég ætlaði að létta mér ritgerðarskrif í nótt með því að kíkja á Cheers. En viti menn, Skjár Einn fraus klukkan svona tvö og skjámyndin hefur ekki hreyfst í svona klukkutíma núna! Það er ekki einu sinni boðið upp á Afsakið hlé eða neitt. Myndin er bara frosin. Ætli tæknimaðurinn sé sofnaður?

Hef verið að velta fyrir mér þeim fjölmiðlasamsteypunum sem hafa orðið til á markaðnum í dag og slagnum þar á milli. Er það eðlilegt að í dag verði neytendur að velja hvort þeir vilji Símann & Skjáinn (þar með talið Enska boltann) eða OgVodafone og Digital Ísland? Í dag útilokar annað hitt. Ég get t.d. ekki fengið að sjá Enska boltann nema ég sé með nettengingu hjá Símanum. Markaðslögmálin eru jú margslungin. En er það ekki allra hagur, bæði neytenda og fyrirtækjanna, að val á internetfyrirtæki hafi ekki þær afleiðingar að sumir geti ekki séð enska boltann og aðrir ekki Idolið?

Ég man þá tíð þegar enski boltinn var sýndur á laugardögum á Rúv og svo á Stöð 2. Þá var að vísu einungis einn leikur á viku sýndur, sem þykir eflaust alger steinöld miðað við stöðuna í dag. En þetta var mikil stemning að hittast og horfa á leikinn og það gerðum við þrír vinirnir alveg reglulega í nokkra vetur. Man alltaf skemmtilega sögu þegar ég hugsa um þetta. Þannig var að stundum bauð Stöð 2 sparkunnendum upp á að hringja inn og velja mann leiksins og þá fór nafnið manns í pott sem dregið var úr. Einu sinni var nafnið mitt dregið úr pottinum, eftir að ég hafði kosið Stan Collymore mann leiksins, og sjálfur Arnar Björnsson tilkynnti landsmönnum að Árni Helgason hefði unnið kvöldverð fyrir 2 á Lækjabrekku!

Ég réð mér ekki fyrir kæti. Sá að vísu fram á að það yrði erfitt að velja úr vinahópnum hver ætti að fara með og hélt lengi vel að það yrði stærsta vandamálið. Að loknu erfiðu vali og tilheyrandi uppgjöri, fór ég að reyna að innheimta vinninginn minn frá Stöð 2. Þá kom upp nýtt vandamál og öllu stærra. Ég fékk vinninginn aldrei afhentan!

Þrátt fyrir ótal símtöl fékk ég yfirleitt svarið að "sá sem sér um þetta er ekki við núna" og jafnvel þegar ég hafði fengið sjálfa móður mína til að aka mér alla leið upp á Lyngháls og spurði eftir vinningnum í eigin persónu voru svörin þau sömu - hann er ekki við og þetta er því miður ekki tilbúið núna. Aldrei fékk ég vinninginn minn. Sýndi þessu máli nú lengi vel skilning, í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu Stöðvar 2, en eftir að Baugur keypti þetta upp er aldrei að vita nema maður dusti rykið af þessari gömlu skuld. Og þó...

Saturday, March 25, 2006

Sætar stelpur og gagn sem má af þeim hafa

Ummæli utanríkisráðherra um sætustu stelpuna og sama gagnið hafa farið í taugarnar á sumum. Er formaður Flokksins að halda því fram að konur geti einungis verið sætar en ekki haft aðra kosti eins og til dæmis að vera gáfaðar? Kannski.

En ef við köfum dýpra í þetta mál mætti ekki á móti spyrja: Er ráðherrann ekki frekar að lýsa þeim blákalda veruleika að það bara er ekki alltaf hægt að fara heim með sætustu stelpunni? Um það er ekki deilt. Við þekkjum þetta allir. Þannig má segja að ráðherrann sé að setja sig á ákveðið level með okkur hinum – hann, eins og allir aðrir íslenskir karlmenn, þekkir hvernig það er að fara ekki með sætustu stelpunni heim, þetta nauðsynlega þroskaskref í lífi hvers ungs manns. Ekkert kynnir mann betur fyrir eigin takmörkunum en höfnunin.

En til að halda öllu til haga má bæta við að Geir er ekki endilega að halda því fram að stelpur geti bara verið sætar. Sætasta stelpan hverju sinni er jú ekki til nema í huga hvers og eins.

Hugsanlega kyngerir Geir málið um of. Að jafna vali Íslendinga á bandamanni í hinum flóknu varnarmálum landsins við tilraun drengs til að ná sér í stelpu til að fara heim með eftir ball er auðvitað viss karllægni. En manninum er vorkunn – ekki hefðum við viljað að hann líkti þessu við að fara ekki heim með sætasta stráknum? Þá hefði nú eitthvað heyrst…!

