Wednesday, February 14, 2007

Árin með Blogspot og nýtt upphaf

Já. Hér mun ég blogga framvegis, eftir áralanga sambúð með Bloggernum og Blogspot. Það samband var oft stirt á köflum, jafnvel þannig að ég átti það til að reiðast og finnast ég upplifa fullkomið skilningsleysi á mínum þörfum og væntingum. Stundum sauð upp úr með afleiðingum sem ég ætla ekki að fara út í hér og stundum komu tímabil þar sem sambandið var einfaldlega sett á ís.

Þessi kafli í lífi mínu er nú hjá. Hann tilheyrir fortíðinni og eftir að hafa gengið í gegnum þetta held ég að þessi reynsla hafi gert mig sterkari. Ég er allavega tilbúinn að skuldbinda mig á ný.

Ég er sem sagt búinn að færa mig yfir á Moggabloggið - www.arnih.blog.is - þið getið skoðað mig þar.

Friday, February 09, 2007

Stúdentaráðskosningar

Úrslitin úr kosningunum bárust í nótt um þrjúleytið og þá var tilkynnt að Röskva hefði náð meirihluta í Stúdentaráði, Háskólalistinn misst sinn eina mann en Vaka fékk fjóra menn inn í ráðið og er nú, í fyrsta skipti frá árinu 2001, í hreinum minnihluta.

Það munaði ekki miklu, ekki nema 20 atkvæði skildu að Vöku og Röskvu í ár. Það er í anda undanfarinna kosninga að munurinn sé ekki mikill. Í fyrra var að vísu mikill munur á fylkingunum, Vaka fékk rúmlega 300 atkvæðum meira en Röskva en vantaði 4 atkvæði upp á að tryggja sér fimmta manninn. Svipuð staða kom upp árið 2005 en þá vantaði 25 atkvæði upp á að Vaka fengi sinn fimmta mann.

Röskvan tekur mikið stökk, hvort sem litið er á atkvæðafjölda eða prósentur og vinnur meirihlutann. Af bloggsíðum Röskvuliða og því sem ég hef heyrt út undan mér að dæma virðist þetta koma þeim sjálfum nokkuð á óvart, ýmsir hafi spáð því að þetta færi 5-4 fyrir Vöku en enginn þorað að vona að meirihlutinn félli þeim í skaut. En svona gerist þetta stundum.

Ég óska Röskvuliðum til hamingju með sigurinn.

Sunday, January 28, 2007

Nagli í kistu Frjálslyndra

Það verður spennandi að sjá hvaða afleiðingar varaformannsslagurinn í Frjálslynda flokknum hefur. Manni sýnist það augljóst að Margrét Sverrisdóttir söðli um og færi sig um set, annað hvort yfir í annan flokk eða þá að hún fari að gera eitthvað allt annað.

Með þessari niðurstöðu var flokkurinn held ég að reka síðasta naglann í líkkistu ríkisstjórnarsamstarfs á næsta ári. Hófsamur málflutningur Margrétar hefði hugsanlega komið flokknum í samstarf en eftir að talsmenn harðari innflytjendastefnu fóru að taka yfir flokkinn sér maður ekki hverjir vilji standa fyrir því að leiða þessa menn til áhrifa.

Friday, January 26, 2007

Baugsrannsóknin dýr á fóðrum

Ríkið hefur þurft að leggja út nærri 60 milljónir króna í málsvarnarlaun fyrir Baugsmálið. Þokkaleg summa. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína, þrátt fyrir að hafa verið nokkur ár í laganámi, varðandi það hvað megi telja til kostnaðarliða í vörn málsins. Ætli greinargerð Jónatans Þórmundssonar sem var birt í Morgunblaðinu í fyrra á mörgum mörgum blaðsíðum, falli þarna undir?

Ég held samt að það hafi allir tapað þræðinum í þessu máli fyrir löngu síðan. Sýknað, frávísað, endurákært, áfrýjað... þetta er allt orðinn einn grautur. Það virðist allavega liggja fyrir að átta ákæruliðanna 40 sem voru í upphaflegu kærunni, er endanlega úr sögunni.

Monday, January 15, 2007

Hvernig er sagan skrifuð?

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig almenningur dæmir umfjöllun fjölmiðla um einstök mál. T.d. varðandi mál Árna Johnsen á sínum tíma. Það var eitt þeirra mála sem fjölmiðlar grófu upp og umfjöllun þeirra leiddi til þess að hann var dæmdur. Málið er reyndar gott dæmi um að fjölmiðlar þurfa að vera duglegir að spyrjast fyrir og mega ekki sætta sig við að fjalla aðeins um mál sem lögregla eða dómstólar hafa tekið fyrir.

En margt af umfjöllun fjölmiðla á sínum tíma um mál Árna fór engu að síður yfir strikið. Ég t.d. man eftir forsíðu DV þar sem klippt hafði verið saman mynd af Árna hlæjandi og baðandi út höndunum og sett fyrir framan mynd af Þjóðleikhúsinu - svona líkt og hann hefði stillt sér þarna upp sjálfur. Daginn eftir birtist pínulítil leiðrétting inn í blaðinu um að myndin hefði nú verið klippt saman! Uppsláttur í þessum dúr var óþarfi og einungis til þess fallinn að vekja upp aukna reiði í garð Árna. Allt þetta var gert áður en dómstólar höfðu dæmt um sekt eða sakleysi hans. En aðalatriðið er að þegar litið er til baka þá er almannaálitið með fjölmiðlum. Þeir voru hetjurnar og Árni skúrkurinn. Og auðvitað var hann skúrkur málsins með réttu - en það þýðir ekki allt sem fjölmiðlar gerðu á sínum tíma hafi verið innan sanngjarna marka. Það má ekki myndast sú regla að sé maður sekur, jafnvel þingmaður, að fjölmiðlar megi gera það sem þeim sýnist.

