Hvernig er sagan skrifuð?Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig almenningur dæmir umfjöllun fjölmiðla um einstök mál. T.d. varðandi mál Árna Johnsen á sínum tíma. Það var eitt þeirra mála sem fjölmiðlar grófu upp og umfjöllun þeirra leiddi til þess að hann var dæmdur. Málið er reyndar gott dæmi um að fjölmiðlar þurfa að vera duglegir að spyrjast fyrir og mega ekki sætta sig við að fjalla aðeins um mál sem lögregla eða dómstólar hafa tekið fyrir.
En margt af umfjöllun fjölmiðla á sínum tíma um mál Árna fór engu að síður yfir strikið. Ég t.d. man eftir forsíðu DV þar sem klippt hafði verið saman mynd af Árna hlæjandi og baðandi út höndunum og sett fyrir framan mynd af Þjóðleikhúsinu - svona líkt og hann hefði stillt sér þarna upp sjálfur. Daginn eftir birtist pínulítil leiðrétting inn í blaðinu um að myndin hefði nú verið klippt saman! Uppsláttur í þessum dúr var óþarfi og einungis til þess fallinn að vekja upp aukna reiði í garð Árna. Allt þetta var gert áður en dómstólar höfðu dæmt um sekt eða sakleysi hans. En aðalatriðið er að þegar litið er til baka þá er almannaálitið með fjölmiðlum. Þeir voru hetjurnar og Árni skúrkurinn. Og auðvitað var hann skúrkur málsins með réttu - en það þýðir ekki allt sem fjölmiðlar gerðu á sínum tíma hafi verið innan sanngjarna marka. Það má ekki myndast sú regla að sé maður sekur, jafnvel þingmaður, að fjölmiðlar megi gera það sem þeim sýnist.
Annað mál - og ég tek fram að ég er ekki að líkja þessum tveimur málum saman að öðru leyti en því að þau voru mjög stór í fjölmiðlum - var DV-málið í janúar í fyrra. Þar tók maðurinn sem DV birti mynd af á forsíðunni líf sitt og málið vakti fáheyrða bylgju reiði meðal þjóðarinnar. Og það vissulega með réttu, enda var þetta enn eitt dæmið um ónærgætna umfjöllun þeirra um mál af þessu tagi og framgangur blaðsins hafði einfaldlega gengið fram af þjóðinni. Atburðarrásinni lauk með því að ritstjórarnir létu af störfum. Almenningsálitið féll réttilega ekki fjölmiðlum í skaut þar. Mér finnst þau viðbrögð sem sýnd voru vera frábært dæmi um hvernig almenningur getur látið til sín taka og komið skýrum skilaboðum áleiðis.
En svo er það Kompás-málið núna. Mér finnst ekki spurning að umfjöllun Kompás gekk of langt og margt af því sem þeir sýndu þar var algerlega óviðeigandi. Á það að vera viðfangsefni fréttaskýringarþáttar að sýna myndskilaboð eins og þau sem sýnd voru í þættinum og hafa helst orðið til þess að annar hver landsmaður hefur náð að grínast á kostnað Guðmundar í Byrginu? Hefði umfjöllunin ekki staðið án þess að sýna þessi skilaboð? Voru þau algerlega nauðsynlegur hluti af þættinum?
Það virðist hins vegar það sama upp á teningnum með mál Byrigsins og með mál Árna Johnsens. Byrgið er nú komið í lögreglurannsókn, fjármálaóreiða hefur komið í ljós og Guðmundur forstöðumaður verið kærður til lögreglu af ungri konu, sem var vistmaður og heldur því fram að þau tvö hafi átt í ástarsambandi í tvö ár. Nú er auðvitað allt óljóst um endalok málsins, en maður veltir því fyrir sér hvernig sagan verði skrifuð um Byrgismálið? Ef niðurstaðan verður sú að Guðmundur fái dóm og jafnvel fleiri starfsmenn, verður þá algerlega litið framhjá því að umfjöllun Kompás hafi gengið alltof langt?