Seinni hluti ummælanna orkar hins vegar meira tvímælis. Einhver sem gerir sama gagn. Þarna eru vísanirnar svo margar að maður veit varla hvar á að byrja. Manni dettur auðvitað fyrst í hug að það stefni bara í eitt. Eitthvað dónó. Það er samt vissara í ljósi þess hvað erótískar lýsingar fara hratt um Internetið í dag að ræða það ekki frekar. En ef það er þetta sem Geir átti við, lítur út fyrir að hann telji konur bara geta gert eitt – og það er dónó eftir ball.

Hér megum við samt ekki álykta um of. Hver segir að fólk geti ekki farið saman heim eftir ball í öðrum tilgangi? Er það til dæmis alveg útilokað að fólk geti farið heim til að spjalla eða fá sér eitthvað að borða saman? Mér virðist sem hinir norðlensku feministar hugsi bara um eitt, fyrst þeim þykir það svona grunsamlegt að stelpa og strákur fari saman heim eftir ball. Kannski þekkjast engin millistig þarna fyrir norðan!

Ég man eftir því að í menntó sást sjaldnast vín á sætustu stelpunum – þær voru of miklar skvísur til að láta sjá sig ofurölvi. Fyrir vikið voru þær á bíl og kannski var Geir að vísa til þess með því að minnast á gagnið – að finna einhverja sem var á bíl og gæti skutlað honum heim. Þetta er minni sem margir drengir kannast við – að hafa fengið sér ívið of hressilega neðan í því og leita uppi unga stúlku sem skutlaði manni heim. Klappaði manni kannski líka vinalega á bakið og kom við á BSÍ í leiðinni. Og ekki gengur að láta einhvern strák skutla sér heim: það hefur aldrei verið fullkomlega í lagi með þá drengi sem eru edrú á böllum.

Við skulum því fara varlega í að draga ályktanir af ummælum ráðherrans. Þrátt fyrir hrossahláturinn sem kaldastríðshaukarnir í salnum í Valhöll ráku upp, hallast ég frekar að því að þarna hafi ráðherrann tekist á hendur að lýsa hinum flókna veruleika íslenskrar ballmenningar og kvennafars. Sem er ekki létt verk.

Friday, March 24, 2006

Vertíð hjá blaðalesendum

Það er kraftur í íslenskum dagblöðum um þessar mundir. Nú eru gefin út fjögur dagblöð og þau eru öflug, hvert á sinn hátt. Mér finnst orðið allt annað að lesa leiðara Fréttablaðsins eftir að Þorsteinn Pálsson tók við ritstjórastöðunni. Einhverjir héldu kannski að allur vindur væri úr honum eftir mörg ár á sendiherrastóli en hann er frábær penni og óhræddur við að beina spjótum sínum að gömlum samherjum jafnt sem andstæðingum.

DV hefur batnað mjög frá því að nýir ritstjórar tóku við blaðinu. Efnistökin eru þau sömu - meginuppistaðan í blaðinu eru ýmsir afkimar samfélagsins sem fá litla athygli annars staðar; kynferðisafbrotamenn, öryrkjar og undirheimarnir svo eitthvað sé nefnt. Umfjöllun um þessi mál á rétt á sér en hún er vandmeðfarin og það er þunn lína milli þess að gera þetta vel eða ganga of langt. Oft snýst það um ákveðin útfærsluatriði, til dæmis það eitt að birta ekki mynd og nafn sakborninganna á forsíðu blaðsins heldur láta nægja að gera það inn í blaðinu. Skrípaleikurinn sem var í gangi undir stjórn Mikaels Torfasonar hafði fyrir löngu gengið fram af fólki en Björgvin og Páll hafa stýrt blaðinu af meiri skynsemi.

Blaðið hefur verið að styrkja sig að undanförnu en glímir kannski við þann vanda að það skortir sérstöðu miðað við hin blöðin. Það var blaðinu án efa til framdráttar að fá Ásgeir Sverrisson sem ritstjóra. Það er örugglega ekki auðvelt að koma blaði í gegnum fyrstu mánuðina og fyrsta árið en smám saman mun það án efa ná að skjóta rótum.

Og svo er það auðvitað Mogginn, sem er jú vinnustaður minn og því telst ég sennilega ekki ná hinu fræga hlutleysi í því sem hér á eftir fer. En blað allra landsmanna hefur, að mínu mati, farið mikinn undanfarnar vikur og gaman að fylgjast með því hvað Mogginn getur verið sterkur þegar vel stendur á. Það hefur t.d. fundist varðandi umfjöllun blaðsins um íslenskst efnahagslíf og bankana. Mogginn er með mikla breidd og mikinn styrk í starfsliði sínu og ég hef stundum fengið það á tilfinninguna að þessi styrkur nýtist ekki alltaf til fulls, sérstaklega þegar lítið er í fréttum og viðfangsefnin einföld og auðleysanleg. Það hefur hins vegar ekki verið málið undanfarnar vikur.