Annað mál - og ég tek fram að ég er ekki að líkja þessum tveimur málum saman að öðru leyti en því að þau voru mjög stór í fjölmiðlum - var DV-málið í janúar í fyrra. Þar tók maðurinn sem DV birti mynd af á forsíðunni líf sitt og málið vakti fáheyrða bylgju reiði meðal þjóðarinnar. Og það vissulega með réttu, enda var þetta enn eitt dæmið um ónærgætna umfjöllun þeirra um mál af þessu tagi og framgangur blaðsins hafði einfaldlega gengið fram af þjóðinni. Atburðarrásinni lauk með því að ritstjórarnir létu af störfum. Almenningsálitið féll réttilega ekki fjölmiðlum í skaut þar. Mér finnst þau viðbrögð sem sýnd voru vera frábært dæmi um hvernig almenningur getur látið til sín taka og komið skýrum skilaboðum áleiðis.

En svo er það Kompás-málið núna. Mér finnst ekki spurning að umfjöllun Kompás gekk of langt og margt af því sem þeir sýndu þar var algerlega óviðeigandi. Á það að vera viðfangsefni fréttaskýringarþáttar að sýna myndskilaboð eins og þau sem sýnd voru í þættinum og hafa helst orðið til þess að annar hver landsmaður hefur náð að grínast á kostnað Guðmundar í Byrginu? Hefði umfjöllunin ekki staðið án þess að sýna þessi skilaboð? Voru þau algerlega nauðsynlegur hluti af þættinum?

Það virðist hins vegar það sama upp á teningnum með mál Byrigsins og með mál Árna Johnsens. Byrgið er nú komið í lögreglurannsókn, fjármálaóreiða hefur komið í ljós og Guðmundur forstöðumaður verið kærður til lögreglu af ungri konu, sem var vistmaður og heldur því fram að þau tvö hafi átt í ástarsambandi í tvö ár. Nú er auðvitað allt óljóst um endalok málsins, en maður veltir því fyrir sér hvernig sagan verði skrifuð um Byrgismálið? Ef niðurstaðan verður sú að Guðmundur fái dóm og jafnvel fleiri starfsmenn, verður þá algerlega litið framhjá því að umfjöllun Kompás hafi gengið alltof langt?

Wednesday, January 03, 2007

Áramótaheit og miklar áhyggjur af foreldrum

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að strengja áramótaheit. Kannski er ég enn að ásaka mig fyrir að hafa ekki heimsótt ömmu eins oft og ég ætlaði (áramótaheitið 1992). Ætla þó að strengja eitt núna en af ótta við að jinxa það mun ég halda því leyndu. Treysti samt á að þið haldið með mér í að uppfylla það.

Svo mæli ég með Stranger than Fiction. Ég fékk sem sagt sömu hugmynd og greinilega annar hver Íslendingur, þ.e. að fara í bíó á nýárskvöld, því biðröðin í miðasöluna var eins og á Keflavíkurflugvelli á morgnana. En alveg þess virði, því þetta var fínasta mynd. Will Farrell er góður að vanda og Dustin Hoffmann líka flottur.

Annars er ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af foreldrum mínum og vinum þeirra. Þau hafa undanfarin ár farið á nýársdag á ball '68 kynslóðarinnar á Hótel Sögu. Þetta hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem versta elli-smella samkoma, þar sem gamla fólkið tekur sporið og rifjar upp hvað það var gaman að vera til árið 1968. Hef ég oft haft uppi ómálefnalegar tilraunir til að gera grín að foreldrum mínum fyrir að sækja þennan dansleik, þó ég hafi nú í hjarta mínu alltaf glaðst yfir því að þau skildu fara og skemmta sér. En nú hafa orðið vatnaskil. Mamma og pabbi hafa misst áhugann á þessu balli. Þau eru orðin of gömul fyrir gamlingjaballið.

Ég fór að velta því fyrir mér hvernig gamlingjaball okkar kynslóðar verði? Ætli við munum á gamalsaldri klæðast pokabuxum, setja upp öfugar derhúfur og bling-bling og rifja upp hip-hop tímabilið?

Tuesday, January 02, 2007

Minnislausa stelpan frá Stokkseyri

Múrinn birti svona eins konar ársannáll eða viðurkenningar fyrir árið 2006 um daginn. Ein viðurkenningin er svona:

Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig.

Þarna er sem sagt verið að vísa í endurminningar Margrétar Frímannsdóttur, Stelpan frá Stokkseyri, þar sem hún gagnrýnir meðal annars Steingrím J. Sigfússon og framkomu hans við sig þegar þau voru saman í Alþýðubandalaginu í gamla daga. Múrinn vill sem sagt meina að með þessu hafi Margrét verið að heimfæra endurminningar Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem fjallar um áralanga kynferðislega misnotkun föður hennar, upp á sjálfa sig.

Múrverjar eru oftar en ekki manna heilagastir sjálfir þegar þeir tala um þjóðmálin. Þeir hafa til dæmis talað mikið um kvennabaráttuna og skarðan hlut kvenna í þjóðfélaginu. Margrét Frímannsdóttir segir í bók sinni að það hafi einmitt verið reynsla sín af starfinu í Alþýðubandalaginu að þar hafi karlaklíka ráðið ríkjum. Þessi gagnrýni snýr hins vegar að formanni VG og þar af leiðandi virðist ekkert mark vera á henni takandi.