En eins og ég sagði þá er gaman að lesa blöðin um þessa dagana, sérstaklega þegar maður hefur í huga að það er ekki sjálfgefið að fjögur öflug blöð séu gefin út á litlum markaði eins og hér heima.

Wednesday, March 22, 2006

Glitnir: Ekkert nýtt?

Ekki nóg með að margra mánaða pælingar og ímyndarvinna hafi endað með því að velja bara gamalt nafn á fyrirtækið, heldur reyndist lógóið bara vera norskt!

Írakstríðið

Ég hef verið einn þeirra (að ég held fáu) sem hefur ekki myndað sér algjörlega einhlíta skoðun á Íraksstríðinu. Mér hefur þótt ýmislegt mæla með því og ýmislegt á móti og leyft mér þau þægindi að taka ekki eindregna afstöðu sem ég held mér við, sama hvað á gengur.

Fyrir það fyrsta var Saddam Hussein einræðisherra, sem hafði dauða sinna eigin borgara á samviskunni. Samningar, viðræður og alþjóðlegar stofnanaaðgerðir eins og viðskiptabann og fleira höfðu engum árangri skilað. Það eru ákaflega veik rök og hreinleg barnaleg að tala um að hefði átt að reyna samræður og samninga lengur - þessi maður ætlaði sér ekki að semja!

Í öðru lagi er ljóst, hvað sem líður öllum vafasömum aðferðum við að tengja Saddam við hryðjuverkasamtök, að hann var ólíkindatól og hættulegur. Það má kannski setja dæmið upp þannig að þó hann hafi ekki átt gjöreyðingarvopnin, þá hefði hann líklega ekki hikað við að nota þau, ef hann kæmist yfir þau. Við sem fylgjumst með, svona á hliðarlínunni hinum megin í heiminum, getum leyft okkur að vera vitur eftir á og gagnrýna. Það hefðum við sennilega líka gert ef til þess hefði komið að Saddam reyndi að ráðast á Bandaríkin eða Ísrael. Þá hefðum við hefðum gagnrýnt aðgerðarleysi Bandaríkjamanna.

Þá er það, í þriðja lagi, göfugt markmið að breiða út lýðræði á þessu svæði og eitthvað sem gæti leyst þennan vanda þessara ríkja til langframa.

Það hefur hins vegar ýmislegt komið fram sem heldur ekki vatni:
Í fyrsta lagi átti Saddam ekki gjöreyðingarvopn. Það hefur verið sýnt fram á að upplýsingar þar að lútandi stóðust ekki og sömu sögu er að segja um tilraunir hans til að koma sér upp slíkum vopnum. Í öðru lagi var hann ekki að þjálfa upp hryðjuverkamenn á vegum al-Qaeda, eða í það minnsta er ekkert sem bendir til þess.

Og það er ýmislegt sem mælir hreinlega gegn innrásinni:

Fyrir það fyrsta er það alltof þröngt sjónarhorn að líta eingöngu til þess að Saddam hafi verið grimmur einræðisherra. Það eitt réttlætir ekki innrás að einhver sé grimmur. Stuðningsmenn stríðsins spyrja stundum hvort andstæðingar þess hafi frekar viljað hafa Saddam áfram? Sumir kynnu að segja að slík spurning sé ekki réttlætanlegt og að „maður megi alveg gagnrýna þó maður vilji ekki Saddam“ en mér finnst töluverð vigt í þessari spurningu. En engu að síður má ekki líta svo á að það sé eina atriði málsins. Það verður að skoða þetta í samhengi við atburðarrásina sem fylgdi. Upplausn hefur verið í Írak undanfarin ár, daglega eru þar sprengingar og mannfall saklausra borgara. Í dag virðist staðan vera í sjálfheldu, vera bandaríska hersins veldur miklum vanda því hann er óvinsæll á svæðinu en samt gæti hann varla leyft sér að fara í flýti, því þá myndi landið sennilega leysast upp í borgarastyrjöld.

Í öðru lagi brutu Bandaríkin alþjóðalög með innrásinni. Nú eru alþjóðalög að vísu ekki heilagur sannleikur, heldur „tilraun til að koma reglu á flókinn veruleika“ eins og einn góður maður sagði mér um daginn. En engu að síður eru þau lög og það grefur undan gildi þeirra að virða þau ekki.

Í þriðja lagi hefur það orðið æ skýrara að útbreiðsla lýðræðis – jafngöfugt markmið og það er – er ekki jafnmikil skyndilausn og menn hefðu haldið, eins og bent er á í stórgóðum pistli á Deiglunni. Kenningin um að lýðræðisríki fari ekki í stríð hvort við annað er fræg og mikið er á henni byggt. Hún er hins vegar enginn allsherjarsannleikur. Til dæmis færu Danir og Norðmenn mjög ólíklega í stríð. Ástæður þess eru hins vegar tengdar svo mörgu mörgu öðru en því einu að til staðar sé lýðræði í þessum löndum. Ástæður þess tengjast sameiginlegum gildum, trú, menningu og stöðugleika í viðkomandi ríki.

Það má með sömu rökum útfæra kenningar um ýmislegt sem lýðræðisríki „gera ekki“. En það byggir ekki á því einu að þar sé lýðræði, heldur á allt öðru.

Í fjórða lagi má aldrei líta framhjá því að innrásin í Írak hafði í för með sér dauða margra Íraka – þar á meðal saklausra borgara í Írak. Það er kaldhæðnislegt hve líf Írakans er lítilvægt í huga Repúblikans miðað við umræðuna um fóstureyðingar, sem má undir hér um bil engum kringumstæðum stunda.

Sú stefna sem Bandaríkjamenn – „framverðir lýðræðis“ – hafa tekið hefur m.a. leitt til Guantanamo Bay fangabúðanna og pyntinganna í Abu Ghraib fangelsinu.

Í fimmta lagi ríkir núna alger óvissa varðandi framhaldið í Írak. Bandaríkjaher getur ekki verið þar til eilífðar. Það er pólitískt erfitt og alltof útgjaldafrekt. Hann verður því að fara fyrr eða síðar og það er allt óvíst með hvort íraska lögreglan ræður við stöðuna þá.

Það er í stuttu máli ýmislegt sem, einangrað séð, fól í sér breytingu til batnaðar við Íraksstríðið. Á móti kemur að mörg mannslíf féllu og sumt af hegðun Bandaríkjamanna hefur vakið óhug meðal heimsbyggðarinnar. Ástandið í Írak hefur farið frá því að vera einræði yfir í upplausn og óreiðu sem ekki sér fyrir endann á.

Friday, March 17, 2006

Wag the Dog og svartur miðvikudagur...

Var að ræða við einn fróðan mann í gær, sem kom með þá skemmtilegu kenningu að atburðir 15. mars (svarta miðvikudagsins, eins og einhverjir vilja meina að hann hafi verið fyrir Sjálfstæðismenn) hafi verið svona "Wag the Dog" sena - þ.e. að tímasetning frétta af brotthvarfi varnarliðsins hafi ekki verið tilviljunin ein heldur hafi fréttunum verið sérstaklega komið fyrir rétt á eftir fréttum af niðurstöðu Baugsmálsins til að dreifa athyglinni. Pælingin um að fyrst tveir skellir væru á leiðinni, væri betra að þeir kæmu sama daginn og fjölmiðlarnir gætu ekki smjattað á þeim jafnlengi. Maður skal samt ekki segja með sannleiksgildið en samsæriskenningar eru alltaf skemmtilegar.

Framhald Baugsmálsins lítur í fljótu bragði ekki mjög vel út fyrir ákæruvaldið. Jón Gerald dæmdur ótrúverðugt vitni, þar sem hann ber "þungan hug" til Jóns Ásgeirs og Ivan Motta, bílasalinn sömuleiðis dæmdur úr leik m.a. vegna þess að hann hafði umgengist Jón Gerald of mikið! Svo er líka athyglisverð niðurstaðan með lánveitingar til Baugsmannanna, að peningafærslur inn á viðskiptareikninga stjórnarmanna og fjárfestingarfélaga teljist ekki lán í skilningi ársreikningalaganna. Maður hefði einmitt haldið að það væru þess háttar færslur sem æskilegt væri að kæmu fram í ársreikningum, sem eru jú nokkurs konar yfirlitsplagg um stöðu mála í hverju fyrirtæki. En á móti kemur að lögin eru ekki alltaf eins og fólki finnst "æskilegast" að þau eigi að vera, heldur eru þau eins og Alþingi ákveður og í þessu tilviki vantaði upp á að þetta væri nægilega skýrt, að mati dómsins.

Björgvin Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar á heimasíðu sína um títtnefndan miðvikudag og nefnir hann einmitt svarta miðvikudaginn. Telur hann þrennt til, Baug, herinn og að vatnsslagurinn hafi tapast. Það er fróðlegt að stjórnarandstaðan líti svo á að hann hafi tapast af hálfu stjórnarinnar, lögin voru jú samþykkt, með þeim breytingum helstum að þau taka gildi eftir kosningar 2007 í stað þess að taka gildi strax. Vef-Þjóðviljinn spyr réttilega hvað hafi verið í gangi með þessum samningi við stjórnarandstöðuna, sem ætti ef hún kæmist til valda eftir kosningarnar að ári ekki að geta breytt lögunum mikið miðað við eigin aðferðir, þar sem stjórnarandstaðan ætti þá að geta einokað ræðustólinn og þvingað fram samkomulag um hitt og þetta.

Það brennur stundum við ákveðinn útúrsnúningur á lýðræðishugtakinu hér á landi, eins og örlaði á í umræðunum um vatnalögin. Maður heyrir það stundum, t.d. þegar sumir andstæðingar virkjunarinnar á Kárahnjúkum tala um þá baráttu alla að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi verið mjög ólýðræðisleg. Við megum ekki gleyma því að lýðræðið í okkar þjóðfélagi felur í sér að réttilega kjörinn meirihluti taki ákvarðanir og að minnihlutinn geri það ekki. Lýðræðisbarátta liðanna alda gekk einmitt út á þetta - að réttkjörinn meirihluti þjóðarinnar fengi ákvörðunarvald en ekki fámennur hópur sem hafði alla þræði í hendi sér. Vissulega má halda því fram að taka eigi tillit til sjónarmiða hinna, að reyna eigi að miðla málum og svo framvegis en við megum ekki gleyma því að samkvæmt stjórnskipun landsins er þetta hin endanlega ákvörðun og það þýðir ekki að segja hana ólýðræðislega bara af þeirri ástæðu einni að viðkomandi er ekki sammála henni.

Er annars á leið á árshátíð hjá Vökunni góðu á morgun - það verður án efa mikið fjör.

Tuesday, March 14, 2006

Himnaríki búrókratans

Ég tek það fram að vanalega er ég ekki að dunda mér við að lesa reglugerðir mér til skemmtunar en í tengslum við ritgerð í fasteignakauparétti, sem ég er að skrifa, rakst ég á byggingareglugerð dómsmálaráðuneytisins. Þvílíkt skrifræðisheaven! Ég tek nokkur dæmi:

Í grein 80.3 fjallar um salerni:
Í hverri íbúð skal vera hreinlætisaðstaða, vatnssalerni, bað og handlaug. Hreinlætistækjum má koma fyrir í einu herbergi sem má minnst vera 4,8 m2 eða í tveimur herbergjum samtals a.m.k. 6,5 m2 og skal handlaug vera í báðum.

Grein 81.2 er um geymslur:
Stærð sérgeymslu skal vera a.m.k. 2,5 m2 fyrir 35 m2 íbúðir eða minni og a.m.k. 6 m2 fyrir íbúðir sem eru 80 m2 eða stærri. Fyrir íbúðir sem eru á stærðarbilinu 35 - 80 m2 skal stærð geymslu vera í réttu hlutfalli við stærð íbúðar. Sérgeymslur skulu ekki vera sameiginlegar þvottaherbergjum.

Grein 93.1 er svo um eldhús:
Eldhús skal ekki vera minna en 7 m2. Þó nægir eldhúskrókur í tengslum við stofu í íbúðum 50 m2 eða minni.

Grein 94.1 fjallar um íbúðarherbergi:
Ekkert íbúðarherbergi má vera mjórra en 2,40 m og ekki minna en 8 m2 að flatarmáli.

Grein 100.1 - rúsínan í pylsuendanum!
Hverri íbúð skal að jafnaði fylgja hæfilega stór skápur eða geymsla undir nauðsynleg ræstingatæki.

Já, hafið þetta í huga, glæpamennirnir ykkar, sem eruð að hugleiða að byggja íbúð með minna en 8 fermetra herbergjum og salerni sem er bara 4 fermetrar! Og látið þetta ykkur að kenningu verða, ef þið höfðuð látið ykkur koma til hugar að hafa ekki hæfilega stóran skáp eða geymslu undir nauðsynleg ræstingartæki.

Fyrir áhugasama er reglugerðin annars í heild sinni hér.

Leiðindaþing

Hiti í mönnum á þingi. Ætli Guðjón Arnar fari að grípa til líkamlegra aðgera á Alþingi héðan í frá? Kannski hótar hann að berja menn eftir fund ef þeir kjósa ekki rétt og rukkar þá um nestispeninga milli funda?

Ég átta mig annars ekki á þessum látum í stjórnarandstöðunni út af vatnafrumvarpinu. Það hefur verið svona mottó hjá Ögmundi og “berjum-á-kapítalistunum-lifum-á-loftinu” genginu hér á landi og víðar að berjast gegn einkaeignarrétti á vatni. BSRB blés meira að segja til mikillar auglýsingarherferðar í fyrra út af þessu, enda er þetta víst lykilatriði í baráttunni gegn stórfyrirtækjunum og alþjóðavæðingunni og sameiginlegt baráttumál stéttarfélaga víðsvegar í veröldinni að berjast gegn einkaeignarrétti á vatni. Enda ætla stórfyrirtækin í heiminum ætla að nýta sér eymd fátæka fólksins og þörf fyrir vatn og mikil hætta á að svo fari líka hér á landi…

Nú er verið að reyna að mála þá mynd að með þessum blessuðu vatnalögum sé verið að gera eitthvað svipað – færa auðhyggjunni og kapítalistunum vatnið til að græða á, rétt eins og kvótann og allt annað. Sem er einmitt svo langt frá því sem er verið að tala um. Þetta er tiltölulega einfalt – spurningin snýst um það hvort vatn sem er á landareignum fylgi ekki landareigninni. Hingað til hafa landareigendur notið allra réttinda sem felast í eignarrétti og auðvitað ættu þeir að hafa eignarrétt að vatninu! Alveg fáranlegt að ríkið eigi ákveðna hluti á landareignum fólks. Alveg eins og gróður, tré, grjót, hæðir og börð á jörðum eru í eigu landareigandans, ætti vatn og vatnsréttindi að vera það líka. Landareigendur eru ekki að fara að setja upp gjaldmæla við vatnskranana hjá okkur þó þeir fái tryggðan eignarrétt að vatni á jörðinni sinni.

Eftir að Árni Magnússon hætti á Alþingi kom upp umræða um hvort stjórnmál væru nægjanlega aðlaðandi vettvangur fyrir ungt fólk. Þegar maður fylgist með málþófi dag eftir dag og að stjórnarandstaðan sé orðin svo fúl og önug að hún hrindi mönnum, kemur það ekki á óvart. Þetta eru tóm leiðindi!

Monday, March 13, 2006

Morgan Fitch Lynch...

Það líður vart sá dagur að ekki komi hér greinar frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum um íslensku bankana. Í dag er það Morgan Stanley, áður Merill Lynch, þar áður Fitch. Þó ég skilji nú ekki mikið í þessu, finnst mér það stórmerkilegt hvernig skýrslur mats- og greiningarfyrirtækjanna, sem eiga að vera almennar viðvaranir, virðast einmitt vera að valda því að hér fer af stað ákveðinn órói á markaðnum. Það hefur í raun ekkert breyst nema það að skýrslan hefur verið gefin út. Viðvörunin veldur skaðanum... eða hvað?

Eitt af því sem þessi fyrirtæki hafa bent á er hve mikið Íslendingar skulda og að það sé mikið áhyggjuefni. Sem er eflaust satt en þarf alls ekki að vera jafnneikvætt og það hljómar. Bjarni Ármannsson í Glitni (hræðilegt nafn by the way...) kom með athyglisverðan punkt í Kastljósinu í gær um að það yrði að líta á þetta í samhengi við að þjóðin er ung og ungt fólk hefur ákveðnar þarfir, það þarf að koma þaki yfir höfuðið, eiga bíl, húsgögn og svo framvegis. Fasteignamarkaðurinn í dag er orðinn þannig að það er ekki gerlegt að koma þaki yfir höfuðið án þess að skuldsetja sig.

Menn halda mjög á lofti hinu útjaskaða hugtaki „skuldir heimilanna“ og mála það mjög neikvæðu ljósi. Það gleymist oft að skuldir heimilanna eru einmitt fólk að koma þaki yfir höfuðið og koma sér af stað í lífinu.

Friday, March 10, 2006

Andstæðingar tjáningarfrelsins...?

Athyglisverð grein á vefritinu íhald.is þar sem fjallað er um kæru Samtakanna '78 á hendur Gunnar í Krossinum. Þeir íhaldsmenn spara ekki stóru orðin í garð Samtakanna fyrir að hafa kært Gunnar. Með því eru þeir orðnir andstæðingar tjáningarfrelsins og einir af þeim sem geta "engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni" og kæfa slíkar skoðanir í fæðingu með því að "viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von," eins og það er orðað. Íhaldsmenn segja að þeim verði "óneitanlega hugsað til alræðisríkja síðustu aldar".

Það er ekkert annað. Með því að kæra skipuðu Samtökin sér bara á bekk með Stalín. Grein Gunnars í Krossinum var dæmigerð grein þar sem ráðist er að tilteknum hóp fólks. Í greininni hélt hann því meðal annars fram að samkynhneigðir væru fjöllyndir og endust að jafnaði stutt í samböndum, að börn samkynhneigðra yrðu samkynhneigð sjálf og svo framvegis.

Bara svo því sé haldið til haga þá er það einmitt eðlilegur þáttur í tjáningarfrelsinu að menn séu látnir sæta ábyrgð fyrir ummæli sín fyrir dómstólum. Það tengist því grundvallarviðhorfi að tjáningarfrelsinu fylgi ábyrgð. Kannski átta íhaldsmenn sig ekki á því að munurinn á einræðisríkjunum og okkur er sá að hér mega allir tjá sína skoðun. Engum er bannað fyrirfram að gera það en þeir sem tjá sig verða hins vegar að geta axlað ábyrgð orða sinna fyrir dómi. Geti þeir það ekki er kveðinn upp dómur í málinu, yfirleitt fjársekt. Engin skoðun er sum sé dæmd fyrirfram, heldur vegin og metin eftir á. Í alræðisríkjum er þessu einmitt öfugt farið. Þar má fólk ekki tjá sig til að byrja með. Af þessum sökum er einmitt ekki verið að vinna gegn tjáningarfrelsinu þótt samtök eða einstaklingar nýti sér rétt sinn til að kæra.

Gunnar þarf að svara fyrir sín ummæli fyrir dómi og sýna fram á að ekki hafi verið um fordóma að ræða. Íhaldsmenn taka nú ekki beina afstöðu í skrifum sínum til þess hvort svo sé, en ætla má af vörn þeirra að þeir telji ummæli Gunnars ekki þess eðlis að hann eigi að sæta refsingu. Þeir hljóta hins vegar að sætta sig við að dómstólar skeri úr um það, því ef Gunnar er að rægja heilan hóp manna á grundvelli fordómanna einna, er ekki réttlætanlegt að hann sæti ábyrgð fyrir það?

Thursday, March 09, 2006

Bjór að Aberdínskum sið

Stórskemmtilegur siður sem ég kynntist í dag hjá færeyska kennaranum Kára á Rógvi, sem kennir mér í kúrsinum með hið stutta og þjála heiti: Topics in Political and Constitutional Theory. Hann ákvað að fara með okkur á barinn eftir tíma og röltum við niður á Hressó og drukkum einn hádegisbjór saman. Kári á Rógvi sagði þetta vera að Aberdínskum sið. Þar færu prófessorar oft með stúdentum á barinn einu sinni yfir önnina og biðu þeim í einn öl og ræddu málin.

Þetta er það sem mér hefur svo oft þótt vanta í Háskóla Íslands - það er svona háskólastemning. Ég hef allavega oft fengið það á tilfinninguna að þetta væri eitt af því síðasta sem flestir þeirra prófessora og kennara sem ég hef haft í gegnum tíðina myndu gera með stúdentum.

Tuesday, March 07, 2006

Ráðherraskiptin

Árni Magnússon afhenti jafnréttispokann sinn í dag og gekk út úr félagsmálaráðuneytinu og stjórnmálunum í heild sinni. Hann fær gott djobb í Íslandsbanka - er þetta ekki eitthvað sem við eigum eftir að sjá meira af? Þ.e að stjórnmálamenn söðli um og fari yfir í atvinnulífið. Fólk sér stjórnmálin í dag æ meira sem þras og kvabb, þar sem fátt gerist á meðan framkvæmdagleðin einkennir atvinnulífið og sérstaklega bankana.

Þar að auki hlýtur Árni einfaldlega að hafa tekið ískalt stöðumat, hann var mjög ólíklega á leiðinni inn á þing í næstu kosningum og þótt honum hafi verið spáð formannsembættinu í Framsókn, hlýtur hann að spyrja sig hvort það sé spennandi kostur til frambúðar að taka við flokki sem er deyjandi. Sennilega mun snjallara að stökkva út núna og koma sér vel fyrir á nýjum stað.

Monday, March 06, 2006

Netheimar

Hver ætli sé að dunda sér við að skanna inn og birta á blogginu sínu pósta Jónínu Ben og Styrmis? Ég hef nú ekki skoðað þetta sjálfur, en miðað við lýsingarnar hefur þetta útheimt þónokkra vinnu - ljóst að einhver hefur mikinn áhuga á að ná sér niður á Jónínu.

Maður veltir því líka fyrir sér þegar svona mál koma upp hvort þróunin næstu misserin verði ekki í þá átt að herða reglurnar og eftirlitið í netheimum. Í dag getur nánast hver sem er dreift hverju sem er á Netinu, þar með talið alls konar óhróðri um hinn og þennan. Persónuverndargúrúið Þórður Sveinsson spáði því í kvöldfréttum áðan að reglurnar um netið yrðu skoðaðar. Það yrði til bóta að því leyti að það gæti þrengt möguleika þeirra manna sem stunda nafnlausar niðurlægingar á netinu, þannig að sá sem fyrir verður getur ekki einu sinni svarað. En gallinn er sá að þegar á annað borð er búið að ákveða að einhver ummæli geti verið þess eðlis að þau eigi að fjarlægja af netinu er stutt í að stjórnvöld eða fyrirtæki fari að geta handvalið úr gagnrýnisraddir í sinn garð og látið eyða þeim út. En þetta verður fróðlegt að sjá...

Ég gerði mér annars lítið fyrir og gekk á Móskarðshnjúka um helgina. Það þótti mér nokkuð vel af sér vikið, miðað við að ég verð lafmóður við það að ganga í skólann á morgnana. Ég var ekki einn í för, heldur gekk ég með Magnúsi Norðdahl og hinum valinkunna andans manni, Önundi Pál. Þeir fóru þetta nú reyndar frekar létt upp, svona miðað við mig. Spekingarnir segja að í svona göngum gildi eitt lögmál: Fjallið ert þú.

Þannig að ég var frekar sáttur við þetta. Fór svo á árshátíð Morgunblaðsins um kvöldið og skemmti mér vel. Stúdentapólitíkusar gerðu mikla lukku í happdrættinu sem haldið var um kvöldið, því Anna Pála vann stærðarinnar prentara og næsti miði sem dreginn var upp úr pokanum var með mínu nafni á. Mogginn gætir jafnræðis og gætir þess vel að gera ekki neitt sem gæti skilist á þann veg að hann sé að taka afstöðu í pólitíkinni, þannig að án efa hafa komið skipanir að ofan um hvernig þetta ætti að fara. Ég vann allavega stafræna myndavél, en ég hef einmitt lengi staðið í þeirri meiningu að ég sé nánast eini Íslendingurinn sem eigi ekki slíkan grip. Enginn var þó jafnheppinn og hann Andri Karl sem vann ferð fyrir tvo til Spánar. Ekki slæmt fyrir mann sem er einhleypur og dundað sér við það frameftir kvöldi að velja sér förunaut.
Það nötraði allt og skalf

Ég verð að viðurkenna að ég varð ekki var við skjálftann í dag. Ég var sofandi, tók mér smá lúr í dag og svaf sem steinn á meðan þessar náttúruhamfarir riðu yfir. Tók ekki eftir neinu, frekar en Halldór Ásgrímsson, sem vissi ekkert hvað var í gangi þegar Magnús Þór Hafsteinsson krafði hann svara á Alþingi í dag um hvers vegna Ríkisútvarpið hafi brugðist skyldu sinni og ekki rofið dagskránna vegna þessa, sem síðar kom reyndar í ljós að það hafði gert. Halldór virkar reyndar stundum svo rólegur að maður fær á tilfinninguna að hann tæki varla eftir því þó hér færi að rigna eld og brennistein.

En þetta var nú heldur bitlaust útspil hjá Magnúsi Þór. Þessi blessaði skjálfti var ekki neitt neitt og fyrirspurnin á Alþingi gladdi helst fréttamenn NFS, því þeir rufu jú útsendingu til að fjalla um skjálftann. Kannski samt ofsögum sagt að þeir hafi rofið útsendingu, því útsendingar á NFS ganga jú út á að vera "on air" allan daginn og viðburðir eins og þessir hljóta einmitt að vera umfjöllunarefni slíkrar stöðvar. En hingað til hefur NFS og þetta nýja fréttakonsept, þ.e að vera með fréttir allan daginn, ekki verið sú bylting í fjölmiðlun hér á landi sem gefið var í skyn í upphafi. Þetta er miklu frekar eins og útvarpsstöð í beinni allan daginn og rétt eins og allar útvarpsstöðvarnar fjölluðu um skjálftann, sem og allir netmiðlarnir, þá fjallaði NFS um skjálftann mikla.

Það er þó alveg rétt hjá Magnúsi að gera verður kröfur til RÚV um að vera vel á verði í svona málum. Samt spurning hvort menn séu ekki einhverjum 30 árum á eftir sinni samtíð þegar þeir telja að forsætisráðherrann eigi að hringja niðureftir og skamma Páll Magnússon fyrir að hafa ekki rofið útsendingu. En ríkisframlögin miklu til RÚV eru jú allajafna réttlætt með þeim rökum að RÚV gegni öryggishlutverki, sem einkamiðlarnir geta ekki sinnt. Það virðist bara ekki hafa verið neitt tilefni til allra látanna í dag.
Hin mikla endurkoma bloggsins

Ég hef snúið aftur í bloggheima. Komst að því að tjáningarþörfin verður ekki hamin og því mun ég fá útrás fyrir hana hér á næstu vikum og mánuðum, sennilega alveg þar til að ég fæ á tilfinninguna aftur að blogg sé of hallærislegt og hætti á ný. Fyndið samt með þetta blogg-fyrirbæri, maður fer svona alveg öfganna á milli í að finnast þetta ýmist það hallærislegasta í bænum, eða alveg nauðsynlegur samskiptamáti nútímans. Hallast mjög að því síðarnefnda um þessar mundir. Bloggið er að koma back big time, eins og einhver myndi segja. Hver veit, kannski mun ég taka skrefið alveg til fulls og opna arni.is innan skamms? Ég kýs þó að halda mig við þetta í bili. Gamla bloggið hét helgasonur.blogspot.com sem kom reyndar til af því að ég ætlaði fyrst að taka helgason.blogspot.com en tókst einhvern veginn að koma því þannig við að ég gat ekki skráð mig inn á það, þannig að Helgasonurinn varð málið. Hef hugleitt mikið að taka upp nafnbótina "The artist formely known as Helgasonur..." en held að þetta sé málið í bili.